Dósakirkjan

(Endurbeint frá Tin Can Cathedral)

49°54′44.12″N 97°08′2.93″V / 49.9122556°N 97.1341472°V / 49.9122556; -97.1341472

Seraphim og Dósakirkjan

Dósakirkjan (úkraínska: Бляшана Катедра, enska: Tin Can Cathedral) var fyrsta sjálfstæða úkraínska kirkjan í Norður-Ameríku. Söfnuðurinn var kjarni serafímítakirkjunnar sem varð til í Winnipeg og hafði engin tengsl við nokkra kirkju í Evrópu.

Fyrstu innflytjendurnir frá Úkraínu komu til Kanada 1891, flestir frá héruðum í Austurrísk-ungverska keisaradæminu, Búkóvínu og Galisíu. Þeir sem komu frá Búkóvínu voru í rétttrúnaðarkirkjunni en þeir sem komu frá Galisíu voru í kaþólsku austurkirkjunni. Í báðum hópum var fólk vant býsönskum sið. Um 1903 var voru komnir það margir innflytjendur frá Úkraínu til vesturhluta Kanada að það var farið að huga að trúarleiðtoga, stjórnmálmönnum og skólamönnum til að sjá um menntun fólksins.

Forystumenn

breyta
 
Cyril Genik (1857–1925)

Aðalmaðurinn í hópi innflytjendanna frá Úkraínu var á þessum tíma Cyril Genik (1857-1925). Hann kom frá Galisíu, hafði útskrifast frá Akademíska menntaskólanum í Lviv og stundað laganám stuttan tíma í Chernivtsi-háskóla.[1] Genik var vinur úkraínska rithöfundarins Ivan Franko sem skrifaði Лис Микита („refurinn Mykyta“) og var tilnefndur til Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum. Beitt ádeila Ivan Franko á klerkastéttina og sósíalískar skoðanir voru sennilega samhljóða hugmyndum Geniks sem var góðvinur skáldsins og svaramaður í brúðkaupi hans. Frelsun almennings undan valdi klerkastéttarinnar, ásamt hugmyndum um breytta skipan eignarhalds á landi, var að þeirra mati leiðin til að frelsa smábændur undan ægivaldi landeigenda sem aldrei komu á landareignina en héldu yfirráðunum með leynimakki klerkanna og annarra valdamikilla kirkjunnar manna. Þegar Genik kom til Kanada var hann fyrsti Úkraínumaðurinn sem kanadíska stjórnin réði til að vera umboðsmaður innflytjenda, finna þeim heimili og koma þeim þangað sem þeir áttu að setjast að. Náfrændi Geniks, Ivan Bodrug (1874-1952), og vinur Bodrugs, Negrich (1875-1946), komu einnig frá þorpinu Bereziv í héraðinu Kolomyia og voru barnakennarar í Galisíu. [1] Þessir þrír menn mynduðu kjarna menningarelítunnar í úkraínska samfélaginu í Kanada og voru þekktir sem þríeykið frá Beriziv (Березівська Трійця). Genik, sá elsti þeirra, var sá eini sem var giftur á þessum tíma. Kona hans var Pauline (fædd Tsurkowsky), vel menntuð prestsdóttir og áttu þau þrjá syni og þrjár dætur.[2]

Annar leiðandi maður í samfélaginu var Seraphim biskup en nafn hans var upprunalega Stefan Ustvolsky. Ustvolsky var á endanum gerður brottrækur úr prestastefnu rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Sankti Pétursborg. Saga hans hófst þannig að hann, af persónulegum ástæðum, ferðaðist til Aþosfjalls þar sem hinn helgi Anþimos 7. krafðist þess að vígja hann til biskups (samkvæmt því sem hann sagði þegar hann kom til Nýja heimsins).[3] Eftir vígslu Seraphims ferðaðist hann til Norður-Ameríku með stuttri viðkomu hjá úkraínskum presti í Fíladelfíu. Þegar hann kom til Winnipeg hafði hann engin tengsl við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna eða nokkra aðra kirkjudeild. Úkraínumennirnir á sléttunni litu á hann sem helgan ferðalang, sem er gömul hefð allt frá upphafi kristninnar.[4]

