Skosk gelíska

Keltneskt tungumál talað í Skotlandi
(Endurbeint frá Skosk-gelíska)

Skosk gelíska, einnig þekkt sem gelíska (Gàidhlig [ˈkaːlikʲ] hlusta) er keltneskt tungumál sem er talað í Skotlandi, einkum í skosku Hálöndunum og á Suðureyjum. Gelíska er náskyld írsku og mönsku, en öll þessi mál eru komin af fornírsku.

Skosk gelíska
Gàidhlig
Málsvæði Skotland (Skosku hálöndin, Suðureyjar), Kanada (Nýja-Skotland)
Heimshluti Bretlandseyjar, austurströnd Kanada
Fjöldi málhafa Skotland: 57,375 (2011)[1]
87,056 manns, þriggja ára og eldri, sem hafa einhverja kunnáttu (2011)[1]
Ætt Indóevrópska

 Keltneska
  Eyjakeltneska
   Gelísk tungumál
    Skosk gelíska

Skrifletur Latneskt stafróf
Viðurkennt minnihlutamál Bretland (Skotland)
Kanada (Nýja-Skotland)
Tungumálakóðar
ISO 639-1 gd
ISO 639-2 gla
SIL gla
ATH: Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode.
Wikipedia
Wikipedia
Wikipedia: Skosk gelíska, frjálsa alfræðiritið
Málsvæði gelísku í Skotlandi árið 2001.
Í skosku Hálöndunum eru tvímála vegaskilti orðin algeng. Gelísku örnefnin eru þar í fyrsta sæti.

Utan Skotlands hefur gelíska stundum verið kölluð skoska, en það heiti er nú notað um þá mállýsku af ensku sem töluð er í Skotlandi, sjá skoska.

Saga skoskrar gelísku

breyta

Á árabilinu 300–500 e.Kr. tóku stórir hópar fólks sig upp frá Írlandi og námu land í Skotlandi. Þeir kölluðu sig Skota, og dró landið síðan nafn af þeim. Þeir voru fyrst einkum á svæðinu við Argyll, og breiddist tungumál þeirra og menning þaðan út. Tungumál þeirra sem fyrir voru í landinu, péttneskan og kumbrískan, létu undan síga. Deilt eru um hvort Péttar (Piktar) töluðu keltneskt mál, en vitað er að hinn írski Kólumkilli, sem boðaði trú meðal þeirra, varð að notast við túlk. Mál Pétta vék með tímanum alveg fyrir gelísku og fornnorsku (sem breiddist út frá Orkneyjum eftir 900).

Gelískan stóð sterkast í Skotlandi á 11. og 12. öld, en hún var þó aldrei töluð í öllu landinu. Eftir það fór hún að víkja fyrir máli innrásarmanna, fyrst Normanna, sem töluðu franska mállýsku, en síðan fyrir ensku, sem yfirstéttin og stjórnkerfið notaði. Um svipað leyti fór skoska gelískan að greinast frá írsku. Talsverður mállýskumunur er nú milli héraða, án þess þó að torvelda skilning. Írska og gelíska eru það lík mál, að þeir sem hafa góð tök á öðru málinu skilja hitt í meginatriðum. Munurinn er minnstur í þeim héruðum Skotlands sem næst eru Írlandi.

Elsta handrit á skoskri gelísku er frá 12. öld (Book of Deer), og er málið þar náskylt írsku.

Á 17. öld var svo komið að gelískan var fyrst og fremst bundin við vestanverð Hálöndin og Suðureyjar. Enska yfirstéttin vann markvisst að því að berja gelískuna niður. Þannig samþykkti enska þingið árið 1616 að „gelískan skyldi numin úr gildi og afmáð í Skotlandi“. Afdrifaríkir voru nauðungarflutningar fólks frá Hálöndunum á 18. og 19. öld. Gelískan lifði þó af og stendur nú sterkast á Suðureyjum, þar sem allt að 75% fólks talar málið í einstökum svæðum, einkum á ytri eyjunum, svo sem Ljóðhúsum (Lewis) og eyjunum þar suður af. Árið 2001 voru um 60.000 manns sem töluðu gelísku á Skotlandi, og tæplega 100.000 manns sem höfðu nokkra færni í málinu.

