Þóra Hallgrímsson

Margrét Þóra Hallgrímsson (28. janúar 1930 - 27. ágúst 2020) var íslensk athafna- og viðskiptakona.[1] Þóra var eiginkona Björgólfs Guðmundssonar athafnamanns og var ásamt honum áberandi í íslensku menningar- og viðskiptalífi á árunum 2002-2008. Hún var líka fyrirmynd að persónu í skáldsögunni Sakleysingjarnir eftir Ólaf Jóhann Ólafsson.[2]

Þóra var fædd í Reykjavík, dóttir hjónanna Hallgríms Fr. Hallgrímssonar, forstjóra Skeljungs og aðalræðismanns Kanada, og Margrétar Þorbjargar Thors. Margrét var dóttir Thors Jensen athafnamanns og Margrétar Þorbjargar Kristjánsdóttur og systir Ólafs Thors forsætisráðherra.

Þóra giftist Hauki Clausen, frjálsíþróttakappa og síðar tannlækni, 6. janúar 1951 en þau skildu rúmu ári síðar. Þau áttu saman einn son. Þann 3. október 1953 giftist Þóra George Lincoln Rockwell [3], foringja í bandaríska hernum og síðar stofnanda Bandaríska nasistaflokksins, og fluttist fljótlega með honum til Bandaríkjanna þar sem þau bjuggu lengst af við kröpp kjör. Fór svo að Þóra flutti aftur til Íslands með börn þeirra þrjú að áeggjan fjölskyldu sinnar og skildi við Rockwell.[4]

Árið 1963 giftist Þóra Björgólfi Guðmundssyni, sem er 11 árum yngri en hún. Þau eignuðust einn son, Björgólf Thor, en Björgólfur eldri ættleiddi börn Þóru og Rockwells. Dóttursonur Þóru er knattspyrnumaðurinn Björgólfur Takefusa.

Árið 2005 kom út bókin Thorsararnir eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing, um sögu afkomenda Thors Jensen. Í fyrsta upplagi bókarinnar var kafli um hjónaband Þóru og Rockwells. Bókin kom út hjá Eddu en Björgólfur, sem þá var eigandi útgáfufyrirtækisins, lét farga upplaginu og fékk höfundinn til að breyta textanum. Hann reyndi einnig að kaupa DV, sem hafði fjallað um málið, til að leggja blaðið niður.[5]

Tilvísanir breyta

  1. Frettabladid.is, „Þóra Hallgrímsson er látin“ (skoðað 29. ágúst 2020)
  2. Aldarspegill sakleysingjanna. Morgunblaðið, 31. október 2004.
  3. Brúðkaup; brúðkaupstilkynning í Morgunblaðinu 1953
  4. This Time The World, sjálfsævisaga George Lincoln Rockwell“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 16. maí 2017. Sótt 7. maí 2011.
  5. Ritskoðari einokar dagblaðamarkað. DV, 1. nóvember 2008.

Tenglar breyta