Annar lykilmaður í þeirri atburðarás sem leiddi til stofnunar Dósakirkjunnar var aðstoðarmaður Seraphims sem hét Makarii Marchenco. Marchenko var meðhjálpari eða forsöngvari, var vel kunnugur siðum og hefðum og aðstoðaði Seraphim við að veita kirkjulega þjónustu. Hann kom með Seraphim frá Bandaríkjunum. Adélard Langevin erkibiskup við Kirkju heilags Bónifasíusar, var höfuð biskupsdæmis rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Vestur-Kanada og hafði beint samband við páfann í Róm. Hann var ósáttur við stofnun nýrrar kirkjudeildar og sagði að það væru nógu margir prestar í hans kirkju til að þjóna þeim Úkraínumönnum sem komnir voru.[5] Dr. William Patrick, skólastjóri Manitoba College átti einnig þátt í stofnun Dósakirkjunnar en Manitoba College var skóli öldungakirkjunnar í Manitoba, frjálslynda flokksins í Manitóba og trúboðs rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.

Atburðarás

breyta

Ef hægt er að segja að einstakur atburður hafi hrundið stofnun kirkjunnar af stað má segja að það hafi verið þegar Joseph Bernier sem sat á löggjafarþinginu í Manitóba lagði fram tillögu árið 1902 um að eignir grískra rúþena (Úkraínumenn voru líka kallaðir rúþenar) og stjórn kirkjustarfsins yrði fært til kaþólsku kirkjunnar.[6] Langevin erkibiskup tilkynnti opinberlega „...að rúþenasöfnuðurinn yrði að sanna að hann væri kaþólskur með því að afhenda Rómarkirkjunni eignirnar, en mætti ekki gera eins og mótmælendur þar sem leikmenn stjórna kirkjustarfinu sjálfir án þess að þurfa að ræða við prestinn eða biskup.“[7] Meirihluti úkraínska safnaðarins hafði sýnt áhuga á að taka þátt í safnaðarstarfi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar. Á þessum tíma eyddi rússneska rétttrúnaðarkirkjan $100.000 á ári í trúboðsstarf í Norður-Ameríku.[3] Einnig hafði öldungakirkjan boðið ungum mönnum úr samfélagi Úkraínumanna að stunda nám við Manitoba College (sem í dag er Háskólinn í Winnipeg) þar sem var skipulagt sérstakt nám fyrir unga Úkraínumenn sem vildu verða kennarar (og seinna prestar óháðu grísku kirkjunnar).[8] Skólastjóri Manitoba College, Dr. King, var þýskumælandi og gat því tekið viðtöl við þá Bodrug og Negrich sem vildu komast í skólann. Þeir urðu fyrstu úkraínsku námsmennirnir til að stunda háskólanám í Norður-Ameríku en á þessum tíma var Manitoba College hluti af Manitóbaháskóla.

