Ferming er ungmennavígsla þar sem ungmenni eru vígð inn í samfélag fullorðinna og er oftast framkvæmd um kynþroskaaldur. Félagshópar, fjölskyldur og þjóðfélög aðgreina stöðu og hlutverk einstaklinga á margvíslegan hátt með siðum og venjum til þess að tryggja félagslega reglu og samhæfða verkaskiptingu.

Ungmennavígslan tengist kynþroskatímabilinu og táknar það að einstaklingurinn er ekki lengur barn heldur ungmenni sem mætir í alvöru viðfangsefnum hinna fullorðnu og öðlast bæði réttindi og skyldur. Í mörgum samfélögum eru það talin mikil tímamót þegar unglingur er tekinn í tölu fullorðinna. Þá verður hann fullgildur meðlimur viðkomandi samfélags. Slíkt er gert á táknrænan hátt í athöfn sem meðal annars er kölluð manndómsvígsla.[1] Fermingar geta verið trúarlegar og veraldlegar (borgaralegar). Margir foreldrar leggja mikið upp úr því að halda veglegar fjölskylduhátíðir í tilefni fermingar. [2] Unglingnum eru gefnar gjafir við það tilefni.

Fermingarsiðir á Íslandi breyta

 
Búðakirkja

Íslenska þjóðkirkjan breyta

Á Íslandi hefur tíðkast að fermast í kirkju þar sem meirihluti íbúa er lútherskrar trúar. Ferming þýðir staðfesting (latína confirmare), staðfesting á trúnni. Fermingarbarnið staðfestir að það vilji tilheyra Jesú Kristi og fylgja því sem hann boðaði. Fermingarbarnið fer með trúarjátninguna, vinnur fermingarheit og þiggur fyrirbæn og blessun. Ferming fer fram á aldrinum 10-15 ára, en þó algengast að börn séu á fjórtánda ári.

Prestar framkvæma fermingu við messu. Til þess að öðlast rétt til að mega fermast stundar fermingarbarnið sérstakt nám í kristnum fræðum hjá presti sínum eða fermingarfræðara, sem kallast fermingarfræðsla. Heimild er fyrir því að barn megi vera til altaris með foreldrum sínum frá unga aldri, en meginreglan er þó sú að við ferminguna eða á meðan fermingarfræðslan stendur yfir, neyti barn í fyrsta sinn kvöldmáltíðarsakramentisins.

Ásatrú breyta

 
Óðinn og Gunnlöð

Á vegum Ásatrúarfélagsins er haldin Siðfestuathöfn eða Siðmál sem fer fram með hefðbundnu blóti en að undangenginni fræðslu hjá goðum þar sem farið er yfir megininntak heiðins siðar. Er það fyrir ungmenni sem og fullorðna sem vilja dýpka skilning sinn á heiðnum sið. Er farið yfir megininntakið sem er ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér, heiðarleiki, umburðarlyndi gagnvart trú og lífsskoðunum annarra og virðing fyrir náttúrunni og öllu lífi. Undirbúningi lýkur með því að ungmennið eða hinn fullorðni les og hugleiðir sérstaklega Hávamál.

Siðmennt breyta

Félagið Siðmenntar hefur frá árinu 1989 boðið upp á borgaralega fermingu sem tengist ekki trúarbrögðum en er öllum opin. Megintilgangur borgararlegrar fermingar er að efla heilbrigði og farsæl viðhorf unglinga til lífsins sem og að kenna þeim að bera virðingu fyrir manninum, menningu hans og umhverfi.

Nemendur kynnast mikilvægi gagnrýninnar hugsunar, hvernig tilfinningar hafa áhrif á líf þeirra og annarra og ábyrgð þeirra á sínu eigin lífi, hvort sem það tengist hinu líkamlega eða andlega. Samskipti manna á milli eru skoðuð og mikilvægi þess að standa við orð sín. Brýnt er fyrir þeim að þekkja vel réttindi sín og skyldur. Enn fremur að þekkja og virða ólík trúarbrögð og veraldlegar lífsskoðanir því einungis með upplýstum hug sé hægt að skilja hugsanir og gerðir fólks.

Ekki er nauðsynlegt að vera skráður í Siðmennt og raunar er 16 ára aldurstakmark til slíkrar skráningar. Foreldrar fermingarbarns þurfa heldur ekki að vera meðlimir Siðmenntar. Öllum er frjálst að fermast borgaralega, hvort sem fólk er skráð í trúfélög eður ei.[3]

Zion breyta

Zion á Íslandi blessar sveina í samkunduhúsi í borginni eftri 13. afmælisdag þeirra. Sveinarnir hafa þá fengið uppfræðslu í lögmálinu og er falið að lesa uppúr því við guðsþjónustu. Verður sveinninn við ferminguna sonur lögmálsins eða Bar Mitzvah.

 
Buddha

Búddadómur breyta

Ekki þarf að staðfesta trúna með fermingu eða annarri manndómsvígslu við búddhadóm, en á Íslandi er algengt að unglingar vilji vera eins og flestir íslenskir unglingar og fermast.

Íslam breyta

Í Islam eru engar ungdómsvígslur en farið er að gera sömu kröfur til unglinga og hinna fullorðnu varðandi, trúarlegar skyldur.

Hindúatrú breyta

Manndómsvígsla er haldin fyrir barn á aldrinum 8 - 12 ára meðal Hindúa. Þá telst barnið orðið nógu gamalt til að læra meira um trúna. Kallast þetta hinn heilagi þráður og er yfirleitt haldin fyrir drengi en stundum stúlkur. Fer athöfnin fram á heimili barnsins.

Tilvísanir breyta

  1. Hvað er manndómsvígsla Vísindavefur. Skoðað 8. mars, 2016.
  2. Hver er uppruni fermingarinnar? Vísindavefur. Skoðað 1. febrúar, 2016.
  3. Hvernig er borgaraleg ferming? Vísindavefur. Skoðað 1. febrúar 2016.

Heimildir breyta

  1. Þjóðkirkjan [1]
  2. Fermingar Geymt 18 desember 2015 í Wayback Machine [2] Geymt 18 desember 2015 í Wayback Machine
  3. Siðmennt [3]
  4. Zion á Íslandi Geymt 6 febrúar 2016 í Wayback Machine [4] Geymt 6 febrúar 2016 í Wayback Machine
  5. Ásatrú á Íslandi [5]
  6. Búddha á Íslandi [6]
  7. Islam á Íslandi Geymt 17 maí 2014 í Wayback Machine [7] Geymt 17 maí 2014 í Wayback Machine
  8. Hindúatrú[óvirkur tengill] [8][óvirkur tengill]