Tatarar

Tyrkískir þjóðernishópar í Asíu og Evrópu
(Endurbeint frá Tartarar)

Tatarar (einnig Tartarar í eldra máli) eru þjóðernishópar sem tala tyrkísk mál og búa í Austur-Evrópu og Mið-Asíu, einkum í Tatarstan við ána Volgu. Tatarar aðhyllast flestir íslamstrú og tala tatörsku og skyld tungumál.

Tatarakonur í Kákasus undir lok 19. aldar.

Tatarar voru um rúmlega 10 milljónir talsins undir lok 20. aldar.[1]

Elstu heimildir fyrir notkun nafnsins Tatarar eru frá byrjun fimmtu aldar. Heitið virðist upphaflega hafa verið notað um hirðingjahópa frá norðausturhluta Mongólíu.[1]

Orðmyndin Tartarar kann að vera tilkomin vegna misskilnings um að þjóðflokkurinn héti eftir gríska orðinu Tartarus, sem merkir „undirheimar“. Á íslensku hefur þessi orðmynd öðlast neikvæða skírskotun, en í Íslensku orðsifjabókinni er orðið Tartari skilgreint sem: „Maður af þjóðflokki tatara; viðskotaillur, grimmlyndur maður“.[1]

Í eldra máli voru orðin Tatari og Tartari oft notuð sem heiti yfir Rómafólk.[2] Þessi notkun orðsins hefur lagst af í seinni tíð.

Söguágrip

breyta
 
Tatarar í Kazan árið 1870.

Orðið Tatarar var á 13. öld notað um Mongóla sem tóku þátt í landvinningum Mongólaveldisins. Rússland komst að mestu undir þeirra stjórn og laut mongólskri stjórn í um eina og hálfa öld. Eftir sundrungu Mongólaveldisins var ríki Tatara í Mið-Asíu kallað Gullna hordan og hafði höfuðstað sinn neðst við Volgu.[3]

Gullna hordan leystist upp á 15. öld og skiptist í nokkur smærri furstadæmi, eða kanöt. Eitt þeirra var Krímkanatið á Krímskaga, annað var Kazankanatið í miðjum Volguhéruðunum, sem hafði höfuðstað í borginni Kazan.[3]

Á valdatíð Ívans grimma á 16. öld lagði rússneska keisaradæmið undir sig Kazankanatið og opnaði þannig leið Rússa til Síberíu. Margir Tatarar voru í kjölfarið ráðnir í þjónustu keisaradæmisins og gátu sér orð sem færir knapar og óvægnir hermenn.[3]

Krímtatarar í Krímkanatinu héldu sjálfstæði sínu lengur og nutu lengst af verndar Tyrkjasoldáns. Þeir gerðu á þessum tíma ítrekaðar árásir á nágrannaríkin og héldu í ránsferðir til að hneppa fólk í þrældóm og selja á þrælamörkuðum. Rússar sigruðu Tyrkjaveldi í stríði árið 1774 sem leiddi til þess að Tyrkir glötuðu áhrifum sínum á Krímskaga og Krímkanatið varð að leppríki Rússa. Katrín mikla limaði Krímkanatið síðan beint inn í Rússaveldi árið 1783.[4]

Eftir innlimun Krímskaga í Rússaveldi hvöttu Rússakeisarar Tatara til að yfirgefa landið og margir þeirrar fluttust burt, einkum til Tyrkjaveldis. Eftir rússnesku byltinguna 1917 lét Vladímír Lenín hins vegar gefa Töturum eigið sjálfsstjórnarlýðveldi innan rússneska sovétlýðveldisins í Sovétríkjunum. Tatarískir þjóðernissinnar sættu ofsóknum í Sovétríkjunum á fjórða áratugnum og um 30.000-40.000 Tatarabændur voru fluttir nauðungarflutningum til Síberíu.[5]

Eftir seinni heimsstyrjöldina lét Jósef Stalín gera Krímtatara brottræka frá Krímskaga og koma þeim fyrir sem landnemum í Úsbekistan. Nauðungarflutningarnir á Krímtöturum voru réttlættir með vísan til grunsemda Stalíns um að þeir hefðu upp til hópa verið samstarfsmenn hernámsliðs Þjóðverja á stríðsárunum. Starfsmönnum leynilögreglunnar NKVD var falið að reka Krímtatara burt frá Krímskaga.[4] Alls voru um 250.000 Krímtatarar fluttir með valdi frá heimkynnum sínum og talið er að um helmingur þeirra hafi dáið á leiðinni til Úsbekistan.[5]

Sovésk stjórnvöld báðu Krímtatara afsökunar fyrir nauðungarflutningana árið 1967 en gáfu þeim ekki leyfi til að snúa heim til Krímskaga.[5] Fyrstu Krímtatararnir fengu loksins heimild til að snúa aftur á Krímskaga árið 1988.[6]

Tatarísk þjóðernishyggja jókst á lokaárum Sovétríkjanna. Eftir hrun Sovétríkjanna og stofnun rússneska sambandsríkisins neitaði stjórn Tatarstan í fyrstu að undirrita sáttmála sem átti að tryggja að Tatarstan yrði áfram hluti af Rússlandi. Árið 1992 héldu yfirvöld í Tatarstan þjóðaratkvæðagreiðslu í óþökk rússnesku stjórnarinnar þar sem meirihluti Tatara kaus „sjálfsstjórn“ og í kjölfarið lýsti þingið í Tatarstan yfir fullveldi.[3] Rússneskur stjórnlagadómstóll lýsti þjóðaratkvæðagreiðsluna og fullveldisyfirlýsinguna hins vegar ólöglegar og Tatarstan hefur áfram verið hluti af rússneska sambandsríkinu.[7]

Hópar Tatara

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Hafliði Marteinn Hlöðversson (4. júní 2007). „Hverjir eru tartarar og hvar eru þeir núna?“. Vísindavefurinn. Sótt 22. apríl 2024.
  2. Sjá t.d. notkun orðsins í þýðingu Björgúlfar Ólafssonar á Maríukirkjunni í París frá 1948.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Dagur Þorleifsson (3. apríl 1993). „„Hefnd er það sem þeir vilja". Tíminn. bls. 8-9.
  4. 4,0 4,1 Vera Illugadóttir. „Krímtatarar“. RÚV. Sótt 22. október 2022.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Tatarar snúa sér á ný gegn Moskvuvaldinu“. Morgunblaðið. 7. ágúst 1987. bls. 22.
  6. „Fyrstu Krímtatararnir fá að snúa heim“. mbl.is. 6. maí 1988. Sótt 22. október 2022.
  7. „Конституция Республики Татарстан : Республика Татарстан“. 25. september 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. september 2006.