Genik, Bodrug og Negrich höfðu hraðar hendur til að tryggja stöðu safnaðarins.[9] Þeir fengu Seraphim með sér. Hann kom til Winnipeg í apríl 1903[10] til að koma á fót kirkju sem væri algjörlega sjálfstæð og óháð kirkjum í Evrópu. Þeir vildu ekki eiga samstarf við neina af þeim kirkjudeildum sem fyrir voru í Winnipeg og reyndu það sem þær gátu til að ná innflytjendum frá Úkraínu inn í sína söfnuði. Þeim til mikillar ánægju setti Seraphim upp kirkju sem var kölluð „Orthodox Russian Church“ (ekki „Russian Orthodox“) þar sem hann gerði sig sjálfan að æðsta yfirmanni. Til að friða Úkraínumennina var kirkjan kölluð „Seraphimite Church“ eða serafímítakirkjan. Hann fékk þá innflytjendur sem voru vanir austrænum sið, skipaði djákna og söngstjóra og þann 13. desember 1903 vígði hann til helgihalds litla byggingu á austurhluta MacGregor Street, milli Manitóba og Pritchard Avenue, sem stundum var kölluð kirkja heilags anda.[11] Í nóvember 1904 lét hann hefja byggingu hinnar þekktu „dósakirkju“ á horni King Street og Stella Avenue.[12] „Hinn heillandi Seraphim“ skipaði 50 presta og nokkra djákna, sem margir voru lítið menntaðir, og sinntu þeir skyldum presta út tímabilið, predikuðu óháðan rétttrúnað og eignarhald söfnuðarins á eigum kirkjunnar. Á innan við tveimur árum voru meðlimir safnaðarins orðnir 60.000 talsins.[13]

Óviðeigandi framkoma og vandamál tengd áfengisneyslu[9] urðu til þess að Seraphim missti traust þess fólks sem hafði beðið hann að koma til Winnipeg og við tók leikflétta til að losna við hann án þess að missa það sem hann hafði byggt upp. Seraphim fór til Sankti Pétursborgar til að reyna að fá viðurkenningu og meira fjármagn frá rússneska prestaþinginu til að reka serafímítakirkjuna. Á meðan hann var fjarverandi fóru Ivan Bodrug og Ivan Nerich, sem voru báðir nemendur í guðfræði við Manitoba Collage, ásamt prestum serafímítakirkjunnar og gerðu samning við mótmælendakirkjuna um fjármagn til handa kirkjunni á þeim forsendum að hún yrði gerð að öldungakirkju með tímanum. Seint um haustið 1904 kom Seraphim heim frá Rússlandi en hafði ekki náð neinu fjármagni.[14] Við heimkomuna uppgötvaði hann svikin og bannfærði strax alla presta sem tóku þátt í uppreisninni. Hann lét birta myndir af þeim í öllum staðarblöðunum með nöfnum þeirra á brjóstkassanum eins og þeir væru glæpamenn.[15] Hefnd hans varð skammvinn þegar hann fékk þau skilaboð að hann hefði sjálfur verið bannfærður af rússneska prestaþinginu: „... þegar prestaþingið bannfærði Seraphim og alla hans presta, yfirgaf hann Winnipeg og kom aldrei aftur“.[13]

Eftirmálar

breyta

Í kjölfar þessara trúarlegu og félagslegu átaka varð til samfélag úkraínskra Kanadamanna. Ivan Bodrug, einn af byltingarmönnum í serafímítakirkjunni varð leiðtogi nýrrar sjálfstæðrar kirkju. Hann þótti góður leiðtogi að eðlisfari og predikaði evangelíska kristni vegna áhrifa frá mótmælendakirkjunni. Hann lést um 1950. Óháða kirkjan var á horni Pritchard Avenue og McGregor Street og þrátt fyrir að kirkjan sem fyrst var byggð og Seraphim notaði sem sína fyrstu kirkju hafi verið rifin, þá stendur enn sú sem næst var byggð þar af öldungakirkjusöfnuðinum, beint á móti Ukrainian Labour Temple í norðurhluta Winnipeg.[16]

Langevin erkibiskup nýtti sér völd sín til að reyna að sameina söfnuð Úkraínumanna kaþólsku kirkjunni. Hann stofnaði Basilian Church of St. Nicholas með belgískum presti, föður Achille Delaere og fleirum. Þar messuðu þeir á fornkirkjuslavnesku og predikuðu á pólsku, klæddir samkvæmt grískum sið. Þessi kirkja var á McGregors Street í norðurhluta Winnipeg, beint á móti kirkju úkraínska kaþólska safnaðarins, dómkirkju sem tileinkuð var heilögum Valdimar og Olgu. Þessi samkeppni varð til þess að úkraínsk-kanadísk börn fengu fleiri tækifæri til að tala úkraínsku en ella hefði verið.[15]

