Birgir Magnússon
Birgir Magnússon (1280 – 1321) var konungur Svíþjóðar frá 1290 til 1318 en þá var honum steypt af stóli. Ríkisstjórnarár hans einkenndust af stöðugri togstreitu og ófriði við yngri bræður hans tvo, Bræðrastríðinu svonefnda.
Birgir var elsti sonur Magnúsar hlöðuláss Birgissonar, sem var konungur Svíþjóðar frá 1275-1290, og Helvig af Holtsetalandi, og hét hann eftir afa sínum, Birgi jarli. Hann var aðeins tíu ára þegar faðir hans lést og hafði Þorgils Knútsson marskálkur forræði yfir Birgi og yngri bræðum hans, Eiríki og Valdimar, sem kallaðir voru einu nafni hertogarnir.
Birgir var krýndur konungur Svíþjóðar í Söderköping 1302 en fljótlega eftir það hófst togstreita milli hans og bræðranna. Hertogarnir viðurkenndu yfirráð bróður síns með samningi 1305 en fljótlega sótti í sama farið og þeir fengu stuðning frá Hákoni hálegg Noregskonungi. Birgir hafði mikinn stuðning af Þorgils Knútssyni en bræðrum hans tókst að baktala Þorgils svo að konungur lét handtaka hann og flytja hann í hlekkjum til Stokkhólms, þar sem hann var hálshöggvinn í febrúar 1306.
Þann 29. september um haustið heimsóttu hertogarnir Birgi konung bróður sinn í konungsgarðinn Hátún. Hann tók vel á móti þeim en um kvöldið handtóku menn hertoganna konung og drottningu, en hirðsveinn nokkur komst undan með Magnús son þeirra og var farið með hann til Danmerkur, í hendur Eiríks menveds konungs, móðurbróður hans. Birgi konungi var haldið föngnum þar til hann hét því árið 1308 að skipta ríkinu með bræðrum sínum. Þessir atburðir kölluðust Hátúnaleikurinn.
Eiríkur hertogi var að reyna að stofna sjálfstætt konungsríki í Hallandi og Bóhúsléni, sem hann hafði fengið sem heimanmund með konu sinni, Ingibjörgu dóttur Hákonar háleggs, en það leist hvorki Dönum né Norðmönnum á og þeir tóku höndum saman gegn Eiríki og fóru í stríð við hann. Eiríkur var snjall herforingi og hafði betur. Í friðarsamningum milli Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur var samið um að Birgir yrði konungur að nafninu til en hann þurfti að láta stóra hluta ríkisins í hendur bræðra sinna.
Haustið 1317 bauð Birgir bræðrum sínum til veislu í Nyköping-kastala, gestaboðsins í Nyköping, sem svo hefur verið nefnt. Þegar veislan stóð sem hæst lét hann handtaka bræðurna og varpa þeim í dýflissu kastalans. Þar létust þeir snemma árs 1318 og er ekki ljóst hvort þeir voru myrtir eða urðu hungurmorða.
Seinna sama ár var Birgir hrakinn í útlegð af stuðningsmönnum hertoganna undir forystu ekkna þeira, Ingibjargar Hákonardóttur ekkju Eiríks og Ingibjargar Eiríksdóttur ekkju Valdimars. Mats Ketilmundsson var ríkisstjóri fyrst í stað en árið 1319 var Magnús, þriggja ára sonur Eiríks og Ingibjargar, sem þá hafði erft norsku krúnuna eftir afa sinn, tekinn til konungs í Svíþjóð einnig og stýrðu móðir hans og Helvig amma hans ríkinu ásamt ríkisráði.
Birgir flúði til Danmerkur og dó þar 1321. Kona hans var Marta af Danmörku, dóttir Eiríks klippings Danakonungs og systir Eiríks menved og Kristófers 2. Sonur þeirra, Magnús Birgisson, var tekinn af lífi í Stokkhólmi 1320.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Birger Magnusson“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. september 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Birger of Sweden“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. september 2010.
Fyrirrennari: Magnús hlöðulás |
|
Eftirmaður: Magnús Eiríksson |