Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 18444. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian Kålund á gamalsaldri.

Æviferill

breyta

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).

Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4. Kaalund fékk doktorsnafnbót 8. maí 1879 fyrir hluta þessa verks (kaflann um Norðlendingafjórðung).

Eftir að hann kom frá Íslandi, varð hann (1875) kennari við Metropolitanskólann í Kaupmannahöfn (aðjúnkt 1880), en lét af því starfi vorið 1883, þegar hann varð ritari Árnanefndar og bókavörður við Handritasafn Árna Magnússonar. Mikilvægasta verk hans þar, var heildarskrá um handritasafnið, sem kom út í tveimur bindum 1889–1894. Slíka skrá hafði sárlega vantað, og nokkrir gert atlögu að verkinu, m.a. Jón Sigurðsson forseti, en með verki Kaalunds varð safnið loks aðgengilegt fræðimönnum. Árið 1900 gaf hann út sambærilega skrá yfir forn íslensk og norsk handrit í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og Háskólabókasafninu. Þar birti Kaalund ítarlega ritgerð um söfnun og varðveislu handritanna fornu.

Sem bókavörður við Árnasafn, og ritari í Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur (frá stofnun þess 1879) og í Fornritanefnd Fornfræðafélagsins (eftir Konráð Gíslason 1891), hafði Kaalund mikil áhrif á útgáfustarfsemi á sviði íslenskra fornrita, og gaf sjálfur út nokkur rit. Mikilvægust er vönduð útgáfa hans á Sturlunga sögu 1906–1911. Útgáfa hans á Palæografisk Atlas, með fjölda sýnishorna af dönskum, norskum og íslenskum handritum, hafði mikla þýðingu fyrir rannsóknir á þróun skriftar á Norðurlöndum á fyrri öldum.

Á síðustu árum sínum fékkst Kaalund einkum við sögu Árnasafns, og gaf út heimildir um líf og starf stofnandans, Árna Magnússonar. Hefur hann eflaust ætlað að setja kórónuna á það verk með ítarlegri ævisögu Árna, en hann dó frá því verki.

Í Íslandsför sinni lærði Kristian Kaalund að tala íslensku, og bar síðan hlýjan hug til þjóðarinnar. Fékk hann brátt áhuga á sögu Íslands á síðari öldum, sem kom honum að gagni þegar hann skrifaði æviágrip fjölda Íslendinga í Dansk biografisk leksikon, 1887–1905, og greinar um Ísland i Nordisk konversations-leksikon, 3. útg.

Þegar Kristian Kaalund varð sjötugur, 1914, gaf Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn út afmælisrit honum til heiðurs, með æviágripi hans eftir Finn Jónsson og greinum sex íslenskra fræðimanna.

 • Afmælisrit til dr. Phil. Kr. Kålunds, bókavarðar við Safn Árna Magnússonar, 19. ágúst 1914, Kaupmannahöfn.

Kristian Kaalund var ógiftur og barnlaus. Við fráfall hans, 1919, arfleiddi hann Hið íslenska fræðafélag að öllum eigum sínum.

Hann varð félagi í Vísindafélaginu í Kristjaníu 1899, í Vísindafélaginu danska (Videnskabernes Selskab) 1900 og Sænska vísindafélaginu (Kungliga vitterhets-, historie- og antikvitets akademien) 1910. Hann varð riddari af Dannebrog 1907. Hið íslenska bókmenntafélag kaus hann heiðursfélaga 1897.

Rannsóknir á íslenskum fornleifum

breyta

Kristian Kaalund ferðaðist um allt Ísland til þess að skoða og skrá þekkta sögustaði og sögusvið Íslendingasagna. Í bók sinni, Bidrag til en topografisk-historisk Beskrivelse af Island eða Íslenskir sögustaðir, lýsir Kaalund landslaginu og fornum minjum sem hann taldi að tengdust Íslendingasögum eða vörpuðu ljósi á þær. Einnig skráði hann sagnir og munnmæli sem tengdust rústum og fornum grafhaugum. Hann notaði margskonar heimildir og studdist t.d. við örnefni og staðbundnar hefðir auk eigin athugana á rústum sem hann skoðaði. Hann bar vettvangsathuganir sínar saman við upplýsingar sem hann fann í sóknarlýsingum og gögnum frá Konunglegu fornminjanefndinni í Danmörku auk margvíslegra annarra heimilda. Árið 1882 gaf Kaalund út ritgerðina Islands Fortidslævningar eða “Icelandic Antiquities”, þar sem að hann skráði niður alla þekkta heiðna grafstaði. Hann efaðist um að það væri mikill fjöldi af heiðnum grafreitum vegna þess að fyrstu landnámsmennirnir komu til landsins á seinni hluta 9. aldar og svo var kristnin tekin upp árið 1000, samkvæmt Íslendingabók og Landnámabók .

