Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn
Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn – eða Fræðafélagið – er félag stofnað árið 1912 af fáeinum íslenskum fræðimönnum sem störfuðu í Kaupmannahöfn. Markmið félagsins er að gefa út og styðja við útgáfu gamalla og nýrra rita um Ísland og Íslendinga en „[þ]á er fjelagið gefur út gömul rit, brjef og önnur skjöl, verður sjerstaklega tekið til þeirra, sem geymd eru í handrita- og skjalasöfnum í Kaupmannahöfn“, eins og segir í Ársriti Fræðafélagsins 1 (1916): bls. 121. Félagið starfar enn.
Stofnun félagsins, ákvæði laga og starfsemi
breytaÁrið 1906 hófst barátta fyrir því að flytja Kaupmannahafnardeild Hins íslenska bókmenntafélags heim til Íslands; niðurstaðan varð sú að Hafnardeildin var sameinuð Reykjavíkurdeildinni 1911. Það var sama ár og Háskóli Íslands tók til starfa í kjallara Alþingishússins. Kaupmannahafnardeild Bókmenntafélagsins var einn helsti vettvangur fræða- og útgáfustarfs Íslendinga í borginni. Bogi Th. Melsteð var framarlega í hópi Hafnar-Íslendinga og hafði verið varaforseti Kaupmannahafnardeildarinnar nær samfellt frá 1894. Hann var heimflutningi hennar andvígur, þótt aðrir teldu þessa breytingu óumflýjanlega, deildinni yrði ekki haldið lengur í Kaupmannahöfn. Bogi gerðist því forgöngumaður að því að stofna nýtt félag, Hið íslenzka fræðafjelag, sem tæki við sem vettvangur útgáfu- og fræðastarfs Íslendinga í Höfn. Fræðafélagið var þó hugsað sem allt annars konar félag en Bókmenntafélagið sem það átti með engu móti að keppa við heldur starfa við hlið og styðja eftir fremsta megni.
Eftir nokkurn undirbúning var boðað til stofnfundar 11. maí 1912, og var Bogi Th. Melsteð kosinn forseti, Sigfús Blöndal skrifari og Finnur Jónsson féhirðir. Hið íslenzka fræðafélag í Kaupmannahöfn hefur jafnan verið fámennt, einkum hin síðari árin. Samkvæmt lögum þess máttu félagsmennirnir „eigi vera fleiri en 12“, en svo margir urðu þeir sennilega aldrei. Innganga í Fræðafélagið krafðist samþykkis tveggja félagsmanna af þremur, eingöngu virtir fræðimenn voru tækir, sem þóttu líklegir til að nýtast félaginu með beinni þátttöku í störfum þess. Félagsmenn skyldu vera búsettir í Kaupmannahöfn eða nánasta umhverfi. Við flutning annað gat félagsmaður þó haldið stöðu sinni, flytti hann eigi burt frá Danmörku og héldi hann áfram að starfa að verkefnum félagsins. Aðrir en Íslendingar gátu orðið félagsmenn ef þeir skildu og töluðu íslensku (að dómi eldri félagsmanna). Af öðrum sem störfuðu í félaginu um tíma má nefna Þorvald Thoroddsen, Björn K. Þórólfsson, Jón Helgason, Jakob Benediktsson og Jón Krabbe. Áhöld eru um hvort Danir hafi fengið inngöngu í félagið, þótt þau Kristian Kaalund og Jonna Louis Jensen hafi unnið því gagn. Félagið var sjálfseignarfélag og sjóðir þess „bundið kapítal“, sem varðveita skyldi í einum hinna stærri dönsku banka. Undir kostnaði við starfsemina áttu að standa vaxta- og fjármagnstekjur sjóða, sem hrukku þó ekki til, því félagið þurfti jafnan að leita á náðir annarra og hefur notið fjölmargra styrkja í gegnum árin, s.s. frá danska og íslenska ríkinu, en jafnfram frá velgjörðamönnum.
Forsetar félagsins hafa verið:
- 1912–1929: Bogi Th. Melsteð mag. art.
- 1930–1934: Finnur Jónsson prófessor.
- 1934–1986: Jón Helgason prófessor.
- 1986–2020: Pétur M. Jónasson prófessor.