Frjálslyndi flokkurinn, sem vissi að Úkraínumenn fylgdu ekki lengur Langevin erkibiskupi og að þeir sem voru kaþólskir hölluðu sér frekar að íhaldsflokknum, tók sig til og stofnaði fyrsta dagblaðið í Kanada sem gefið var út á úkraínsku, Kanadiskyi Farmer, en fyrsti ritstjóri þess var áðurnefndur Ivan Negrich.

Seraphim hvarf 1908 en slóð hans mátti rekja í Ukrainskyi Holos (dagblaði sem enn er gefið út í Winnipeg) þar sem hann seldi Biblíur til verkamanna sem unnu við lagningu járnbrautar í Bresku Kólumbíu alveg til 1913. Önnur saga segir að hann hafi farið til baka til Rússlands.

Cyril Genik flutti með elstu dóttur sinni og syni til Bandaríkjanna. Þau bjuggu einhvern tíma í Norður-Dakóta en síðan snéri Genik til baka og lést 1925.

Makarii Marchenko, sem var fylgismaður Seraphims, útnefndi sjálfan sig ekki aðeins sem biskup yfir serafímítakirkjunni heldur líka erkipatríarka, erkipáfa, erkihöfuðsmann og erkifursta. Og til að eiga enga hættu á að missa völdin bannfærði hann bæði páfann í Róm og rússnesku prestastefnuna.[13] Til eru skrár yfir ferðalög hans um sveitahéruðin þar sem hann predikaði yfir Úkraínumönnum sem þráðu mjög á þessum tíma, og allt fram undir 1940 að finna rætur sínar og upplifa austræna kirkjusiði.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Martynowych, Orest T. Ukrainians in Canada: The Formative Period, 1891-1924. Canadian Institute of Ukrainian Studies Press, University of Alberta, Edmonton, 1991, page 170.
  2. Hryniuk, Stella. Dictionary of Canadian Biography Online, www.biographi.ca/EN/009004-119.01-e.php?id_nbr=8154
  3. 3,0 3,1 Mitchell, Nick. Ukrainian-Canadian History as Theatre in The Ukrainian Experience in Canada: Reflections 1994, Editors: Gerus, Oleh W.; Gerus-Tarnawecka, Iraida; Jarmus, Stephan, The Ukrainian Academy of Arts and Sciences in Canada, Winnipeg, s. 226.
  4. Mitchell, Nick. The Mythology of Exile in Jewish, Mennonite and Ukrainian Canadian Writing in A Sharing of Diversities, Proceedings of the Jewish Mennonite Ukrainian Conference, “Building Bridges”, General Editor: Stambrook, Fred, Canadian Plains Research Center, University of Regina, 1999, page 188.
  5. Martynowych, Orest T. Ukrainians in Canada: The Formative Period, 1891-1924. Canadian Institute of Ukrainian Studies Press, University of Alberta, Edmonton, 1991, page 184.
  6. Martynowych, Orest T. Ukrainians in Canada: The Formative Period, 1891-1924. Canadian Institute of Ukrainian Studies Press, University of Alberta, Edmonton, 1991, page 189.
  7. Winnipeg Tribune 25 February 1903.
  8. Martynowych, Orest T. Ukrainians in Canada: The Formative Period, 1891-1924. Canadian Institute of Ukrainian Studies Press, University of Alberta, Edmonton, 1991, page 192
  9. 9,0 9,1 Yereniuk, Roman, A Short Historical Outline of the Ukrainian Orthodox Church of Canada, www.uocc.ca/pdf, page 9
  10. Martynowych, Orest T. Ukrainians in Canada: The Formative Period, 1891-1924. Canadian Institute of Ukrainian Studies Press, University of Alberta, Edmonton, 1991, page 190
  11. Martynowych, Orest T., The Seraphimite, Independent Greek, Presbyterian and United Churches, umanitoba.ca/...canadian.../05_The_Seraphimite_Independent_Greek_Presbyterian_and_United_Churches.pdf -, page 1
  12. Martynowych, Orest T., The Seraphimite, Independent Greek, Presbyterian and United Churches, umanitoba.ca/...canadian.../05_The_Seraphimite_Independent_Greek_Presbyterian_and_United_Churches.pdf -, page 2
  13. 13,0 13,1 13,2 Bodrug, Ivan. Independent Orthodox Church: Memoirs Pertaining to the History of a Ukrainian Canadian Church in the Years 1903-1913, translators: Bodrug, Edward; Biddle, Lydia, Toronto, Ukrainian Research Foundation, 1982, page xiii
  14. Bodrug, Ivan. Independent Orthodox Church: Memoirs Pertaining to the History of a Ukrainian Canadian Church in the Years 1903-1913, translators: Bodrug, Edward; Biddle, Lydia, Toronto, Ukrainian Research Foundation, 1982, page 81
  15. 15,0 15,1 Mitchell, Nick. Ukrainian-Canadian History as Theatre in The Ukrainian Experience in Canada: Reflections 1994, Editors: Gerus, Oleh W.; Gerus-Tarnawecka, Iraida; Jarmus, Stephan, The Ukrainian Academy of Arts and Sciences in Canada, Winnipeg, page 229
  16. Martynowych, Orest T. Ukrainians in Canada: The Formative Period, 1891-1924. Canadian Institute of Ukrainian Studies Press, University of Alberta, Edmonton, 1991, photograph 47.

