Nicolas-Louis de Lacaille

Nicolas Louis de Lacaille (28. desember 171321. mars 1762) var franskur stjarnfræðingur, stærðfræðingur og kortagerðarmaður. Hann fæddist í Rumigny, nálægt Reims.

Nicolas Louis de Lacaille

Á tímabilinu 1739–1740 stjórnaði hann frönsku gráðumælingunum sem urðu til þess að leiðrétta niðurstöður Giovanni Cassini og fékk svo inngöngu í Frönsku vísindaakademíuna. Árið 1739 var hann skipaður prófessor í stærðfræði við Collège Mazarin þar sem hann fékk litla stjörnathugunarstöð til umráða árið 1746. Þar framkvæmdi hann ítarlegar athuganir vegna endurskoðunar á stjörnuskrám.

Á vegum Frönsku vísindaakademíunnar fór hann í leiðangur til Góðrarvonarhöfða og eyddi tímabilinu 1751–54 í að taka mælingar til að reikna út sýndarhliðrun tunglsins. Þar gerði hann líka gráðumælingu og safnaði gögnum fyrir umfangsmiklu stjörnuskrána sína, Coelum australe stelliferum (1763), sem lýsti 10.000 hlutum. Hann nefndi 14 stjörnumerki eftir ýmsum mælitækjum á kerfisbundinn hátt, andstætt stjörnumerkjum norðurhvelsins sem höfðu fengið nöfn úr grískri goðafræði.

Annað vísindalegt afrek hans var að mæla lengdarbaug í Höfðaborg og sýna fram á að jörðin er ekki kúlulaga heldur svipar til peru. Þar með studdi hann þá kenningu Isaac Newtons að jörðin flettist út við pólana. De Lacaille var þekktur fyrir að vera mjög gætinn en seinna var sannað að málböndin sem hann notaði til mælinga á lengdarbaugnum voru 10 cm of stutt.

Í kjölfar vinnu hans við lengdarbaugana reiknaði hann út nákvæma lengdargráðu stjörnuathugunarstöðvarinnar í Höfðaborg með athugunum á tunglum Neptúnusar.

Eftir að hann flutti heim til Frakklands hélt hann áfram með athuganir sínar við Collège Mazarin. Hann skrifaði líka fjölda ritgerða og kennslubóka um stærðfræði, aflfræði, ljósfræði og stjörnufræði. Hann hlaut heiðurstitilinn abbé. Árið 1754 var hann kosinn 29. erlendi fulltrúi Konunglegu sænsku vísindaakademíunnar.

  Þetta æviágrip sem tengist stjörnufræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.