Sigfús Sigurhjartarson

Sigfús Annes Sigurhjartarson (6. febrúar 190215. mars 1952) var stjórnmálamaður og einn af helstu foringjum íslenskra sósíalista á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Sigfús fæddist á Urðum í Svarfaðardal og var yngst barna Sigurhjartar Jóhannessonar og seinni konu hans Friðriku Sigurðardóttur. Sigfús lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1928 en tók aldrei prestsvígslu. Að útskrift lokinni sinnti hann kennslu við ýmsar skólastofnanir. Hann fór snemma að skipta sér af stjórnmálum og var virkur innan Alþýðuflokksins og bauð sig fram fyrir flokkinn í Gullbringu og Kjósasýslum í alþingiskosningunum 1934 og 1937. Hann var einn af stofnendum Sósíalistaflokksins og varaformaður frá stofnun hans árið 1938. Sigfús var kjörinn bæjarfulltrúi í Reykjavík árið 1942 og sat í bæjarstjórn til dauðadags 1952. Í vorkosningunum 1942 varð hann landskjörinn þingmaður og í haustkosningunum sama ár var hann kjörinn þingmaður Reykjavíkur og sat sem slíkur til 1949. Auk þessa var hann formaður útvarpsráðs 1935-1939 og stjórnarformaður KRON frá 1945 til æviloka.

Sigfús skrifaði mikið í Þjóðviljann og var lengi einn af ritstjórum hans. Hann var handtekinn ásamt félögum sínum í ritstjórn blaðsins af bresku herstjórninni á stríðsárunum og sat um hríð í bresku fangelsi vegna skrifa sinna í Þjóðviljann. Sigfús þótti farsæll í störfum sínum í borgarstjórn Reykjavíkur og á Alþingi var hann í hópi helstu ræðuskörunga síns tíma. Ræðu- og ritgerðasafn Sigfúsar Sigurhjartarsonar, Sigurbraut fólksins, kom út að honum látnum árið 1953.

Kona Sigfúsar var Sigríður Stefánsdóttir (f. 6. ágúst 1900, d. 23. desember 1974). Börn þeirra voru:

Adda Bára Sigfúsdóttir (1926)
Hulda Heiður Sigfúsdóttir (1929)
Stefán Hilmar Sigfússon (1934).

Heimildir

breyta
  • Páll Líndal og Torfi Jónsson: Reykavík. Bæjar- og borgarfulltrúatal 1836-1986. Reykjavík 1986.
  • Kjartan Ólafsson 2020. Draumur og veruleiki. Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Stjórnmál í endursýn. Mál og menning, Reykjavík.