Oleana
Oleana var norsk landnemabyggð í Potter County í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Landnemabyggðin var stofnsett af norska fiðluleikaranum Ole Bull. Hann keypti landsvæðið árið 1852 með það í huga að fá norska landnema til að flytja þangað. Það kom í ljós að landsvæðið hentaði ekki til búsetu. Fyrsta árið reyndu þó 700 innflytjendur að setjast þar að og það voru lagðir vegir og byggð sögunarmylla. Það varð fljótlega ljóst að landnámið myndi ekki ganga, jarðvegur hentaði ekki til ræktunar og flestir landnemanna fluttu til Wisconsin.
Ole Bull kom til Bandaríkjanna árið 1852, hann hafði áður komið á fót leikhúsi í Bergen en norska þingið synjaði honum um styrk til að reka það. Því helgaði hann því verkefni að koma á fót norskri landnemabyggð hátt upp í Allegheny fjöllunum sem skáldið Hendrik Wergeland hafði samið ljóð um. Ole Bull keypti landsvæðið með öðrum.
Fyrstu landnemarnir komu í september 1852. Þeir fengu 15 dollara á mánuði og fæði og húsnæði og gátu keypt jörð á þrjá dollara hverja ekru. Nokkrir létust í landnemabyggðinni fyrsta veturinn en Ole Bull hafði þó ennþá stórtækar hugmyndir m.a. um að kaupa járnsmiðju og skipulagði tækniskóla og heilsuhæli. Það kom í ljóst að undanskilin í kaupunum voru þrjú landsvæði samtals 650 ekrur sem voru dalbotnar þar sem ræktun var möguleg. Þar sem ekki var mögulegt að yrkja jörðina sem var á því svæði sem Bull hafði keypt þá fóru landnemarnir og Ole Bull varð gjaldþrota.
Stór hluti af því svæði sem ætlað var undir norsku landnemabyggðina er nú þjóðgarðurinn Ole Bull State Park.