Sigurður Guðmundsson (vígslubiskup)
Sigurður Guðmundsson (16. apríl 1920 – 9. janúar 2010) var lengi sóknarprestur á Grenjaðarstað í Aðaldal, og vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal frá 1981 til 1991.
Æviferill
breytaSigurður fæddist á Naustum við Akureyri. Foreldrar hans voru Guðmundur Guðmundsson (1888–1975) bóndi á Naustum og fyrri kona hans Steinunn Sigríður Sigurðardóttir (1883–1924). Stjúpmóðir Sigurðar var Herdís Samúelína Finnbogadóttir (1901–1944).
Sigurður varð stúdent frá MA 1940, og lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1944. Hann vígðist 18. júní sama ár sóknarprestur að Grenjaðarstað í Aðaldal, og gegndi því embætti til 1986. Var einnig prófastur Suður-Þingeyinga 1957–1958 og 1962–1986, þar af í sameinuðu Þingeyjarprófastsdæmi frá 1971. Hann var vígslubiskup á Hólum 1981–1991, fluttist að Hólum 1986 og var fyrstur biskupa til að sitja staðinn síðan 1798. Eftir að hann fór á eftirlaun var hann vígslubiskup á Hólum í forföllum 1999 og frá ársbyrjun 2002 fram á mitt ár 2003, og í Skálholti sumarið 1993. Hann gegndi embætti biskups Íslands í forföllum 1987–1988 og vígði þá 13 presta. Hann sat því öll biskupsembætti íslensku þjóðkirkjunnar á ferli sínum.
Sigurður rak bú á Grenjaðarstað 1944–1986, og unglingaskóla á sama stað flest árin 1944–1969. Hann var skólastjóri Héraðsskólans á Laugum í Reykjadal 1962–1963 og lengi stundakennari þar og við Húsmæðraskólann á Laugum. Hann var aðalhvatamaður að stofnun Sumarbúða ÆSK við Vestmannsvatn í Aðaldal og formaður stjórnar frá upphafi. Hann var bókavörður við Bókasafn Aðaldæla 1978–1986.
Sigurður var ættfróður maður og áhugasamur bókasafnari. Ljóðabókasafn þeirra hjóna var með þeim stærstu hér á landi. Það var gefið Menntaskólanum á Akureyri 1996, og er varðveitt þar í sérstakri vinnustofu, Ljóðhúsi MA. Árið 1991 fluttist Sigurður með konu sinni til Akureyrar og bjó þar til dauðadags.
Kona Sigurðar (1944) var Aðalbjörg Halldórsdóttir (21. maí 1918 – 27. september 2005) frá Öngulsstöðum í Eyjafirði. Þau eignuðust 5 börn.
Heimildir
breyta- Minningargreinar í Morgunblaðinu, 18. janúar 2010.
- Bragi Guðmundsson: Aðalbjörg og Sigurður. Vígslubiskupshjónin frú Aðalbjörg Halldórsdóttir og séra Sigurður Guðmundsson frá Grenjaðarstað segja frá. Bókaútgáfan Skjaldborg, Reykjavík 1993.