66°27.26′N 15°56.06′V / 66.45433°N 15.93433°V / 66.45433; -15.93433Raufarhöfn er sjávarþorp á austanverðri Melrakkasléttu í sveitarfélaginu Norðurþingi og er nyrsta kauptún landsins. Aðalatvinnuvegur er sjávarútvegur. Á Raufarhöfn er grunnskóli með um 13 nemendum. Fólksfjöldi árið 2015 var 183 og hafði fækkað mikið frá aldamótum. Byggðastofnun hefur skilgreint þorpið sem brotthætta byggð.[1] Á Raufarhöfn hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð síðan 1920.

Kort af Raufarhafnarhrepp þar til árið 2006 þegar hann sameinaðist Norðurþingi.
Raufarhöfn séð úr lofti.

Forn verslunarstaður

breyta

Raufarhöfn var bújörð fram yfir 1950 og byggðist þorpið upp í landi jarðarinnar, við náttúrulega höfn í skjóli klettahöfða. Raufarhafnar er getið sem lendingarstaðar í Íslendingasögum og þangað munu kaupmenn hafa siglt þegar á landnámsöld. Á síðmiðöldum versluðu þýskir Hansakaupmenn þar og seinna komu hollenskir duggarar þar við og stunduðu launverslun.

Bændur á Sléttu áttu að sækja verslun til Húsavíkur eða Vopnafjarðar á einokunartímanum, langa og erfiða leið, og óskuðu oft eftir að Raufarhöfn yrði gerð að verslunarstað en það var þó ekki fyrr en 1833 sem staðurinn varð löggiltur verslunarstaður og 1836 reisti danskur kaupmaður þar hús, Búðina, sem var fjórar hæðir og eitt stærsta hús landsins á þeim tíma. Hún brann árið 1956. Síðar tóku íslenskir kaupmenn við versluninni og Gránufélagið rak þar verslun til 1893.

Síldarbærinn Raufarhöfn

breyta
 
Síldin var kölluð silfur hafsins.

Bræðurnir Jón og Sveinn Einarssynir frá Hraunum í Fljótum hófu verslunarrekstur á Raufarhöfn 1896 og jafnframt fisk- og hákarlaveiðar og byggðu hafskipabryggju þar árið 1900. Sama sumar hófu Norðmenn síldveiðar frá Raufarhöfn og á næstu áratugum stækkaði þorpið ört og var aðalatvinna íbúanna síldveiðar, síldarbræðsla og þjónusta við síldveiðiskip. Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu verksmiðjuna af Norðmönnum 1934 og 1944 var Raufarhöfn annar mesti síldveiðibær landsins á eftir Siglufirði.

Á sjöunda áratugnum varð Raufarhöfn svo mesti síldarbærinn og þá var þar mikill uppgangur og allt að 11 síldarsöltunarstöðvar starfandi samtímis. Þá komu um það bil 10% af öllum ágóða landsins frá síldarvinnu á Raufarhöfn. Íbúarnir voru þá hátt á sjötta hundrað og á síldarvertíðinni streymdi aðkomufólk að svo að yfir tvö þúsund manns höfðu aðsetur þar og þegar nokkur hundruð bátar bættust við í landlegum voru stundum á fjórða þúsund manns í þorpinu í einu.

En árið 1967 hvarf síldin. Mannvirki henni tengd voru yfirgefin og að sumu leyti minnti Raufarhöfn á draugabæ og íbúum fækkaði. Þó var reynt að sporna á móti, meðal annars með kaupum á togara og stofnun útgerðarfélags, og útgerð og fiskvinnsla er aðalatvinna þorpsbúa í dag. Einnig er þar töluverð loðnubræðsla.

Sveitarfélagið

breyta

Hinn 1. janúar 1945 var Raufarhöfn gerð að sérstökum hreppi, Raufarhafnarhreppi, en hafði fram að því tilheyrt Presthólahreppi. Í janúar 2006 samþykktu íbúar Húsavíkurbæjar, Öxarfjarðarhrepps, Raufarhafnarhrepps og Kelduneshrepps sameiningu sveitarfélaganna sem tók gildi 10. júní sama ár, í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006. Nýja sveitarfélagið heitir Norðurþing.

Heimildir

breyta
  • „Raufarhöfn. Á vef Norðurþings, skoðað 12. apríl 2011“.

Tilvísanir

breyta
  1. Í krafti íbúanna að snúa þróuninni við RÚV, skoðað 2. mars, 2018.
   Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.