Litli-Skerjafjörður

(Endurbeint frá Litli Skerjafjörður)

Litli-Skerjafjörður er hverfi í Vesturbæ Reykjavíkur sem afmarkast af Reykjavíkurflugvelli í suðri, Njarðargötu í austri, Eggertsgötu í norðri og Þorragötu í vestri.

Byggðin í Litla-Skerjafirði var nyrsti hluti samfelldrar byggðar í Skerjafirði, en á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var byggðin klofin í tvennt með austur/vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Mörg húsanna sem þurftu að víkja vegna þessara framkvæmda voru flutt í Laugarneshverfi. Flest húsanna sem rifin voru eða flutt stóðu við Reykjavíkurveg og Hörpugötu og fram yfir 1960 var Hörpugata klofin sundur af flugbrautinni og var bæði í Litla- og Stóra-Skerjafirði, en nú eru húsin í Stóra-Skerjafirði talin til Einarsness.

Nafngiftir gatnanna í Litla-Skerjafirði eru fjölbreytilegar. Hörpugata, Þorragata, Góugata og Skerplugata vísa í norræna tímatalið. Fossagata og Þjórsárgata bera nöfn sem vísa til virkjanaáforma Einars Benediktssonar. Þá minnir heiti Reykjavíkurvegar á þá tíð þegar Skildinganes heyrði undir lögsagnarumdæmi Seltjarnarness og þjóðleiðin til Reykjavíkur lá um götuna.

Á seinni árum hefur orðið þétting byggðar í Litla-Skerjafirði, meðal annars með aðflutningi gamalla húsa sem orðið hafa að víkja vegna framkvæmda í miðborg Reykjavíkur og sem hafa verið endurbyggð í hverfinu.

  Þessi landafræðigrein sem tengist sögu og Reykjavíkur er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.