- 2021– : Gottskálk Jensson prófessor
Félagið hóf strax starfsemi og komu fyrstu bækurnar út haustið 1912. Starfaði félagið að heita má samfellt og af miklum krafti í 45 ár, eða fram til árisins 1957, þegar sett var á laggirnar sérstök rannsóknar- og útgáfustofun við Kaupmannahafnarháskóla í kringum handritasafn Árna Magússonar, nefnd Árnastofnun (á dönsku: Det Arnamagnæanske Institut), en þar varð til öflugur vettvangur fyrir hinn starfsama forseta Fræðafélagsins þá, Jón Helgason prófessor, og aðra íslenska fræðimenn í Kaupmannahöfn. Fræðafélagið starfar enn að útgáfu fræðirita en í stað þess að gefa út undir eigin nafni hefur það stutt fræðafélög á Íslandi við útgáfustarf þeirra. Sögufélag hefur alllengi verið umboðsaðili fyrir sölu á bókum Fræðafélagsins sem enn eru fáanlegar.
Rit hins íslenzka fræðafélags í Kaupmannahöfn
breytaÍ forsetatíð Boga Th. Melsteð gaf félagið út eins konar tímariti, sem nefnist Ársrit Hins íslenzka fræðafjelags í Kaupmannahöfn með myndum. Alls komu út 11 árgangar (1916-1930) og var í ritinu læsilegur fróðleikur um fjölbreytt efni fyrir íslenska lesendur. Allir árgangarnir eru aðgengilegir í stafrænni endurgerð á vef Landsbókasafns: timarit.is.
Í 25 ára afmælisriti félagsins, árið 1937, er yfirlit um útgáfustarfsemina fram að því, en félagið hafði þá gefið út 44 bækur. Hér fyrir neðan er greint nánar frá hinum ýmsu bókum fræðafélagsins, s.s. útgáfunni á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns og tveimur helstu ritröðum félagsins, sem hétu Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga, 14 bindi alls, og Íslensk rit síðari alda, alls 7+4 bindi. Á meðal þeirra rita sem Fræðafélagið gaf út eru mörg grundvallarrit fyrir íslenska sögu, landafræði, tungu og menningu.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns
breytaStærsta útgáfuverkefni félagsins fyrstu áratugina var Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem kom út í 11 bindum á árunum 1913–1943, metnaðarfull útgáfa á merku heimildarriti. Jarðabókin nær ekki yfir allt landið, því frumskjölin yfir Múlasýslur og Skaftafellssýslur brunnu í Kaupmannahöfn 1728.
- 1. Vestmannaeyja- og Rangárvallasýsla. Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1913–1917. [Sjóður Hielmstierne-Rosencrone greifa styrkti útgáfuna.]
- 2. Árnessýsla. Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1918–1921.
- 3. Gullbringu- og Kjósarsýsla. Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1923–1924.
- 4. Borgarfjarðar- og Mýrasýsla. Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1925–1927.
- 5. Hnappadals- og Snæfellsnessýsla. Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1931–1933.
- 6. Dala- og Barðastrandarsýsla. Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1938.
- 7. Ísafjarðar- og Strandasýsla. Jakob Benediktsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1940.
- 8. Húnavatnssýsla. Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1926.
- 9. Skagafjarðarsýsla. Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1930.
- 10. Eyjafjarðarsýsla. Jakob Benediktsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1943. [Nær allt upplagið af 10. bindinu brann í stríðinu, 1943, rétt eftir að það var komið út, en árið sem stríðinu lauk, 1945, var bókin endurútgefin ljósprentuð.]
- 11. Þingeyjarsýsla. Jakob Benediktsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1943.
Á árunum 1980–1988 lét Fræðafélagið ljósprenta alla Jarðabókina, og gaf hana aftur út innbundna. Um leið var ákveðið að bæta við þremur bindum:
- 12. Atriðisorðaskrá. Gunnar F. Guðmundsson annaðist verkið. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1990.
- 13. Fylgiskjöl. Gunnar F. Guðmundsson annaðist verkið. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1990.
- Aukabindi: Jarðabréf frá 16. og 17. öld: Útdrættir. Gunnar F. Guðmundsson annaðist verkið og ritaði inngang um Jarðabókina. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1993.
Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga 1922-1943 (lokið 1986)
breytaFrumkvæðið að Safni Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga átti forseti þess, Bogi Th. Melsteð. Segir hann í Formála 1. bindis, að ritröðin sé hugsuð fyrir „brjef og ritgjörðir, smáar og stórar“, „rit um náttúru Íslands, dýr og jurtir, og annað er snertir landið“, „æfisögur merkra Íslendinga og rit um ýmis efni úr sögu þjóðarinnar, bæði um stjórnarfar, verslun og menningu, einnig rit um íslenskar bókmentir og sögu íslenskrar tungu o.fl. Í því [Safni Fræðafélagsins] má gefa út ýmsar ritgjörðir og skjöl... eftir merka Íslendinga á seinni öldum er liggja óprentaðar í handrita- og skjalasöfnum erlendis [...] Er þar mikið verkefni fyrir höndum, og mjög nauðsynlegt að unnið sje að því, að koma hinu merkasta af því á prent.“
- Bogi Th. Melsteð: Þorvaldur Thoroddsen, Minningarbók. Æskuár. Útgáfuna annaðist Bogi Th. Melsteð. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1922.
