Stjarna eða sólstjarna er risastór hnöttur úr rafgasi sem verður glóandi vegna kjarnasamruna í iðrum stjörnunnar. Sólin er sú stjarna sem nálægust er jörðu. Margar aðrar stjörnur eru sýnilegar með berum augum á næturhimninum, en vegna mikillar fjarlægðar frá jörðu birtast þær sem fastir ljóspunktar. Stærstu stjörnurnar hafa verið flokkaðar saman í stjörnumerki og stjörnuþyrpingar, og menn hafa gefið björtustu stjörnunum nöfn. Stjörnufræðingar hafa gefið út stjörnuskrár þar sem þekktar stjörnur eru skráðar með stöðluðum stjörnuheitum. Í sýnilegum alheimi er talið að fjöldi stjarna sé milli 1022 og 1024. Af þessum fjölda stjarna eru aðeins um 4.000 sýnilegar með berum augum.[1] Allar sýnilegar stjörnur er að finna í stjörnuþokunni Vetrarbrautinni.

Stjörnumyndun á sér stað í Stóra Magellanskýinu.

Stjörnur myndast við þyngdarhrun geimþoku úr efni sem er aðallega vetni, ásamt helíni og snefil af þyngri efnum. Talið er að alheimurinn hafi myndast við miklahvell og byrjað að þenjast út og kólna. Seinna meir hafi rykský þést vegna eigin þyngdarafls og orðið að stjörnum. Massi stjörnunnar er það sem helst ræður þróun hennar og örlögum. Stjarna skín megnið af líftíma sínum vegna kjarnasamruna vetnis í helín í kjarna hennar. Þetta ferli leysir orku sem fer í gegnum stjörnuna og geislar út í útgeim. Þegar stjarna nálgast endalokin verður kjarni hennar að stjörnuleif: hvítur dvergur, nifteindastjarna, eða, ef hún er nógu massamikil, svarthol.

Kjarnasamruninn sem verður í stjörnum eða stjörnuleifum myndar nær öll frumefni sem koma fyrir í náttúrunni og eru þyngri en litín. Stjörnur sem missa massa, eða sprengistjörnur, gefa auðgað efni út í miðgeimsefnið. Þessi frumefni mynda síðan nýjar stjörnur. Stjörnufræðingar geta reiknað út eiginleika stjarna eins og massa, aldur, efnasamsetningu, breytileika, fjarlægð og hreyfingu um geiminn; með því að skoða sýndarbirtu, litróf og breytingar á stöðu yfir tíma.

Flestar stjörnur hafa fylgihnetti, sem ganga á sporbaugum umhverfis stjörnuna og mynda sólkerfi. Til eru sólkerfi í kringum tvístirni eða fleiri stjörnur. Þar sem tvær stjörnur eru nærri hver annarri geta þær haft veruleg áhrif á þróun hverrar annarrar með þyngdarafli sínu. Stjörnur geta myndað stærri kerfi eins og stjörnuþyrpingar eða stjörnuþokur sem tengjast innbyrðis með þyngdarafli.

Könnunarsaga

breyta

Stjörnur hafa verið mikilvægur hluti af menningu mannsins frá forsögulegum tíma og eru áberandi í elstu ritheimildum frá fyrstu siðmenningarsamfélögum heims. Stjörnurnar höfðu trúarlegt hlutverk, voru notaðar sem leiðarstjörnur í stjarnsiglingafræði og til að skilgreina tímatal og marka upphaf og endi árstíða.

Elstu stjörnufræðingar gerðu greinarmun á fastastjörnum sem virtust sitja kyrrar á himninum, og reikistjörnum (plánetum) sem virtust ferðast yfir himininn á nokkrum dögum eða vikum.[2] Margir eldri stjörnufræðingar töldu að fastastjörnurnar væru festar við himinhvolf og færðust ekkert til. Stjörnufræðingar fornaldar hópuðu stjörnur saman í stjörnuþyrpingar og stjörnumerki og afmörkuðu þannig ákveðin svæði á himninum sem hægt var að nota til að rekja ferðir reikistjarnanna og afstöðu sólarinnar.[3] Afstaða sólarinnar til fastastjarna (og sjóndeildarhringsins) var notuð til að búa til sóldagatöl til að tímasetja ákveðin verk í landbúnaði.[4] Gregoríska tímatalið sem nú er notað nánast um allan heim, er sóldagatal sem miðast við ferð jarðarinnar umhverfis sína stjörnu, sólina.

Elsta stjörnukortið sem vitað er um aldur á, er frá Egyptalandi hinu forna frá 1534 f.o.t.[5] Elstu stjörnuskrárnar voru settar saman af babýlónskum stjörnufræðingum í Mesópótamíu seint á 2. árþúsundinu f.o.t., á tímum Kassíta (um 1531-1155 f.o.t.).[6] Elsta stjörnuskráin var samin af gríska stjörnufræðingnum Aristillusi.[7] Stjörnuskrá Hipparkosar frá 2. öld f.o.t. inniheldur 1.020 stjörnur og var notuð af Kládíusi Ptólmæosi.[8] Hipparkos er þekktur fyrir að hafa fyrstur uppgötvað nýstirni.[9]

Þótt fastastjörnurnar virtust ekki hreyfast neitt, áttuðu kínverskir stjörnufræðingar sig á því að nýjar stjörnur gætu birst á himninum.[10] Árið 185 skrifuðu þeir fyrstir manna um sprengistjörnu, sem nú er þekkt sem SN 185.[11] Bjartasti stjarnfræðilegi viðburður skráðrar sögu var sprengistjarnan SN 1006 sem sást árið 1006 og egypski stjörnufræðingurinn Ali ibn Ridwan skrifaði um, auk nokkurra kínverskra stjörnufræðinga.[12] Sprengistjarnan SN 1054 sem gat af sér Krabbaþokuna sást líka frá jörðu og var lýst af kínverskum og íslömskum stjörnufræðingum.[13][14][15][16]

Tilvísanir

breyta
  1. Grego, Peter; Mannion, David (2010). Galileo and 400 Years of Telescopic Astronomy. Springer New York. ISBN 978-1441955920.
  2. „Ancient Greek Astronomy and Cosmology“. Digital Collections. The Library of Congress. n.d. Sótt 28. febrúar 2022.
  3. Forbes, George (1909). History of Astronomy. London: Watts & Co. ISBN 978-1-153-62774-0.
  4. Tøndering, Claus (2008). „Other Ancient Calendars“. Calendars Through The Ages. Webexhibits. Sótt 28. febrúar 2022.
  5. von Spaeth, Ove (2000). „Dating the Oldest Egyptian Star Map“. Centaurus. 42 (3): 159–179. Bibcode:2000Cent...42..159V. doi:10.1034/j.1600-0498.2000.420301.x. Sótt 21. október 2007.
  6. North, John (1995). The Norton History of Astronomy and Cosmology. New York and London: W.W. Norton & Company. bls. 30–31. ISBN 978-0-393-03656-5.
  7. Murdin, P. (2000). „Aristillus (c. 200 BC)“. Encyclopedia of Astronomy and Astrophysics. Bibcode:2000eaa..bookE3440.. doi:10.1888/0333750888/3440. ISBN 978-0-333-75088-9.
  8. Grasshoff, Gerd (1990). The history of Ptolemy's star catalogue. Springer. bls. 1–5. ISBN 978-0-387-97181-0.
  9. Pinotsis, Antonios D. (2008). „Astronomy in Ancient Rhodes“. Protostellar Jets In Context. University of Athens, Greece. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. september 2021. Sótt 28. febrúar 2022.
  10. Clark, D. H.; Stephenson, F. R. (29. júní 1981). „The Historical Supernovae“. Supernovae: A survey of current research; Proceedings of the Advanced Study Institute. Cambridge, UK: Dordrecht, D. Reidel Publishing Co. bls. 355–370. Bibcode:1982ASIC...90..355C.
  11. Zhao, Fu-Yuan; Strom, R. G.; Jiang, Shi-Yang (2006). „The Guest Star of AD185 must have been a Supernova“. Chinese Journal of Astronomy and Astrophysics. 6 (5): 635. Bibcode:2006ChJAA...6..635Z. doi:10.1088/1009-9271/6/5/17 – gegnum IOPScience.
  12. Isbell, Douglas; Benoit, Phil (5. mars 2003). „Astronomers Peg Brightness of History's Brightest Star“. NOIRLab. National Optical Astronomy Observatory. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. janúar 2022. Sótt 28. febrúar 2022.
  13. Frommert, Hartmut; Kronberg, Christine (30. ágúst 2006). „Supernova 1054 – Creation of the Crab Nebula“. SEDS. University of Arizona.
  14. Duyvendak, J. J. L. (apríl 1942). „Further Data Bearing on the Identification of the Crab Nebula with the Supernova of 1054 A.D. Part I. The Ancient Oriental Chronicles“. Publications of the Astronomical Society of the Pacific. 54 (318): 91–94. Bibcode:1942PASP...54...91D. doi:10.1086/125409.
  15. Mayall, N. U.; Oort, Jan Hendrik (apríl 1942). „Further Data Bearing on the Identification of the Crab Nebula with the Supernova of 1054 A.D. Part II. The Astronomical Aspects“. Publications of the Astronomical Society of the Pacific. 54 (318): 95–104. Bibcode:1942PASP...54...95M. doi:10.1086/125410.
  16. Brecher, K.; og fleiri (1983). „Ancient records and the Crab Nebula supernova“. The Observatory. 103: 106–113. Bibcode:1983Obs...103..106B.

Tenglar

breyta
   Þessi stjörnufræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.