Leifur heppni

norrænn landkönnuður (um 980-1020)

Leifur heppni Eiríksson (um 980 — um 1020) var landkönnuður sem er sagður hafa komið til Norður-Ameríku fyrstur Evrópubúa.

Leifur heppni Eiríksson
Leifur heppni finnur Vínland. Mynd eftir Christian Krohg, 1893.
Fæddur
Leifur Eiríksson

Um 980
DáinnUm 1020
Þekktur fyrirSamkvæmt Eiríks sögu rauða var hann fyrsti Evrópumaðurinn sem kom til meginlands Norður Ameríku
TrúKristni
ForeldrarEiríkur rauði Þorvaldsson, Þjóðhildur Jörundardóttir
Kort af siglingaleið Leifs heppna til Nýfundnalands.

Talið er að Leifur hafi fæðst um árið 980 á Íslandi, sonur Eiríks rauða Þorvaldssonar og Þjóðhildar konu hans. Hann flutti með foreldrum sínum til Grænlands ungur að árum, ásamt bræðrum sínum, Þorvaldi og Þorsteini.

Í Grænlendinga sögu segir frá því að Leifur keypti skip Bjarna Herjólfssonar sem hafði áður villst til Norður-Ameríku, en steig ekki á land.

Um árið 1000 sigldi Leifur frá Grænlandi og kom fyrst að Hellulandi (líklega Baffinsland). Hann sigldi því næst sunnar og kemur nú að skógi vöxnu landi (Marklandi), líklega Labrador. Að lokum er talið að hann hafi komið til Nýfundnalands. Leifur nefndi það Vínland eftir að hann fann þar vínber. Einnig voru þar ár fullar af fiski og grasið grænt árið um kring. Á Vínlandi byggðu Leifur og fylgismenn hans nokkur hús og höfðust við yfir veturinn.

Á heimleiðinni til Grænlands bjargaði Leifur 15 skipsbrotsmönnum af skeri og fékk upp úr því nafngiftina ‚hinn heppni‘.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli er kennd við Leif heppna.

Í Bandaríkjunum er 9. október ár hvert kallaður Dagur Leifs Eiríkssonar, og er til að minnast Leifs heppna og landafunda norrænna manna í Vesturheimi.

Í tilefni af Alþingishátíðinni 1930 gáfu Bandaríkjamenn Íslendingum minnismerki um Leif heppna, sem sett var upp á Skólavörðuholti. Styttan, sem er eftir myndhöggvarann Alexander Stirling Calder, var afhjúpuð 17. júlí 1932.

Tenglar

breyta