- Bogi Th. Melsteð: Þorvaldur Thoroddsen, Minningarbók. Kennslustörf og rannsóknir á Íslandi 1880-1898. Útgáfuna annaðist Bogi Th. Melsteð. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1922.
- Þorvaldur Thoroddsen: Fjórar ritgjörðir. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1924. [Ritgerðirnar fjórar heita: Eldgos í Vatnajökli: bls. 1-42 ; Saga fiskveiðanna við Ísland: bls. 43-89 ; Landnámsmenn: bls. 90-104 ; Nokkrar uppteiknanir um búnaðarhætti o.fl. frá árunum 1882-1887: bls. 105-120.]
- Magnús Stephensen, Bréf til Finns Magnússonar. Bogi Th. Melsteð bjó til útgáfu og ritaði formála. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1924.
- Jón Helgason: Jón Ólafsson frá Grunnavík. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1926. [Doktorsritgerð Háskóla Íslands 1925.]
- Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1928.
- Jón Helgason: Málið á Nýja-testamenti Odds Gottskálkssonar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1929. [Rækileg mállýsing á fyrstu bók sem prentuð var á íslensku. Stafsetningu, beygingum og setningafræði er lýst með samanburði við eldri og yngri málstig. Nærri hálf bókin er orðasafn þar sem einkum er að finna orð og merkingar sem ekki koma fyrir í miðaldamálinu.]
- Finnur Jónsson: Ævisaga Árna Magnússonar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1930.
- Björn Þórólfsson: Rímur fyrir 1600. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1934. [Doktorsritgerð Háskóla Íslands 1934.]
- Ævisaga Finns Jónssonar eftir sjálfan hann. Jón Helgason bjó til prentunar og ritaði formála. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1936.
- Gísli Magnússon (Vísi-Gísli): Ævisaga, ritgerðir, bréf. Jakob Benediktsson bjó latínutexta til útgáfu, þýddi og ritaði inngang. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1939.
- Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar. Jón Helgasonn bjó til prentunar og ritaði inngang. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1942.
- Bjarni Thorarensen: Bréf. 1. bindi. Jón Helgason bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1943. [Ljósprentað í Odda h/f og endurútgefið ásamt 2. bindi, Reykjavík 1986.]
- Bjarni Thorarensen: Bréf. 2. bindi. Jón Helgason bjó til prentunar með aðstoð Agnete Loth. Reykjavík: Hið íslenzka fræðafélag & Oddi, 1986. [1. bindi var ljósprentað eftir frumútgáfunni og endurútgefið 1986 en 2. bindi frumútgefið, sbr. formála eftir Agnete Loth í þessu bindi. Bjarni Thorarensen var móðurafi Boga Th. Melsteð og honum var áfram um útgáfu bréfanna. Þegar Jón Helgason kom fátækur stúdent til Kaupmannahafnar árið 1916 réð Finnur Jónsson prófessor, sem var féhirðir hins nýstofnaða Fræðafélags, Jón til að skrifa upp bréf Bjarna sem varðveitt voru á söfnum í Kaupmannahöfn. Þessi bréf komu út í 1. bindi bréfasafnsins árið 1943, í miðju stríði þegar engar ferðir voru á milli Danmerkur og Íslands, og því gat ekki orðið af útgáfu bréfa Bjarna, sem voru varðveitt á Íslandi, þótt það hafi verið ætlunin að þau kæmu út í öðru bindi. Jón hafði nærri lokið útgáfu þeirra þegar hann lést í janúar 1986, en kona hans Agnete Loth lauk verkinu. Jón hafði áður gefið út Ljóðmæli Bjarna Thorarensen fyrir Fræðafélagið í tveimur bindum árið 1935.]