Tengt efni

breyta

Ritaskrá

breyta
  • Bodrug, Ivan. Independent Orthodox Church: Memoirs Pertaining to the History of a Ukrainian Canadian Church in the Years 1903-1913, translators: Bodrug, Edward; Biddle, Lydia, Toronto, Ukrainian Research Foundation, 1982.
  • Hryniuk, Stella, GENYK, CYRIL - Dictionary of Canadian Biography Online, www.biographi.ca/EN/009004-119.01-e.php?id_nbr=8154
  • Manitoba Free Press, issues of 10 October 1904, 20 January 1905, 28 December 1905.
  • Martynowych, Orest T., The Seraphimite, Independent Greek, Presbyterian and United Churches, umanitoba.ca/...canadian.../05_The_Seraphimite_Independent_Greek_Presbyterian_and_United_Churches.pdf -
  • Martynowych, Orest T. Ukrainians in Canada: The Formative Period, 1891-1924. Canadian Institute of Ukrainian Studies Press, University of Alberta, Edmonton, 1991.
  • Maruschak, M. The Ukrainian Canadians: A History, 2nd ed., Winnipeg: The Ukrainian Academy of Arts and Sciences in Canada, 1982.
  • Mitchell, Nick. The Mythology of Exile in Jewish, Mennonite and Ukrainian Canadian Writing in A Sharing of Diversities, Proceedings of the Jewish Mennonite Ukrainian Conference, "Building Bridges", General Editor: Stambrook, Fred, Canadian Plains Research Center, University of Regina, 1999.
  • Mitchell, Nick. Ukrainian-Canadian History as Theatre in The Ukrainian Experience in Canada: Reflections 1994, Editors: Gerus, Oleh W.; Gerus-Tarnawecka, Iraida; Jarmus, Stephan, The Ukrainian Academy of Arts and Sciences in Canada, Winnipeg.
  • Winnipeg Tribune, issue of 25 February 1903.
  • Yereniuk, Roman, A Short Historical Outline of the Ukrainian Orthodox Church of Canada.

Ytri tenglar

breyta