Adda Bára Sigfúsdóttir
Adda Bára Sigfúsdóttir (30. desember 1926 - 5. mars 2022) var íslenskur veðurfræðingur og stjórnmálamaður.
Foreldrar hennar voru Sigfús Sigurhjartarson alþingismaður og borgarfulltrúi og varaformaður Sósíalistaflokksins og Sigríður Stefánsdóttir. Adda Bára varð stúdent 1946 frá MR. Síðan stundaði hún nám í veðurfræði við Óslóarháskóla 1947-1953 og lauk þaðan cand.real. prófi. Að námi loknu hóf hún störf við Veðurstofu Íslands og var deildarstjóri veðurfarsdeildar 1953-1988. Síðan vann hún að rannsóknum og úrvinnslu veðurfarsgagna við Veðurstofuna til 1998, var m.a. lengi í ritnefnd tímaritsins Veðursins.
Stjórnmálaferill
breytaAdda Bára haslaði sér snemma völl á hinum pólitíska vettvangi. Hún var formaður Æskulýðsfylkingarinnar 1955-1956. Varaþingmaður Reykvíkinga 1957. Fulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarstjórn 1962-66 og fyrir Alþýðubandalagið 1970-86. Adda Bára var varaformaður Alþýðubandalagsins frá því að flokkurinn var stofnaður með því nafni 1968 og allt til 1974. Hún var einnig lengi í miðstjórn beggja áðurnefndra flokka. Adda Bára sat í ótal nefndum og ráðum sem verða ekki talin upp hér. Hún varð fyrst til að gegna formlegu starfi aðstoðarmanns ráðherra á Íslandi. Magnús Kjartansson heilbrigðisráðherra réði hana sér til aðstoðar haustið 1971. Þá höfðu lög sem heimiluðu ráðningu aðstoðarmanna verið í gildi í eitt og hálft ár. Aðstoðarmenn ráðherra voru í þá daga stundum kallaðir aðstoðarráðherrar eða vararáðherrar. Þessu starfi gegndi hún til 1974.
Ritstörf
breytaAdda Bára ritaði allmargar greinar í blöð og tímarit bæði um þjóðfélagsmál, veðurfræði og veðurfar. Rannsóknir hennar á úrkomu og úrkomudreifingu eru þekktar og Íslandskort hennar af meðalúrkomu áranna 1931-1960 var fyrsta heildstæða úrkomukortið sem gert var af landinu öllu.
Einkahagir
breytaAdda Bára var gift Bjarna Benediktssyni frá Hofteigi (1922-1968). Synir þeirra voru Sigfús Bjarnason og Kolbeinn Bjarnason, flautuleikari.
Adda Bára var heiðursfélagi í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.