Minjar um stofnanir þjóðveldisins

breyta

Í leiðangri sínum leitaðist Kaalund við að fara á alla þá staði sem getið er í Íslendingasögunum (nokkur svæði urðu þó útundan), lýsa þeim rústum sem taldar voru tengjast sögunum og átta sig á staðháttum m.a. með tilliti til þess hvort leiðalýsingar sagnanna væru raunhæfar. Hann taldi að með því að skoða staðhættina mætti varpa ljósi á óskýr atriði í sögunum og jafnvel skera úr um hvaða textar væru upprunalegastir þar sem sögurnar voru varðveittar í mismunandi gerðum. En hann hafði líka áhuga á því að varpa almennu ljósi á söguöldina með því að skoða staðhætti og fornleifar og lagði því líka áherslu á að skoða ummerki um stofnanir þjóðveldisins, hof og þing. Hann athugaði marga slíka staði þó þeirra væri ekki endlilega getið í sögunum og lagði víða grunninn að frekari rannsóknum. Hann skráði t.d. um 60 staði þar sem hann taldi að hof hefðu verið í heiðni, m.a. á Hofstöðum í Mývatnssveit þar sem Daniel Bruun átti seinna eftir að gera mkikinn uppgröft og þar sem mikla rannsóknir fóru aftur fram 1991-2002.

Kaalund kom einnig á marga af þeim stöðum sem taldir eru hafa verið þingstaðir á þjóðveldisöld og tókst á við þann vanda að reyna að skilgreina slíka staði útfrá minjum sem sáust á yfirborði. Á mörgum slíkum stöðum fann hann þyrpingar af ferhyrndum rústum, sem hann taldi vera búðir, og svo annaðhvort ferhyrndar eða hringlaga rústir sem hann taldi vera dómhringa. Á sumum þingstaðanna taldi hann einnig hafa verið þingbrekku. Mjög oft voru það örnefni eins og "þing" eða "búð" sem komu honum á sporið þar sem hann leitaði þingstaða.

Kaalund beitti hvergi uppgrefti við rannsóknir sínar en lýsingar hans og skilgreiningar á minjastöðum lögðu grundvöllinn að frekari rannsóknum á næstu áratugum. Hið Íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og áttu rannsóknarmenn þess, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur Jónsson frá Minna Núpi, eftir að heimsækja flesta þá staði sem Kaalund skráði, enduskoða sumar af túlkunum hans en þó oftar að bæta við ítarlegri lýsingum. Stórt hlutfall friðlýstra minjastaða í dag var fyrst lýst af Kristian Kaalund.

Brenna Njáls

breyta

Kaalund heimsótti Bergþórshvol þar sem Njáll og fjölskylda hans voru brennd inni árið 1011 samkvæmt Njáls sögu. Hann fann þar ösku og búta af bronsi, en taldi það ættað úr ruslahaugi og væri því ekki tengt brennunni sjálfri. Í kjölfarið hafa ýmsir fræðimenn, þ.á.m. Sigurður Vigfússon, Matthíast Þórðarson og Kristján Eldjárn spreytt sig á að finna ummerki um Njálsbrennu á Bergþórshvoli, en með misjöfnum árangri.

