Landsbókasafn Íslands

(Endurbeint frá Landsbókasafnið)

Landsbókasafn Íslands var þjóðbókasafn Íslands frá stofnun þess (sem Íslands Stiftisbókasafn) árið 1818 þar til það sameinaðist bókasafni Háskóla Íslands og myndaði Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn í Þjóðarbókhlöðunni 1. desember 1994.

Safnahúsið við Hverfisgötu þar sem Landsbókasafnið var staðsett 1908-1994.
Í safninu 1934.

Lengst af var safnið staðsett í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík þar sem hægt var að panta bækur á lestrarsal. Safnið naut skylduskila á öllu prentuðu efni útgefnu á Íslandi og bjó þar að auki yfir stærsta handritasafni landsins. Safnið var lengst af spjaldskrársafn þar sem bækur voru afgreiddar til notkunar á staðnum en ekki lánaðar út.

Fyrstu reglur um stjórn safnsins voru settar 1826 en 1907 voru í fyrsta skipti samþykkt sérstök lög um stjórn safnsins. Lögin um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn felldu úr gildi lög um Landsbókasafn Íslands frá 1969.

 
Reykjavík um 1869. Dómkirkjan fyrir miðri mynd.

Fyrsta tillagan að stofnun almenns bókasafns á Íslandi kom frá danska fornfræðingnum Carli Christian Rafn sem þá var nýgenginn í Hafnardeild Hins íslenska bókmenntafélags. Hann nefndi í tillögunni bækur sem vissir aðilar myndu vilja gefa til slíkrar stofnunar. Bókmenntafélagið skrifaði Geir Vídalín, biskupi, sem tók að sér að fá leyfi Kansellísins og innrétta háaloft dómkirkjunnar fyrir safnið. Algengt er að miða við dagsetningu svarbréfs Geirs til Bókmenntafélagsins og færslu í bréfabók hans 28. ágúst 1818 þegar talað er um stofndag safnsins.

Húsnæðið á dómkirkjuloftinu var ekki tilbúið fyrr en árið 1825 og var safnkostinum, sem Rafn og fleiri höfðu safnað saman fram að því, þá komið þar fyrir. Skýrsla Rafns frá 1826 telur 1545 bindi. 1847 var handritasafn Steingríms Jónssonar biskups sem lést 1845 keypt handa safninu með sérstöku framlagi frá yfirvöldum. Þjóðhátíðarárið 1874 bárust safninu svo margar gjafir.

Bókavörður

breyta

Enginn sérstakur bókavörður var í safninu til ársins 1848 þegar Jón Árnason, þjóðsagnasafnari, var ráðinn stiftsbókavörður. Jón samdi fyrstu skrána yfir safnkost bókasafnsins. Gert var ráð fyrir að laun hans væru greidd af fé sem fengist fyrir útlán bóka, en það þótti gefast illa. Þegar fjárveitingavald fluttist til landsins með endurreisn Alþingis 1874 fékk safnið regluleg opinber framlög.

Alþingishúsið

breyta

1881 flutti safnið í hið nýbyggða Alþingishús og 1886 voru sett lög um prentsmiðjur þar sem kveðið var á um skylduskil til Landsbókasafnsins. Við þetta stækkaði safnkosturinn ört; Jón Árnason áætlaði hann 20.000 bindi árið 1883 en 1906 var hann orðinn 69.000 bindi. Handritadeild safnsins stækkaði jafnframt ört. Á aldarafmæli safnsins 1918 var safnkosturinn orðinn 100.000 bindi og handritasafnið 7.000 bindi.

Safnahúsið

breyta

1895 var ákveðið að reisa stórt steinhús yfir söfn landsins til minningar um hálfrar aldar afmæli endurreists Alþingis. Safnahúsið var reist á árunum 1906-1908 og þangað fluttu inn Landsbókasafnið, auk Landsskjalasafns, Forngripasafns og Náttúrugripasafns, en tvö síðarnefnd söfnin fluttu úr húsnæðinu síðar.

Árbók Landsbókasafns kom út árlega frá 1945 til 1994. Til 1975 innihélt hún ritaukaskrá safnsins sem hafði komið út reglulega frá 1888. 1979 kom í fyrsta skipti út Íslenzk bókaskrá.

Sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns

breyta

1947 var skipuð nefnd um verkaskiptingu Landsbókasafns og Háskólabókasafns (sem var formlega stofnað 1940). 1956 skipaði Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra nefnd til að skoða möguleika á því að sameina söfnin tvö og í framhaldi af því var farið að tala um byggingu „þjóðarbókhlöðu“ yfir bæði söfnin við háskólann. Upphaflega stóð til að vígja slíka bókhlöðu þjóðhátíðarárið 1974 en vegna fjárhagsörðugleika dróst það og framkvæmdir hófust ekki fyrr en árið 1978. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn opnaði síðan í Þjóðarbókhlöðunni 1. desember 1994.

Landsbókaverðir

breyta
 
Jón Árnason, þjóðsagnasafnari, var fyrsti landsbókavörður landsbókasafns.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta