Ívan grimmi

Ívan grimmi eða Ívan 4. Vasilíjevitsj (25. ágúst 153028. mars 1584), var fursti af Moskvu frá 1533 og fyrsti keisari Rússlands frá 26. janúar 1547 til dauðadags. Á langri valdatíð hans lögðu Rússar undir sig kanötin Kazan, Astrakhan og Síberíu og við það breyttist Rússland í fjölþjóðlegt ríki sem náði yfir rúmar fjórar milljónir ferkílómetra. Á tíma Ívans urðu miklar breytingar á landinu og það breyttist úr miðaldaríki í stórveldi sem hafði vaxandi áhrif í sínum heimshluta.

Skjaldarmerki Rúriksætt Keisari Rússlands
Rúriksætt
Ívan grimmi
Ívan 4.
Ríkisár 16. janúar 154728. mars 1584
SkírnarnafnÍvan Vasilíjevitsj
Fæddur25. ágúst 1530
 Kolomenskoje, Rússlandi
Dáinn28. mars 1584 (53 ára)
 Moskvu, Rússlandi
GröfDómkirkju erkiengilsins, Moskvu
Konungsfjölskyldan
Faðir Vasilíj 3.
Móðir Elena Glinskaia
Keisaraynjur
  • Anastasía Rómanovna
  • María Temrjukovna
  • Marfa Sobakina
  • Anna Koltovskaja
  • Anna Vasilstjikova
  • Vasilísa Melentjeva
  • María Dolgorukaja
  • María Nagaja
BörnDímítrí Ívanóvitsj, Ívan Ívanóvitsj, Fjódor Ívanóvitsj, Dímítrí Ívanóvitsj

Sagnfræðiheimildir gefa ólíkar myndir af flóknum persónuleika Ívans: honum hefur verið lýst sem skörpum og trúföstum manni sem hætti til skapofsakasta og geðveilu. Í einu bræðikastinu varð hann valdur að dauða sonar síns og erfingja, Ívans Ívanovitsj. Það varð til þess að eftir lát Ívans fór keisarakórónan til yngri sonar hans, Fjodors 1., sem var heilsuveill og veikur stjórnandi og samkvæmt sumum heimildum andlega fatlaður.

Viðurnefni Ívans á rússnesku er Ívan Grosnij (eða Ива́н Гро́зный á kyrillísku letri​). Viðurnefni hans á íslensku, „hinn grimmi“, er ekki beinþýðing á orðinu grosnij. Viðurnefnið Grosnij í beinni þýðingu gæti útlagst sem „hinn ógurlegi“. Rússneska viðurnefnið hefur ekki eins neikvæða skírskotun og þýðingar þess á flestum öðrum tungumálum, enda var Ívan vinsæll stjórnandi meðal rússneskra bænda þrátt fyrir harðræði sitt gagnvart aðlinum.

ÆviágripBreyta

Ívan var aðeins þriggja ára þegar faðir hans, Vasilíj 3. stórfursti af Moskvu, lést. Því tók ráð ríkisstjóra skipað bojurum við stjórn landsins. Á valdatíð ríkisstjóraráðsins fór móðir Ívans, Elena Glinskaia, með flest völd, og var lengi vel álitin þjóðhöfðingi til jafns við son sinn. Elena lést árið 1538 og í kjölfarið tóku bojararnir völdin í ríkisstjóraráðinu. Ívan óx úr grasi innan um stöðug launráð, fláræði og valdatafl bojaranna og ól með sér hatur á rússnesku yfirstéttinni.

Keisaratíð ÍvansBreyta

Ívan tók formlega við völdum þegar hann varð sextán ára árið 1547. Í stað þess að krýna sig aðeins stórfursta af Moskvu líkt og faðir hans hafði verið tók Ívan sér titilinn „keisari allra Rússa“ og hélt veglega krýningarathöfn. Með því að taka sér þennan titil gerði Ívan tilkall til arfleifðar austrómverska keisaradæmisins, sem hafði liðið undir lok tæpri öld áður. Föðuramma Ívans, Sofía Paleólóga, hafði verið bróðurdóttir Konstantíns Paleólógosar, síðasta austrómverska keisarans.[1] Rússar töldu sig því eiga tilkall til þess að vera hin „þriðja Róm“, hinsta höfuðvígi kristins rétttrúnaðar á eftir Róm og Konstantínópel. Stuttu eftir að Ívan var krýndur keisari giftist hann aðalskonunni Anastasíu Rómanovnu. Anastasía lést árið 1560 en gjarnan er talið að hún hafi haft jákvæð áhrif á Ívan og að stjórn hans hafi farið á verri veg eftir dauða hennar.

Frá árinu 1552 einkenndist valdatíð Ívans af landvinningum Rússa til austurs. Á keisaratíð Ívans lögðu Rússar undir sig kanötin Kazan, Astrakan og Síberíu.[2] Þessir landvinningar lögðu grunninn að alþjóðaveldi Rússa og gerðu rússneska keisaradæmið að fjölþjóðasamfélagi. Landvinningarnir og þörfin á vinnuafli til að nýta nýja landsvæðið stuðluðu hins vegar einnig að því að Ívan setti lög sem festu bændur við jarðirnar þar sem þeir unnu. Með þessu var mikilvægt skref tekið í átt til bændaánauðarinnar sem síðar átti eftir að tíðkast í Rússlandi.

