Magnús hlöðulás

Magnús hlöðulás Birgisson (um 124018. desember 1290) var konungur Svíþjóðar frá 1275, þegar hann þvingaði Valdimar bróður sinn til að segja af sér, og til dauðadags. Áður var hann stundum kallaður Magnús 1. þar sem þeir tveir konungar með Magnúsarnafni sem verið höfðu á undan honum ríktu báðir stutt og ríkisstjórn þeirra var umdeild en nú er hann alltaf nefndur Magnús 3.

Magnús hlöðulás. Freska í Överselö-kirkju.

Hertogi af Svíþjóð breyta

Magnús var næstelsti sonur Birgis jarls Magnússonar og Ingibjargar Eiríksdóttur konu hans. Fæðingarár hans er óvíst en hann hefur líklega verið fæddur rétt eftir 1240. Fátt er vitað um uppvöxt hans en hann er sagður hafa verið dökkur yfirlitum og horaður. Rannsókn á beinagrind hans leiddi í ljós að hann var hávaxinn á þeirra tíma mælikvarða (183 cm) en virðist hafa átt við lungna- eða hjartasjúkdóm að stríða sem orsakaði afmyndun á útlimabeinum og kann að hafa dregið hann til dauða.

Elsti bróðrinn, Valdimar, varð konungur við lát Eiríks konungs 1250 og Birgir jarl útnefndi Magnús sem arftaka sinn í jarlsembætti, en þegar Birgir dó 1266 varð hann þó ekki jarl, heldur fékk hann titilinn hertogi af Svíþjóð og varð mun valdaminni en faðir hans hafði verið. Ekki er hægt að finna neitt í sænskum heimildum sem bendir til þess að ósætti eða valdatogstreita hafi verið með bræðrunum frá 1266-1273 en þegar Valdimar sneri aftur úr suðurgöngu til Rómar hófu bræðurnir Magnús og Eiríkur, sem kallaði sjálfan sig Eirík alls-ekki, að sögn vegna gremju yfir að hafa ekki fengið neinar nafnbætur eða völd, uppreisn gegn honum og nutu stuðnings Dana.

Konungur Svíþjóðar breyta

Þeir steyptu Valdimar af stóli og neyddu hann til að segja af sér sumarið 1275. Magnús var kjörinn konungur og Eiríkur varð hertogi en hann naut þess ekki lengi því hann dó í árslok sama ár. Eftir það var yngsti bróðirinn, Bengt (Benedikt), biskup og síðar hertogi af Finnlandi, helsti ráðgjafi Magnúsar, sem var krýndur 24. maí 1276 í Uppsaladómkirkju.

Magnús hafði náð krúnunni með stuðningi Eiríks klippings Danakonungs og stofnað sér í skuldir við hann sem hann greiddi svo ekki. Danakonungur fór því að veita Valdimar stuðning, enda var Soffía kona Valdimars dönsk prinsessa og frænka Eiríks. Magnús leitaði í staðinn stuðnings hjá Geirharði hertoga af Holtsetalandi og gekk að eiga Helvig dóttur hans. Hann var raunar giftur fyrir en nafn konu hans er óþekkt; ógilding fyrra hjónabandsins og leyfi fyrir hinu síðara vegna skyldleika hjónanna var ekki gefið út af páfa fyrr en tíu árum síðar, 1286.

Deilur héldu áfram milli Magnúsar og Valdimars næstu árin en Valdimar dvaldi að mestu í Danmörku. Magnús styrkti stöðu sína sífellt og árið 1285, þegar Valdimar sneri aftur til Svíþjóðar af óþekktum ástæðum, lét Magnús hneppa hann í varðhald þar sem hann sat til dauðadags 1302 en bjó þó ekki við neitt harðræði og undirritaði stundum skjöl og gerninga ásamt bræðrum sínum.

 
Innsigli Magnúsar hlöðuláss.

Stjórnartíð Magnúsar breyta

Magnús gerði ýmsar endurbætur á sænska stjórnkerfinu og Alsnö-tilskipunin frá 1279 eða 1280 er oft talin eins konar stofnskrá sænska erfðaaðalsins. Þar fengu allir þeir sem tóku að sér að sjá krúnunni fyrir vopnuðum riddara og hesti handa honum undanþágu frá ákveðnum sköttum og skyldum.

Sagt er að viðurnefni konungs, hlöðulás, megi einnig rekja til þessarar tilskipunar, því að þar var almenningur leystur undan skyldu til að sjá aðalsmönnum og biskupum fyrir fríu uppihaldi á ferðalögum - það mátti sem sagt læsa hlöðunum. (Raunar hefur líka komið fram sú kenning að Magnús hafi heitið Ladislaus að síðara nafni, enda átti hann til slavneskra forfeðra að telja, og ladulås sé afbökun úr því).

Jafnframt stofnaði Magnús sænska ríkisráðið 1284 og lét þá um leið kjósa Birgi son sinn sem arftaka sinn og Eirík, yngri bróður hans, hertoga. Hann lét til sín taka í utanríkismálum, gerði ýmsa samninga við erlenda ráðamenn og mun að minnsta kosti í Þýskalandi hafa verið álitinn voldugastur norrænu konunganna.

Börn breyta

Þegar Magnús dó 1290 eftir langvarandi veikindi voru synir hans ungir og ríkisarfinn, Birgir Magnússon, líklega um tíu ára. Stýrði Helvig drottning ríkinu næstu árin ásamt ríkisráðinu.

Börn þeirra Magnúsar sem upp komust voru Ingibjörg, sem giftist Eiríki menved Danakonungi, Birgir, konungur Svíþjóðar 1290-1321, hertogarnir Eiríkur og Valdimar, sem voru sveltir í hel af Birgi bróður sínum árið 1318, og Ríkissa abbadís í Klöruklaustrinu í Stokkhólmi.


Fyrirrennari:
Valdimar Birgisson
Svíakonungur
(12751290)
Eftirmaður:
Birgir Magnússon