Á 19. öld fluttist mikill fjöldi fólks frá Skotlandi til Norður-Ameríku. Þá var stofnuð nýlenda gelískumælandi Skota á Cape Breton í Nýja Skotlandi (Nova Scotia). Árið 1900 bjuggu þar um 100.000 manns, og töluðu 75% þeirra skoska gelísku. Þetta byggðarlag hefur átt undir högg að sækja, og margir flutt burt. Nú eru þar fáir eftir sem tala málið.

Mörg gelísk orð og staðaheiti eru alþekkt, t.d.:

  • Loch = stöðuvatn, lón – t.d. Loch Ness.
  • Ben (beinn) = fjall – t.d. Ben Nevis, hæsta fjall Skotlands.
  • Uisge (uisge beatha = vatn lífsins) = viskí.

Staða gelískunnar

breyta

Gelískan hefur lengi liðið fyrir að hafa ekki verið notuð í skólum og í stjórnkerfinu. Árið 2005 hlaut hún nokkra opinbera viðurkenningu þegar skoska þingið samþykkti lög um gelíska tungu, sem ætlað er að tryggja stöðu málsins. Skosku fræðslulögin frá 1872 tóku ekkert tillit til gelískunnar, og varð það til þess að mörgum kynslóðum var bannað að tala móðurmálið í skólanum. Hlutu margir barsmíðar fyrir. Nú er almennt viðurkennt að þetta hafi unnið tungunni óbætanlegt tjón. Breska ríkisstjórnin hefur staðfest tilskipun Evrópusambandsins um stöðu minnihlutamála, og á hún við gelísku, eins og velsku og írsku.

Nýja testamentið var gefið út á skoskri gelísku árið 1767 og Biblían í heild 1801. Almennt var kirkjulegt starf þó á ensku í samræmi við opinbera stefnu. Á síðari árum hefur kirkjan þó tekið jákvæðari afstöðu til gelískunnar, þó að illa hafi gengið að fá gelískumælandi presta.

Á Suðureyjum er gelískan nú notuð af héraðsstjórninni og kennd í skólum, í sumum þeirra er hún málið sem kennt er á. Árið 2006 var stofnaður í Glasgow unglingaskóli þar sem kennt er á gelísku. BBC starfrækir gelíska útvarpsstöð, og sumar sjónvarpsstöðvar eru með hluta dagskrár á gelísku.

Skosk og írsk gelísk áhrif á íslensku

breyta

Margir landnámsmenn á Íslandi komu frá norðurhluta Skotlands, eða eyjunum þar í grennd. Því er eðlilegt að nokkurra gelískra áhrifa gæti í íslensku, en stundum getur verið um írsk áhrif að ræða. Í færeysku gætir einnig nokkurra skoskra og írskra gelískra áhrifa.

Dæmi um tökuorð
Dæmi um mannanöfn
Dæmi um örnefni

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  • Baldur Ragnarsson: Tungumál veraldar. Háskólaútgáfan, Rvík 1999.
  • Freysteinn Sigurðsson: Gelísk örnefni á Austurlandi. Múlaþing, 27. árgangur, Egilsstöðum 2000, 64–67.
  • Helgi Guðmundsson: Um haf innan. Háskólaútgáfan, Rvík 1997.
  • Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Háskólaútgáfan, Rvík 1996.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Skotsk-gælisk“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. desember 2008.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Scottish Gaelic“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. desember 2008.
  • Guðrún Kvaran. „Er vitað hversu mikil áhrif keltneska hafði á íslensku á landnámstímanum. Eru til dæmis einhver tökuorð úr keltnesku algeng í daglegu máli?“ Vísindavefurinn, 21. ágúst 2002. Sótt 28. nóvember 2015. http://visindavefur.is/svar.php?id=2661.

Tenglar

breyta
  1. 1,0 1,1 2011 Census of Scotland, Table QS211SC. Skoðað 30. maí 2014.