Sophie Scholl

Þýskur andspyrnumaður gegn nasisma

Sophia Magdalena Scholl (9. maí 1921 – 22. febrúar 1943) var þýskur stúdent og pólitískur aðgerðasinni. Hún var virk innan Hvítu rósarinnar, friðsamlegrar andspyrnuhreyfingar gegn stjórn nasista í Þýskalandi.

Sophie Scholl
Mynd af Sophie Scholl eftir handtöku hennar 1943.
Fædd9. maí 1921
Dáin22. febrúar 1943 (21 árs)
DánarorsökHálshöggvin með fallöxi
ÞjóðerniÞýsk
MenntunLudwig-Maximilian-háskóli
Þekkt fyrirAndspyrnu gegn einræðisstjórn nasista í Þýskalandi.
ForeldrarRobert Scholl og Magdalena Müller

Scholl var dæmd fyrir landráð eftir að hún var gómuð við að útbýtta dreifibréfum með áróðri gegn stríði meðal nemenda í Ludwig-Maximilian-háskólanum ásamt bróður sínum, Hans. Hún var í kjölfarið hálshöggvin undir fallöxi.

Æviágrip breyta

Sophie Scholl fæddist þann 9. maí 1921 í bænum Forchtenberg í þýska Weimar-lýðveldinu. Faðir hennar var þar bæjarstjóri og Sophie ólst upp á trúræknu lútersku heimili þar sem kristin gildi voru í hávegum höfð. Æskuár hennar voru mikill rósturtími í Þýskalandi og Adolf Hitler og Nasistaflokkurinn komust til valda í landinu þegar hún var unglingur.[1]

Sophie studdi Hitler í fyrstu og varð meðlimur í æskulýðshreyfingu Nasistaflokksins ásamt eldri bróður sínum, Hans Scholl. Faðir þeirra var ekki hrifinn af Hitler og fordæmdi þátttöku barna sinna í ungliðahreyfingunni. Systkinin urðu bæði afhuga nasismanum eftir að þeim var ljóst hverjar fyrirætlanir Hitlers voru og Hans komst í kynni við andnasíska hugsuði í Ludwig-Maximilian-háskólanum í München.[2] Afstaða þeirra gegn Hitler varð enn harðari eftir að nasistar gerðu innrás í Pólland árið 1939 og seinni heimsstyrjöldin hófst.[1]

Líkt og bróðir sinn gekk Sophie í Ludwig-Maximilian-háskólann, þar sem hún nam heimspeki og líffræði. Á námsárum sínum stofnaði Hans Scholl andspyrnuhreyfinguna Hvítu rósina ásamt félaga sínum, Al­ex­and­er Schmor­ell. Sophie gekk von bráðar til liðs við hreyfinguna ásamt nokkrum samnemendum sínum og prófessorum við háskólann.[1]

Eftir að nasistar hófu hópflutninga á Gyðingum í fangabúðir sumarið 1942 hófu meðlimir Hvítu rósarinnar að prenta dreifibréf þar sem bent var á glæpi nasistastjórnarinnar og Þjóðverjar voru hvattir til friðsamlegrar andspyrnu gegn henni. Jafnframt var athygli Þjóðverja beint að ofsóknum nasista á Gyðingum á hernámssvæðum sínum í Póllandi.[3] Í fyrstu var bréfunum einungis dreift í München en smám saman fóru umsvif hreyfingarinnar að ná til borga í suðurhluta Þýskalands og norður til Berlínar. Auk þess stóðu meðlimir Hvítu rósarinnar fyrir veggjakroti með slagorðum á borð við „Frelsi!“ og „Niður með Hitler!“.[2]

Þann 18. september 1942 voru Hans og Sophie að dreifa nýjustu útgáfu af dreifibréfum Hvítu rósarinnar. Þau skildu eftir tösku fulla af bæklingum við innganginn á aðalbyggingu háskólans þar sem þess var krafist í nafni þýsku þjóðarinnar að almenningur hlyti almenn mannréttindi á ný. Sophie gekk upp á efstu hæð skólans og henti eintökum af bæklingunum út af svölum til þess að dreifa þeim yfir skólalóðina.[1] Húsvörður við skólann stóð systkinin að verki og tilkynnti þau til Gestapo. Sophie og Hans voru í kjölfarið handtekin ásamt Christoph Probst, öðrum meðlimi andspyrnuhreyfingarinnar, og dregin fyrir rétt.[2]

Réttarhöldin gegn meðlimum Hvítu rósarinnar voru sýndarréttarhöld þar sem systkinin voru sökuð um landráð en fengu ekki að svara fyrir sig eða halda uppi málsvörn. Systkinin neituðu að gefa upp nöfn félaga sinna í Hvítu rósinni en engu að síður tókst nasistunum að handsama þá alla. Sophie og Hans voru dæmd sek og tekin af lífi með fallöxi þann 22. febrúar 1943.[1]

Eftir seinni heimsstyrjöldina og fall nasistastjórnarinnar hefur nafni Sophie og Hvítu rósarinnar mjög verið haldið á lofti sem tákn um friðsamlega óhlýðni gagnvart harðstjórn. Systir þeirra, Inge Aicher-Scholl, lagði sig mjög fram við að halda minningu þeirra lifandi það sem hún átti eftir ólifað.[4]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Systkinin sem buðu Hitler birginn“. mbl.is. 10. maí 2021. Sótt 28. maí 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 Þorgils Jónsson (18. febrúar 2017). „Í þá tíð… Nasistar uppræta Hvítu rósina“. Kjarninn. Sótt 28. maí 2021.
  3. „Dreifibréf Hvítu rósarinnar“. Þjóðviljinn. 29. september 1987. bls. 14-15.
  4. Einar Heimisson (28. nóvember 1987). „Dreifibréf Hvítu rósarinnar“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 14-15.
   Þessi Þýskalandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.