Nasreddin

(Endurbeint frá Nasrudin)

Nasreddin er þjóðsagnakennd persóna, sufi-prestur eða kennari sem var uppi á 13. öld (miðaldir) í Akşehir og síðar Konya undir Seljúkaveldinu. Margar þjóðir Miðausturlanda hafa eignað sér Nasreddin (til dæmis Afganir og Íranir. Nafn hans er stafsett á ólíkan hátt og hann ber ýmsa titla, svo sem „Hodja“, „Mullah“ eða „Effendi“ en þeir samsvara titlinum „séra“ á íslensku. Nasreddin var alþýðlegur heimspekingur og vitringur og hans er minnst fyrir kímnisögur hans og hnyttin tilsvör.

Nasreddin eða Nasrudin

Margt af því sem Nasreddin gerði er hægt að segja að hafi verið órökrétt en býr samt yfir innri rökum. Skynsemi og samt óskynsamlegt, skrýtinn samt eðlilegur, heimskulegur samt gáfaður, einfaldur og samt margslunginn. Kennsluaðferðir hans eru áhrifamiklar í einfaldleika sínum.

Árið 1996–1997 lýsti Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem ári Nasreddins.

Uppruni Nasreddins og arfleifð

breyta

Nasreddin fæddist um það bil 1209 í þorpinu Horta í Anatólíu á 13. öldinni e.Kr. og ólst þar upp. Hann starfaði í Akşehir og seinna í Konya þar sem hann til bjó til dauðadags (1275/6 eða 1285/6 e. Kr.).

Sögur Nasreddins lifðu áfram næstu kynslóðir og dreifðust til fleiri landsvæða og landa. Minnin í sögunum urðu hluti menningararfs margra þjóða, allt frá Svartahafi til Kína og Albaníu til Afríku. Þótt flestar gerist í þorpsamfélagi fjalla þær um sígild stef þess að vera manneskja, dálítið eins og dæmisögur Esóps. Þær tala af alþýðlegum vísdómi sem sigrast á öllum raunum og leysir hverja gátu. Elsta handrit sagna Nasreddíns fannst á árinu 1571.

Sögur Nasreddins eru sagðar víðsvegar um heim enn þann dag í dag. Þær eru víða stór hluti menningarinnar og vísað er til þeirra í ræðu og riti beint og óbeint í daglegum samskiptum fólks. Sögurnar skipta þúsundum og því er hægt að finna sögu sem hæfir nánast hvaða aðstæðum sem mannskepnan lendir í.[1] Nasreddin er oft duttlungafull persóna í lengri eða styttri glefsum eða sögubútum.

Alþjóðleg hátíð, „International Nasrudin Hodja Festival“ er haldin honum til heiðurs í Akşehir 5. – 10 júlí ár hvert.[2]

Íslensk skólabörn hafa kost á að lesa nokkrar af sögum Nasreddins á miðstigi, en í Blákápu[3] er að finna úrval þeirra.

Sögur Nasreddins

breyta
 
Nasreddin á asnanum

Sögur Nasreddins eru sagðar um öll miðausturlönd en eru orðnar hluti menningar alls heimsins. Þær eru oft sagðar sem brandarar eða gamansamar hugrenningar, við varðelda, á heimilum og í útvarpi víðsvegar um Asíu. Hins vegar hafa þær dýpt, sem kemur oft ekki í ljós fyrr en á síðar stigum. Gamanmálið hefur siðferðisboðskap og eitthvað meira, eitthvað sem hjálpar dýpra þenkjandi hugsuði örlítið lengra áfram á leiðinni að verða dulspekingur.[4]

Prédikunin

breyta

Einn föstudag í bænahúsinu, sté Nasreddin í pontu og spurði söfnuðinn: „Vitið þið hvað ég ætla að prédika í dag?“ Söfnuðurinn svaraði einum hálsi neitandi. „Þá ætla ég ekki heldur að upplýsa ykkur“, sagði Nasreddin og sté niður úr stólnum.

