Syngman Rhee
Syngman Rhee (26. mars 1875 – 19. júlí 1965) var suður-kóreskur stjórnmálamaður. Hann var fyrsti forseti bráðabirgðarstjórnar Kóreu á meðan hann var í útlegð í Sjanghæ, og síðan fyrsti forseti Lýðveldisins Kóreu, eða Suður-Kóreu, frá 1948 til 1960.
Syngman Rhee | |
---|---|
리승만 | |
Forseti Suður-Kóreu | |
Í embætti 24. júlí 1948 – 26. apríl 1960 | |
Forsætisráðherra | Lee Beom-seok Shin Song-mo Chang Myon Yi Yun-yong Chang Taek-sang Baek Du-jin Byeon Yeong-tae |
Varaforseti | Yi Si-yeong Kim Seong-su Ham Tae-young Chang Myon |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Yun Posun |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 26. mars 1875 Haeju, Hwanghae, Kóreu (nú Norður-Kóreu) |
Látinn | 19. júlí 1965 (90 ára) Honolulu, Havaí |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi flokkurinn |
Maki | Seungseon Park (g. 1890–1910) Francesca Donner (g. 1934–1965) |
Trúarbrögð | Kristinn |
Háskóli | George Washington-háskóli Harvard-háskóli Princeton-háskóli |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Stuttu áður en bandamenn bundu enda á hernám sitt í Japan með San Francisco-sáttmálanum árið 1951, lýsti Rhee yfir útþenslu á landhelgi Kóreu út að endumörkum sem urðu kölluð „Syngman Rhee-línan“. Rhee var við stjórn Suður-Kóreu í þrjú kjörtímabil sem einkenndust mjög af spennu kalda stríðsins. Bandaríkjamenn studdu stjórn Rhee þar sem hann var andkommúnisti. Rhee fór fyrir stjórn Suður-Kóreumanna í Kóreustríðinu. Stjórn Rhee varð æ gerræðislegri með árunum og vinsældir hans liðu fyrir það. Stjórnartíð hans lauk í fjöldamótmælum eftir umdeildar kosningar. Rhee flúði úr landi og lést í útlegð í Honolulu á Havaí. Á valdaárum sínum lét Rhee taka fjölda grunaðra kommúnista af lífi án dóms og laga.
Æviágrip
breytaRhee fæddist í bænum Haeju í héraðinu Hwanghae, sem nú er hluti af Norður-Kóreu. Hann var afkomandi Li-konungsættarinnar.[1] Fjölskylda Rhee var rík og hafði því ráð á að senda hann í nám til Bandaríkjanna, þar sem hann gekk í George Washington-háskóla, Harvard-háskóla og Princeton-háskóla, þaðan sem hann útskrifaðist með doktorsgráðu í heimspeki.
Rhee gerðist meðlimur í þjóðernishreyfingum og fékk að dúsa í fangelsi frá 1897 til 1904. Árið 1919, þegar heimaland Rhee var komið undir járnhæl japanska keisaraveldisins, gerðist Rhee leiðtogi útlagastjórnar Kóreu í Sjanghæ. Sem slíkur reyndi hann að vinna sér alþjóðlegan stuðning fyrir sjálfstæði Kóreu. Árið 1945, eftir ósigur Japans í seinni heimsstyrjöldinni, sneri Rhee heim til Kóreu í einkaflugvél MacArthurs hershöfðingja.[2] Með stuðningi Bandaríkjamanna var Rhee kjörinn forseti Lýðveldisins Kóreu árið 1948. Hann setti á fót alræðisstjórn með blessun Bandaríkjamanna.
Árið 1948 þurfti stjórn Syngman Rhee að kveða niður bændauppreisn á eyjunni Jeju. Um 30.000 til 60.000 eyjarskeggja voru drepin af stjórnarhernum í átökunum.[3] Í byrjum sjötta áratugsins lét Rhee handtaka um 30.000 kommúnista. Um 300.000 manns til viðbótar voru teknir höndum og settir í „endurhæfingarhóp“ sem kallaðist Bodo-samtökin. Næsta júní, þegar kommúnistar úr norðri gerðu innrás í Suður-Kóreu og Kóreustríðið hófst, lét Rhee taka meðlimi Bodo-samtakanna af lífi þegar suður-kóreskir hermenn neyddust til að hörfa af svæðinu.[3]
Kóreustríðið, sem stóð frá 1950 til 1953, endaði með skiptingu Kóreuskaga. Syngman Rhee var endurkjörinn forseti árin 1952, 1956 og 1960. Á stjórnartíð sinni kom hann í gegn nokkrum umbótum, sérstaklega í menntamálum og á eignarrétti. Stjórnarfar Rhee var hins vegar mjög gerræðislegt og eftir að grunur á kosningasvindli varð sterkari árið 1960 brutust út fjöldamótmæli sem neyddu hann til að yfirgefa landið. Hann flúði til Havaí og bjó þar til dauðadags.
Tilvísanir
breyta- ↑ Encyclopaedia Universalis, t. 20, París, Encyclopaedia Universalis France, 1975, bls. 1861.
- ↑ Bruce Cumings, The Korean War: a History, Modern Library Edition, 2010, bls. 106.
- ↑ 3,0 3,1 McDonald, Hamish (15. nóvember 2008). „South Korea owns up to brutal past“. The Sydney Morning Herald.
Fyrirrennari: Fyrstur í embætti |
|
Eftirmaður: Yun Posun |