Lilti karfi (fræðiheiti:Sebastes viviparus Kr) er fiskur af ættkvísl karfa. Hann er líkist stóra karfanum í útliti, en greinist helst frá honum í því, að hann er minni og bak- og raufaruggageislarnir færri, sem og hryggjarliðir[1].

Litli karfi
Sebastes viviparus Kr
Sebastes viviparus Kr
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Brynvangar (Scorpaeniformes)
Ætt: Karfaætt (Scorpaenidae)
Ættkvísl: Karfi (Sebastes)
Tegund:
S. viviparus

Tvínefni
Sebastes viviparus
Krøyer, 1845

Lýsing

breyta

Litli karfi er mjög líkur stóra karfa í flestu tilliti, en er miklu minni, því að lengdin er tíðast aðeins 20-30 cm og fer varla fram úr 35 cm[2]. Lengsti litli karfi sem veiðst hefur við Ísland mældist 38 cm og veiddist suðvestur af Reykjanesi í október árið 1991[3]. Neðri skolturinn er totulaus og augun tiltölulega stærri. Gaddarnir á höfði eru eins og á stórum karfa, nema að neðsti gaddurrinn á fremsta rákarbeininu visar aftur, en ekki niður. Bolur, stirtla og uggar eru svipuð og á hinum, nema hvað tala liðgeislanna í bak- og raufarugga er lægri[2]. Liturinn er rauð-gulgrár eða brúnleitur að ofan og á hliðum, með 4-5 dökkum þverrákum á baki og með dökkan blett á kjálkabarði, ljósari að neðan. Bakuggi er með 15 broddgeislum og 12-14 liðgeislum; raufaruggi er með 3 broddgeislum og 6-7 liðgeislum. Það eru 12 geislar á sporðugga og 17-18 geislar á eyrugga. Kviðuggi er með 1 broddgeisla og 5 liðgeislum. Gelgjur eru 7, en hryggjarliðir eru 29-30[2].

Almenningur hefur aldrei greint hann frá stórum karfa, heldur álitið hann vera ungan fisk. Menn greindu á um það, hvort þessi fiskur væri sérstök tegund, eða aðeins (grunnsævis-) afbrigði af hinni; fullvaxinn er hann auðþekktur frá stóra karfa á sömu stærð og hafa sum helstu einkenni hans[2].

Heimkynni

breyta

Heimkynni litla karfa eru ekki eins víðáttumíkill og S. marinus; þau ná frá Þrándheimsfirði suður í Kattegat, frá Íslandi og Færeyjum til Bretlandseyja og svo kemur hann við á Austurströnd og Norður-Ameríku[2]. Þá verður hans vart líka við Austur-Grænland siðustu árin[4]. Hann forðast meira kaldan sjó en stóri karfi, og eins og það, að hann er meiri grunnsævisfiskur, sem ekki verður vart á meira en 300 m dýpi, og tíðast miklu grynnra, 20-80 m og jafnvel á 5-10 m[2].

Hér við land er hann við Suður- og Suðvesturland á Papagrunni, í Mýrdals- og Eyjafjallasjó, við Vestmannaeyjar, í Grindavíkursjó og á djúpmiðum í Faxaflóa; við Norðvestur- og vestanverða Norðurströndina verður örsjaldan vart við hann og alls ekki við Norðaustur- og Austurströndina. Annars er erfitt að segja nákvæmlega um útbreiðslu hans hér við land, því að fiskimenn veita honum litla athygli og greina hann varla frá hinum karfanum[2].

Lífshættir

breyta

Litli karfi er sennilega mest botnfiskur, sem lifir á ýmsum smádýrum, einkum krabbadýrum (rauðáta, ljósáta), marflóm og fiskaseiðum. Hann á unga eins og S. marinus, en miklu færri, því að í fullstórri hryggnu hafa ekki fundist meira en 18 þús. egg. Hann gýtur lifandi afkvæmum[4], aðeins í hlýjasjónum og sennilega síðla vors, því að hrygnur hafa fengist ógotnar, með ungum í sér í Faxaflóa snemma í júní. Siðin eru 4-5 mm við fæðinguna; vöxtur er hægur, fullþroskaðir fiskar eru um 20-25 cm og 10-15 ára gamlir[2].

Nytsemi

breyta
 

Litli karfi veiðist lítið eitt saman með öðrum fiski á færi, lóð og í botnvörpu, en er tæplega hirtur, því að hann er bæði smár og beinamikill og ekki nærri eins lostætur og stóri karfinn. Hann er því til lítilla nota[2].

Tilvísanir

breyta
  1. Gunnar Jónsson (1983). Íslenskir fiskar. Reykjavík: Fjölvaútgáfan. bls. 403-404.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 2,8 Bjarni Sæmundsson (1926). Íslensk dýr I. Fiskarnir (Pisces Islandiæ). Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. bls. 95-97.
  3. Gunnar Jónsson; Jakob Magnússon; Vihelmína Vilhelmsdóttir (1, Mars 1992). „Sjaldséðar fisktegundir á Íslandsmiðum árið 1991“. Ægir. 3: 128–131.
  4. 4,0 4,1 Gunnar Jónsson; Jónbjörn Pálsson (2013). Íslenskir fiskar. Reykjavík: Mál og menning. bls. 340. ISBN 978-9979-3-3369-2.