Sumarólympíuleikarnir 1906

Sumarólympíuleikarnir 1906 voru haldnir í Aþenu 22. apríl til 2. maí 1906 í tilefni af tíu ára afmæli fyrstu nútímaólympíuleikanna. Í dag eru leikar þessir ekki viðurkenndir sem fullgildir Ólympíuleikar. Mikilvægi þeirra í Ólympíusögunni er samt ótrírætt þar sem með þeim var nýju lífi blásið í Ólympíuhreyfinguna eftir frekar misheppnaða leika árin 1900 og 1904.

Panathinaiko-leikvangurinn 1906
Lyftingakeppnin 1906
Austurríkismaðurinn Josef Steinbach keppir í kraftlyftingum á Aþenuleikunum, Grikkinn Dimitrios Tofalos fylgist með. Þeir hlutu hvor sín gullverðlaunin í lyftingakeppninni

Aðdragandi breyta

Fyrstu ólympíuleikarnir nútímans voru haldnir í Aþenu árið 1896. Þjóðernissinnaðir Grikkir létu sig dreyma um að leikarnir yrðu bundnir við Grikkland. Alþjóðaólympíunefndin var á öðru máli og vildi færa leikana milli stórborga á fjögurra ára fresti. Sú málamiðlun varð ofaná árið 1901 að frá og með 1906 skyldi Aþena fá að skipuleggja Ólympíumót til hliðar við aðalleikana á fjögurra ára fresti. Sú niðurstaða var þó í óþökk Pierre de Coubertin, aðalforsprakka hreyfingarinnar.

Ólympíuleikarnir 1900 og 1904 voru að ýmsu leyti misheppnaðir. Þeir teygðust yfir margra mánaða tímabil og féllu í skuggann af heimssýningum sem haldnar voru um sama leyti. Áhuginn á hinum nýendurreistu Ólympíuleikum virtist því á fallanda fæti. Hinir óformlegu Ólympíuleikar 1906 breyttu þessu.

Leikarnir breyta

Grísk stjórnvöld studdu rausnarlega við bakið á íþróttamótinu og tryggðu að umgjörð þess yrði hin glæsilegasta. Þátttakendur voru um 900 frá nítján löndum.

Ýmsar nýjungar voru kynntar til sögunnar sem í dag þykja sjálfsagður hluti af framkvæmd Ólympíuleika: s.s. sérstök lokaathöfn, sá siður að draga að húni þjóðfána verðlaunahafa, hópganga íþróttamanna undir fánum sínum við setningarathöfnina og komið var upp vísi að Ólympíuþorpi þar sem keppendur gistu meðan á leikunum stóð.

Frakkar hlutu flest verðlaun á leikunum, því næst komu Bandaríkjamenn og Grikkir. Norðmenn hlutu flest gullverðlaun Norðurlandaþjóða, fern talsins.

Keppnisgreinar breyta

Keppt var um 78 gullverðlaun í þrettán íþróttaflokkum (fjöldi gullverðlauna gefinn upp í sviga).

Einstakir afreksmenn breyta

 
Peter O´Connor tryggir sér gullverðlaunin í þrístökki í Aþenu

Danir urðu vandræðalítið Ólympíumeistarar í knattspyrnu, en auk þeirra kepptu þrjú lið skipuð Grikkjum á mótinu, þar af tvö sem tilheyrðu Ottómanaveldinu. Danska liðið vann báða leiki sína, 5:1 og 9:0, en seinni leiknum var hætt eftir 45 mínútur. Þátttaka Dana í keppninni skýrðist af því að gríski krónprinsinn var tengdasonur Kristjáns níunda Danakonungs.

Írskur þjóðernissinni, Peter O´Connor, vann til gullverðlauna í þrístökki og silfurverðlauna í langstökki, 34 ára að aldri. O´Connor hafði verið skráður til leiks sem Breti, enda Írland ekki sjálfstætt ríki. Við verðlaunaafhendinguna fyrir langstökkið tókst O´Conor ásamt bandarískum og írskum félögum að halda á lofti fána írskra þjóðernissinna, en koma í veg fyrir að breski fáninn væri dreginn að hún. Er þetta líklega fyrsta dæmið um pólitíska mótmælaaðgerð á Ólympíuleikum.

 
William Sherring

Kanadabúinn William Sherring fór með sigur af hólmi í Maraþonhlaupinu. Hann var verkamaður við kanadísku járnbrautirnar og þurfti að mestu að fjármagna ferðalag sitt sjálfur. En náði þó að öngla saman fyrir farseðli. Hann vann sem lestarstarfsmaður í Aþenu í tvo mánuði fyrir leikana og náði þannig að venjast aðstæðum. Sherring fékk styttu af gyðjunni Aþenu og lamb að sigurlaunum.

Bandaríkjamaðurinn Martin Sheridan vann tvenn gullverðlaun og þrenn silfurverðlaun fyrir stökk- og kastgreinar. Hann var efstur á verðlaunapalli í kringlukasti 1904, 1906 og 1908.

Tennisleikarinn Max Decugis frá Frakklandi vann til þriggja gullverðlauna á leikunum. Hann hafði unnið til silfurverðlauna í tvíliðaleik árið 1900, þá átján ára að aldri. Tuttugu árum síðar, á ÓL 1920 vann hann til verðlauna í tvenndarleik. Fáir, ef nokkrir, hafa unnið til verðlauna á ÓL með svo löngu millibili.

Bandaríkjamaðurinn Ray Ewry vann til tveggja gullverðlauna á leikunum, en auk þeirra gat hann státað af átta gullverðlaunum á viðurkenndum Ólympíuleikum sem gerir hann að einum öflugasta ÓL-íþróttamanni sögunnar. Öll verðlaun Ewrys voru fyrir keppni í stökkgreinum án atrennu. Heimsmet hans í langstökki án atrennu, 3,48 metrar var enn við lýði þegar keppni í greininni var hætt á fjórða áratugnum.


Verðlaunaskipting eftir löndum breyta

 
Veggspjald Ólympíuleikanna 1906.
Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1   Frakkland 15 9 16 40
2   Bandaríkin 12 6 6 24
3   Grikkland 8 14 13 35
4   Bretland 8 11 5 24
5   Ítalía 7 6 3 16
6   Sviss 5 6 4 15
7   Þýskaland 4 6 5 15
8   Noregur 4 2 1 7
9   Austurríki 3 3 3 9
10   Danmörk 3 2 1 6
11   Svíþjóð 2 5 7 14
12   Ungverjaland 2 5 3 10
13   Belgía 2 1 3 6
14   Finnland 2 1 1 4
15   Kanada 1 1 0 2
16   Holland 0 1 2 3
17   Blandað lið 0 1 0 1
18   Ástralía 0 0 3 3
19   Bæheimur 0 0 2 2
Alls 78 80 78 236