Viss þáttaskil urðu á valdatíð Ívans árið 1553, stuttu eftir að Kazan var lagt undir Rússaveldi. Ívan veiktist alvarlega og var allt útlit fyrir að dagar hans væru taldir. Ívan bað hirðmenn sína að sverja syni hans, Dímítrí, hollustu sína og viðurkenna hann sem næsta keisara. Þetta voru bojararnir mjög tregir til að gera þar sem ríkisarfinn var barnungur og vildu mun heldur að frændi Ívans tæki við sem keisari. Öllum að óvörum batnaði Ívani skyndilega og hann náði sér að fullu, en hann fyrirgaf bojurunum aldrei fyrir að véfengja erfðarétt sonar hans og hatur hans á þeim varð heitara en nokkru sinni fyrr.

Harðstjórnartímabil ÍvansBreyta

 
Málverk af Ívani grimma eftir að hafa drepið son sinn eftir Ilja Repin (1885).

Árið 1564 hafði Ívan fengið sig fullsaddan af því að deila völdum með bojurunum. Hann einangraði sig í klaustri fyrir utan höfuðborgina og lýsti því yfir að hann hygðist segja af sér. Bojararnir gátu hins vegar ekki stýrt ríkinu án Ívans og því grátbáðu þeir Ívan um að snúa aftur og sitja áfram sem keisari. Ívan féllst á að snúa aftur, en aðeins með því skilyrði að þaðan af yrði hann fullkomlega óskoraður einvaldur.

Þegar Ívan sneri aftur stofnaði hann sérstaka hersveit málaliða til þess að treysta völd sín gagnvart aðalsstéttinni. Hersveitin gekk undir nafninu opritsnjika og meðlimir hennar voru þess eiðsvarnir að helga líf sín keisaranum einum.[1] Opritsnjikarnir klæddust svörtum einkennisbúningum og riðu svörtum hestum með svörtu söðulreiði með hundshaus og kúst á knakkborganum. Þessi tákn merktu að þeir myndu bíta og éta óvini sína og sópa burt óvinum keisarans.[1]

Ívani áskotnaðist viðurnefnið „hinn grimmi“ vegna herfarar sinnar gegn borginni Hólmgarði.[2] Ívan var þess fullviss að vegna aðfara sinna gegn rússneska aðlinum væri aðeins tímaspursmál hvenær uppreisn yrði gerð gegn honum.[1] Eftir að Ívani bárust orðrómar um að íbúar Hólmgarðs væru í viðræðum um að hefja uppreisn með hjálp Póllandskonungs hélt hann ásamt opritsnjikunum og sat um borgina.[2] Á leiðinni til Hólmgarðs rændi her Ívans klaustur og kveikti í borginni Tver.[1] Þegar Ívan kom til Hólmgarðs lét hann kalla saman aðalsmenn borgarinnar, pynta þá og síðan drekkja þeim í ánni aftir að hafa gert dýrgripi þeirra upptæka. Fjöldaaftökur Ívans í Hólmgarði stóðu yfir í fimm vikur og á þeim tíma létust um 500 manns á hverjum degi.[2] Einnig lét Ívan jafna verslanir og íbúðarhús í útjaðri borgarinnar við jörðu.[2]

Fjöldaaftökum og ofsóknum Ívans lauk eins skyndilega og þær höfðu hafist, en Ívan var enn sem áður oft gripinn æðisköstum þar sem hann gat verið hættulegur umhverfi sínu. Í einu slíku æðiskasti árið 1582 sló Ívan son sinn og erfingja, Ívan Ívanovítsj, með gullsprota sínum svo hann hlaut bana af.[2] Ívan hafði elskað son sinn og tilhugsunin um að yngri sonur hans, Fjodor, sem var veill á geði, myndi erfa ríkið píndi Ívan á síðustu árum hans.[1] Ívan lést árið 1584, þá 53 ára að aldri, á meðan hann tefldi við vin sinn, Bogdan Belskíj. Fjodor varð keisari á eftir Ívani en helsti ráðgjafi Ívans, Boris Godúnov, fór með öll völd í reynd.[1]

TilvísanirBreyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 Robert Payne (6. október 1963). „Engum öðrum manni líkur“. Morgunblaðið. Sótt 14. desember 2018.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 „Af Ívani grimma keisara“. Tíminn. 10. júlí 1966. Sótt 15. desember 2018.


Fyrirrennari:
Vasilíj 3.
Stórfursti af Moskvu
(3. desember 153316. janúar 1547)
Eftirmaður:
Hann sjálfur sem Rússakeisari
Fyrirrennari:
Hann sjálfur sem Stórfursti af Moskvu
Rússakeisari
(16. janúar 154728. mars 1584)
Eftirmaður:
Fjodor 1.