Ritstörf

breyta

Útgáfur og fræðirit

breyta
 • Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island 1–2, København 1877–1882. — Íslensk þýðing: Íslenskir sögustaðir 1–4, Örn og Örlygur, Rvík 1984–1986, Haraldur Matthíasson þýddi.
 • Fljótsdæla hin meiri, eller den længere Droplaugarsona saga, København 1883. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 11.
 • Reykjaholtsmáldagi, København 1885. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit. 14.
 • Laxdæla saga, København 1889–1891. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 19.
 • Laxdæla saga, Halle 1896. Altnordische Saga-Bibliothek 4.
 • Katalog over den Arnamagnæanske Håndskriftsamling 1–2, København 1889–1894. — Í 2. bindi er ritgerð eftir Kaalund um Árna Magnússon og handritasafn hans, 22 bls.
 • Gull-Þóris saga eller Þorskfirðinga saga, København 1898. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 26.
 • Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter i Det store Kongelige biblotek og Universitetsbiblioteket (udenfor den Arnamagnæanske samling) samt den Arnamagnæanske samlings tilvækst 1894–99. København 1900. — Í bókinni er ritgerð Kaalunds: „Den nordiske (norrøne) oldlitteraturs samling og bevaring“, 63 bls.
 • Heiðarvíga saga, København 1904. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 31.
 • Palæografisk Atlas, Dansk afdeling, København 1903.
 • Palæografisk Atlas, Oldnorsk-islandsk afdeling, København 1905.
 • Palæografisk Atlas, Ny serie, Oldnorsk-islandske skriftprøver c. 1300–1700, København 1907.
 • Lækningabók. Den islandske lægebog codex Arnamagnæanus 434a 12mo, København 1907. Videnskabernes Selskab.
 • Sturlunga saga 1–2, København 1906–1911. Fornfræðafélagið gaf út. Textaútgáfa eftir handritunum.
 • Arne Magnussons i AM 435 A-B 4to indeholdte håndskriftfortegnelser, København 1909. Árnanefnd gaf út.
 • Alfræði íslensk 1: AM 194 8vo, København 1908. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 37.
 • Alfræði íslensk 2: Rímtöl, København 1914–1916. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 41. Meðútgefandi: Natanael Beckman.
 • Alfræði íslensk 3: Landalýsingar m.fl., København 1917–1918. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 45.
 • Árni Magnússons brevveksling med Torfæus (Þormóður Torfason), København 1916. Carlsbergssjóðurinn.
 • Árni Magnússons embedsskrivelser og andre offenlige aktstykker, København 1916. Carlsbergssjóðurinn.
 • Kirialax saga, København 1917. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 43.
 • Árni Magnússons private brevveksling, København 1920. — Finnur Jónsson lauk verkinu, sem er að hluta útdrættir úr bréfunum.

Nokkrar greinar

breyta
 • „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“. Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, Kbh. 1870, 269-381.
 • „Islands fortidslævninger“. Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, Kbh. 1882, 57-124.
 • „Om lakunerne i Gull-Þóris saga“. Arkiv for nordisk filologi, Christiania 1883, 179-191.
 • „Droplaugarsona saga – i den ved brudstykket AM 162 fol. repræsenterede bearbejdelse“. Arkiv for nordisk filologi, Christiania 1886, 159-176.
 • „En islandsk ordsprogsamling fra 15de århundrede, med tillæg ...“. Småstykker 7, Kbh. 1886, 131-184. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur.
 • „Sitte. Skandinavische Verhältnisse“. Grundriss der germanischen Philologie 13, 1890. – Valtýr Guðmundsson skrifaði seinni hlutann, sem birtist nokkrum árum seinna.
 • „Nyfundet brudstykke af en gammelnorsk homilie“. Arkiv för nordisk filologi, Lund 1896, 367-369.
 • „Kan „Historia de profectione Danorum in Terram sanctam“ regnes for Danmarks litteratur“. Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, Kbh. 1896, 79-96.
 • „Fyrsta sjóferð Finns Magnússonar“. Eimreiðin, Kmh. 1897, 115-123.
 • „Bidrag til Rasmus Rasks levned. Fra samtidiges skildring“. Dania. Tidsskrift for dansk sprog og litteratur, samt folkeminder 4, Kbh. 1897, 129-143.
 • „Det islandske Lovbjærg“. Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, Kbh. 1899, 1-18.
 • „Om håndskrifterne af Sturlunga saga og dennes enkelte bestanddele“. Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, Kbh. 1901, 259-300.
 • „Studier over Crymogæa“. Arkiv för nordisk filologi, Lund 1907, 211-234.
 • „Bidrag til digtningen på Island omkring 1500, ...“. Nordisk tidsskrift for filologi, Kbh. 1908, 108-125.
 • „Islands digtning omkring 1500“. Nordisk tidsskrift for filologi, Kbh. 1909, 37-46.
 • „En islandsk vejviser for pilgrimme fra 12. aarhundrede“. Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, Kbh. 1913, 51-105.
 • „Kirjalax sagas kilder“. Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, Kbh. 1917.
 • „En beretning om Island, nedskreven 1741“. Namn och bygd 5, Lund 1917, 9-14.

Þýðingar

breyta
 • Jón Thoroddsen: Indride og Sigrid – fortælling, København 1874. (Piltur og stúlka á dönsku)
 • Sturlunga saga 1–2, København 1904. (Dönsk þýðing), Fornfræðafélagið gaf út.

Heimildir

breyta
 • Jón Helgason: „Kristian Kålund“. Dansk biografisk leksikon 8, 3. útg., København 1981.
 • Bogi Th. Melsted: „Kristian Kålund“. Ársrit Hins íslenska fræðafélags, Fimmta ár, Kmh. 1920, 91-116.
 • Fyrirmynd greinarinnar var „Peter Erasmus Kristian Kaalund“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 27. júlí 2008.
 • Adolf Friðriksson: Sagas and popular antiquarianism in Icelandic archaeology. Aldershot 1994.