Næsta föstudag spurði Nasreddin aftur sömu spurningar úr pontu: „Vitið þið hvað ég ætla að prédika í dag?“ Söfnuðurinn, minnugur þess hvernig Nasreddin hafði brugðist við síðast, svaraði einum hálsi „Já“. „Þá þarf ég ekki að prédika til ykkar í dag“, sagði Nasreddin og sté niður úr stólnum.

Vika leið og úr stólnum í bænahúsinu spurði Nasreddin söfnuðinn þriðja sinn og sagði: „Vitið þið hvað ég ætla að prédika í dag?“ Söfnuðurinn hafði rætt saman um það hvernig menn ættu að bregðast við og nú svaraði helmingur viðstaddra: „Já“ og helmingur viðstaddra: „Nei“.

„Þá bið ég þá sem vita, að upplýsa þá sem vita ekki“, sagði Nasreddin og sté niður úr stólnum.

Afstaða hlutanna

breyta

Nasreddin sat hugsi við árbakka. Maður kom að ánni og kallaði yfir til hans: „Hvernig kemst ég yfir um?“ „Já, en þú ert nú þegar handan við“, kallaði Nasreddin á móti.

Leitin að týndu peningunum

breyta

Dag einn kom nágranni að Nasreddin þar sem hann gekk um götur þorpsins, greinilega leitandi að einhverju. „Hvað ertu að gera?“, spurði hann. „Ég er að leita að peningunum mínum“, svaraði Nasreddin. „Viltu að ég hjálpi þér að finna þá?“, spurði nágranninn. „Já takk“, svaraði Nasreddin að bragði og saman leituðu þeir og leituðu.

Brátt komu að tveir menn og brátt fjórir til viðbótar og áður en varði var allt þorpið farið að leita að peningum Nasreddins. Allt kom fyrir ekki og peningarnir fundust ekki. Kvölda tók og birtu for að þverra. Nágranni Nasreddins, sem fyrstur hafði komið að leitinni með honum spurði: „Nú erum við búnir að leita um allt þorpið og finnum ekki peningana sem þú týndir. Ertu viss um að þú hafir týnt þá hér?“

Nasreddin neitaði. Þá spurði nágranninn aftur og nú gætti ofurlítillar óþolinmæði í röddinni: „Af hverju erum við þá að leita hér í þorpinu, fyrst þú týndir þeim ekki hér?“

„Það er af því að hér er svo gott að leita“, svaraði Nasreddin að bragði.

Almenn einkenni hugrenninganna

breyta

Sögurnar sem eignaðar eru Nasreddin gefa mynd af kaldhæðinni persónu sem átti ekki í vanræðum með að koma fyrir sér orði, jafnvel þótt viðmælandinn var hinn versti harðstjóri síns tíma. Enda er veitti hann íbúum miðausturlanda útrás fyrir háð og gagnrýni, hvort heldur sem hún beinist gegn veraldlegu eða andlegu yfirvaldi þess tíma.

Í sumum dulspekihefðum eru grín, sögur og ljóðmæli notuð til að koma orðum að hugsunum með því að tengja framhjá venjulegri rýni og tortryggni. Dulspekin leitast á þann hátt við að virkja innsæið andstætt rökhugsuninni sem lokar og hlutgerir hugmyndirnar.

Sögurnar endurtaka ákveðin stef og hafa viðmót sem læðir inn og styrkir ákveðnum hugmyndum í huga manns sem einbeitir sér að yfirborðinu. Þversögnin, hið óvænta og valkostir við hið venjubundna er síðan lætt í huga þess sem les eða heyrir. Margar bækur hafa verið teknar saman með sögum um Nasreddin. Flestir heyra þó sögurnar eða mæta þeim í daglegu lífi sínu, sem hluti af samskiptum þar sem annar aðilinn gerir mistök, sem Nasreddin gerði að skotpæni sínu.

Sumar sögur Nasreddins eru notaðar sem kennisögur af súfískum kennurum. Þannig má búast við mörgum lögum af merkingum í sögunum.

