Hraun (Fljótum)

(Endurbeint frá Hraun í Fljótum)

Hraun er bær í Fljótum í Skagafirði, ysti bær í héraðinu að austan. Ysti bærinn í vestanverðri Skagafjarðarsýslu, yst á Skaga, heitir einnig Hraun en sá er munur að þar er nafnið í eintölu en hér er það haft í fleirtölu. Bæirnir liggja álíka norðarlega en Hraun á Skaga þó aðeins utar.

Hraunamöl skilur milli Miklavatns og sjávar.

Frá Hraunum er góð útsýn um Fljótin og yfir Skagafjörð. Bærinn stendur í brekku fyrir ofan Miklavatn og milli þess og sjávar er langur grandi sem kallast Hraunamöl. Þaðan var útræði áður fyrr. Norðan við hana er vik er nefnist Hraunakrókur. Þar var drepinn hvítabjörn sem gekk á land á Hraunum árið 1870. Þjóðleiðin til Siglufjarðar lá og liggur enn framhjá Hraunum — áður upp Hraunadal um Siglufjarðarskarð en nú um Almenninga og Strákagöng — og þar var því mjög gestkvæmt fyrr á tíð. Seint á 19. öld var komið þar á fót verslun sem síðar fluttist þó til Haganesvíkur.

Á Hraunum var löngum stórbýli, enda fylgja jörðinni ýmis hlunnindi, svo sem veiði í Miklavatni og æðarvarp. Einna þekktastur Hraunabænda á síðari öldum er Einar Baldvin Guðmundsson (1841-1910), alþingismaður og kaupmaður. Hann var þríkvæntur og átti fjölda barna og kallast afkomendur hans Hraunaætt.