Íslenzk rit síðari alda 1948-1960
breytaÍslenzk rit síðari alda var ritröð sem Jón Helgason átti frumkvæði að og stýrði. Alls komu út 7 rit og 2 ljósprentanir af handritum með inngangi í sérstöku bindi. Í upphafi fyrsta bindis segir Jón í kynningu á ritröðinni að íslenskar bækur prentaðar fram á 18. öld veiti ranga og einhliða mynd af íslenskum bókmenntum, því ýmisleg rit önnur en guðsorð hafi verið samin á Íslandi eins og sjáist í bókasöfnum á Íslandi og erlendis sem séu full af íslenskum ritum sem samin voru eftir siðaskipti. Það sé „líklega eins dæmi í heiminum að þjóð sem átti við þvílík kjör að búa sem Íslendingar á einokunaröld, svipt flestöllum þeim skilyrðum sem annars þykja nauðsynleg til menningarlífs, hafi lagt aðra eins alúð við bókagerð. Því munu bókmenntir þessa tímabils í allri sinni smæð einlægt verða taldar einn merkasti þáttur íslenzkrar menningar. En rannsóknir þeirra geti aldrei orðið annað en eintómt kák og fálm út í bláinn meðan ekki er lögð undistaða með traustum útgáfum.“
- 1. Ármanns rímur eftir Jón Guðmundsson lærða (1637) og Ármanns þáttur eftir Jón Þorláksson. Jón Helgason bjó til prentunar. ÍKaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag & S.L. Möller, 1948.
- 2. Guðmundur Andrésson: Deilurit. Jakob Benediktsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1948.
- 3. Nikulás Klím [eftir] Ludvig Holberg [á frummáli: Nicolai Klimii iter subterraneum], íslenzk þýðing [úr þýsku] eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík. Jón Helgason bjó til prentunar og ritaði inngang. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1948.
- 4. Spánverjavígin 1615. Sönn frásaga eftir Jón lærða [eða „vísa“] Guðmundsson og Víkings rímur. Jónas Kristjánsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1950. [Þetta var sveinsstykki Jónasar í útgáfustarfi og þótti Jakob Benediktssyni hafa með því bæst „efnilegur liðsmaður“ í hóp nákvæmra og heiðarlegra útgefenda. Sönn frásaga er eina sannferðuga heimildin um þessi svívirðilegu manndráp. Víkings rímur, eftir óþekktan höfund (e.t.v. Jón Gottskálksson á Vatneyri) eru illa varðveittar og auk þess „afburða lélegur“ skáldskapur, segir Jakob Benediktsson, en hafa þó sérstakt heimildagildi og segja frá atburðum sem annars er síður eða ekki fjallað um.]
- 5. Móðars rímur og Móðars þáttur. Jón Helgason bjó til prentunar og ritaði inngang. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1950.
- 6. Munnmælasögur 17. aldar, Bjarni Einarsson bjó til prentunar og ritaði inngang [sem er mjög fróðlegur og lengri en sjálfar munnmælasögurnar, en þær eru einkum gefnar út eftir bókum Jóns Eggertssonar og Árna Magnússonar]. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1955.
- 7. Gamall kveðskapur. Jón Helgason bjó til prentunar og ritaði inngang. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1979.
- 1. A og B. Annar flokkur: Ljósprentanir. Kvæðabók úr Vigur AM 148 8vo. Jón Helgason bjó til prentunar og ritaði inngang. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1955. [Í A-bindi eru prentaðar ljósmyndir af AM 148 8vo, en í B-bindi Inngangur útgefanda.]
- 2. A og B. Annar flokkur: Ljósprentanir. Kvæðabók séra Gissurar Sveinssonar AM 147, 8vo. Jón Helgason bjó til prentunar og ritaði inngang. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1960. [Í A-bindi eru prentaðar ljósmyndir af AM 147 8vo en í bindi B Inngangur útgefanda.]
Önnur rit og útgáfur Fræðafélagsins
breyta- Bogi Th. Melsteð, ritstj.: Endurminningar Páls Melsteðs, ritaðar af honum sjálfum. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1912.
- Bogi Th. Melsteð, ritstj.: Brjef frá Páli Melsteð til Jóns Sigurðssonar. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag, 1913.
- Bogi Th. Melsteð, ristj.: Afmælisrit til dr. phil. Kr. Kålunds bókavarðar við safn Árna Magnússonar 19. ágúst 1914. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafjelag í Kaupmannahöfn 1914. [Ritgerðirnar heita: 1. Um Stjörnu-Odda og Oddatölu / Björn M. Olsen; 2. Töldu Íslendingar sig á dögum þjóðveldisins vera Norðmenn? / Bogi Th. Melsteð; 3. Tvö heimildarrit um bygð í Öræfum, með athugasemdum / Finnur Jónsson; 4. Um víðferlis-sögu Eiríks Björnssonar / Sigfús Blöndal; 5. Úr sögu íslenzkra búninga / Valtýr Guðmundsson og 6. Eldreykjarmóðan 1783 / Þorvaldur Thoroddsen.]
- Bogi Th. Melsteð: Handbók í Íslendinga sögu I. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag & S. L. Møller, 1916.
- Bogi Th. Melsteð: Brjef frá Páli Melsteð til Jóns Sigurðssonar: viðbætir við útgáfuna 1913. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1924.
- Píslarsaga Síra Jóns Magnússonar. