Jórunn Viðar
Jórunn Viðar (f. 7. desember 1918, d. 27. febrúar 2017) var íslenskt tónskáld. Hún var fædd og uppalin í Reykjavík, dóttir hjónanna Einars (1887-1923) og Katrínar Viðar (1895-1989). Drífa Viðar (1920-1971) var systir hennar. Hún útskrifaðist úr Tónlistarskólanum í Reykjavík 1936 og varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1937. Sama ár sigldi hún til Þýskalands, þar sem hún nam tónsmiðar við Tónlistarakademíuna í Berlín í tvo vetur, en sneri heim til Íslands í júlímánuði 1939. Hún giftist Lárusi Fjeldsted (1918-1985), þá laganema, síðar forstjóra í Reykjavík og eignuðust þau þrjú börn: Lárus (f. 1942), forstjóri í Reykjavík; Katrínu, lækni og alþingismann (f. 1946) og Lovísu (f. 1951), sellóleikara.
Árin 1943-1946 dvöldu Jórunn og Lárus með syni sínum í New York, þar sem hann leitaði sér lækninga og rak fyrirtæki eftir það, en hún lagði stund á frekara nám í tónsmíðum hjá Vittorio Giannini við Juilliard-skólann þar í borg. Þegar þau fluttu heim eignuðust þau dætur sínar tvær og Jórunn stundaði tónsmíðar, auk þess að vera einleikari og undirleikari á píanó. Hún samdi tónlistina við kvikmyndina Síðasta bæinn í dalnum, og samdi fjölda annarra tónverka, oft við gamla eða nýja texta eftir ýmsa höfunda. Í tónsmíðum sínum sótti Jórunn mikið í íslenskan tónlistararf, bæði sem innblástur og við útsetningar á íslenskum þjóðlögum. Hún var mjög lengi eina konan í Tónskáldafélagi Íslands.
Meðal þekktra verka Jórunnar eru jólalögin „Jól“ og „Það á að gefa börnum brauð“, „Kall sat undir kletti“, „Únglíngurinn í skóginum“ við texta Halldórs Laxness og ballettinn Eldur. Hún var frumkvöðull á sviði ballett- og kvikmyndatónlistar hér á landi auk þess sem hún samdi fjölmörg þjóðþekkt sönglög.
Jórunn var sæmd heiðursmerki hinnar Íslensku fálkaorðu árið 1989. Hún var valin borgarlistamaður Reykjavíkur árið 1999, hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004 og Menningarverðlaun DV árið 2009. Um árabil hlaut hún heiðurslaun listamanna frá Alþingi.[1]
Heimildamynd
breyta- Orðið tónlist: Jórunn Viðar (2008).
Tilvísanir
breyta- ↑ Jórunn Viðar látin Rúv, skoðað 28. feb, 2017