Ritsöfn

breyta
  • Nasreddin, tyrkneskar kímnisögur, Þorsteinn Gíslason þýddi, Reykjavík (Leiftur)
  • Sögur af Nasrudin, Kristján Eiríksson þýddi (1997)
  • 600 Mulla Nasreddin Tales, safnað af Mohammad Ramazani (Popular Persian Text Series: 1) á persnesku.
  • The Exploits of the Incomparable Mulla Nasrudin, eftir Idries Shah, myndskreytt af Richard Williams
  • The Subtleties of the Inimitable Mulla Nasrudin, eftir Idries Shah, myndskreytt af Richard Williams.
  • The Pleasantries of the Incredible Mullah Nasrudin, eftir Idries Shah, myndskreytt af Richard Williams
  • The Wisdom of Mulla Nasruddin, eftir Shahrukh Husain

Nafnið

breyta

Nasrudin er ritað á marga vegu svo sem: persneska ملا نصرالدین, aseríska „Molla Nəsrəddin“, tyrkneska „Nasrettin Hoca“, kúrdíska „Mella Nasredîn“, arabíska: جحا (juḥā), نصرالدين (naṣr ad-dīn) merkir Sigur trúarinnar, þýð.: Malai Mash-hoor, albanska „Nastradin Hoxha“ eða einfaldlega „Nastradini“, bosníska „Nasruddin Hodža“, kínverska "阿凡提", úsbekíska „Nasriddin Afandi“ og „Afandi“, Snið:Lang-kk „Khozhanasir“, uyghuríska „Näsirdin Äfänti“, gríska Ναστραντίν Χότζας eða Νασρεντίν Χότζας[5][6][7].

Ýmsar myndir eru til á nafni Nasreddins svo sem Nasrudeen, Nasrudin, Nasr ud-Din, Nasredin, Naseeruddin, Nasruddin, Nasr Eddin, Nastradhin, Nasreddine, Nastratin, Nusrettin, Nasrettin, Nostradin og Nastradin .

Sums staðar er titillinn Hoja: „Hoxha“, „Khwaje“, „Hodja“, „Hojja“, „Hodscha“, „Hodža“, „Hoca“, „Hogea“, „Hodza“.

Á arabísku er hann þekktur sem „Juha“, „Djoha“, „Djuha“, „Dschuha“, „Giufà“, „Chotzas“, „Goha“ (جحا (juḥā)), „Mullah“, „Mulla“, „Molla“, „Maulana“, „Efendi“, „Afandi“, „Ependi“ (أفندي (afandī), „Hajji“. Titillinn kemur sums staðar í stað nafns hans.

Í menningu swahili eru margar sögur af Nasreddin sagðar en þar heitir hann „Abunuwasi“.

Nasreddin er þekktur í Kína undir nöfnunum 阿凡提 (Āfántí) og 阿方提 (Āfāngtí). Þar í landi var framleidd þrettán þátta teiknimyndaröð undir nafninu ‚The Story of Afanti‘/阿凡提 (电影) 1979 sem varð ein af áhrifamestu teiknimyndum í sögu kínverskrar kvikmyndaframleiðslu.

Í Mið-Asíu er hann þekktur sem „Afandi“.

Tilvísanir

breyta
  1. Ohebsion, Rodney (2004) A Collection of Wisdom, Immediex Publishing, ISBN 1-932968-19-9.
  2. „Akşehir's International Nasrudin Hoca Festival and Aviation Festival - Turkish Daily News 27. júní 2005“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. september 2007. Sótt 17. desember 2009.
  3. Blákápa, íslenskt ævintýri, skráð af Jóhönnu Á. Steingrímsdóttur ásamt myndskreytingum Önnu Cynthia Leplar, Reykjavík (Mál og menning) 1999
  4. Idris Shah (1964), The Sufis, London: W. H. Allen ISBN 0-385-07966-4.
  5. „Afanti de gu shi“ (safn af uighurískum þjóðsögum og upplýsingum um siði þeirra og lífsvenjur) ISBN 957-691-004-8
  6. J.C. Yang, Xenophobes Guide to the Chinese, Oval Books, ISBN 1-902825-22-5
  7. „The Effendi And The Pregnant Pot - Uygur Tales from China“; New World Press; Beijing, China

Tenglar

breyta