Ole Bull
Ole Bull (5. febrúar 1810 - 17. ágúst 1880) var norskur fiðluleikari og tónskáld. Hann var undrabarn í tónlist og að miklu leyti sjálfmenntaður. Hann ólst upp í Bergen og fór til náms í Kristíaníu (nú Osló). Ole Bull fór frá Noregi árið 1831 til Parísar og kom ekki aftur til Noregs fyrr en árið 1838. Hann varð fljótt afar þekktur og dáður fiðluleikari í Evrópu og hélt fjölmarga tónleika í helstu hljómleikahöllum Evrópu og við konungshirðir. Ole Bull fór fyrst til Bandaríkjanna árið 1843 og sló þar í gegn og var í tvö ár í tónleikaferð. Hann kom aftur til Noregs árið 1848 þar sem mikil hugmyndagerjun var í kjölfar febrúarbyltingarinnar. Ole Bull var eldheitur ættjarðarvinur og hugmynd hans var að í Noregi risi þjóðleikhús með norskum leikurum og helst átti að setja þar upp norsk leikrit. Ole Bull ákvað að leikhúsið skyldi vera í Bergen. Leikhús hans varð að veruleika og ári eftir að það tók til starfa réði Ole Bull óþekktan ungan mann að leikhúsinu sem leiðbeinanda. Það var Hendrik Ibsen sem var við leikhús Ole Bull í 5 ár og þegar Ibsen fór réð Ole annan ungan mann í hans stað og það var Björnstjerne Björnsson. Ole Bull hafði einnig mikil áhrif á líf og starf Edvard Grieg en það fyrir áeggjan Ole Bull að Grieg fer í tónlistarnám. Ole Bull er talin en af fyrirmyndum að sögupersónu Ibsen í leikritinu Pétri Gaut. [1]
Ole Bull fór nokkrum sinnum til Bandaríkjanna og var þá hugmynd hans að stofna nýlendu norskra manna, fyrirmyndarríki þar sem vinnusemi og frelsi myndu ríkja. Hann keypti stórt landsvæði (45 ferkílómetrar) í Pennsylvaníu árið 1852 og skipulagði þar landnemabyggð og varði miklum fjármunum í uppbyggingu þar. Var svæðið fyrst nefnt Nýja Noregur en síðar Oleana. Seinna kom í ljós að þetta svæði hentaði illa til landbúnaðar og svo fór að allir landnemar yfirgáfu svæðið og landnámið misheppnaðist.
Ole Bull var aðalhvatamaður þess að reisa styttu af Leifi heppna í Vesturheimi og stendur það minnismerki við Commonwealth Avenue í Boston.
Í þjóðólfi er árið 1880 er sagt svo frá andláti Ole Bull:
- „Ole Bull, hinn víðfrægi fíólínisti, andaðist á eyjunni Lýsu í Noregi 17. f. m. og var jarðaður í Björgvín með fátíðri viðhöfn þjóðskáldið Björnstjerne Björnson hélt hrífandi ræðu við gröf hans. Ole Bull varð sjötugur og andaðist úr meinlæti (krabba), en ern var hann og unglegur til hins síðasta. í andláti sinu bað hann að spilað væri Mózarts ódauðlegu andlátsljóð, Requiem. Þar misstu Norðmenn einhvern hinn mesta hljóðfærasnilling, sem sögur fara af. Ole Bull fór víða um lönd og margt dreif á hans daga, lengst dvaldi hann í Vesturheimi, græddi opt auð fjár, en var þá annað veifið snauður. Hann var afar-ðrr í lund, fljótráður og stórráður, en ávallt hinn bezti drengur.”[2]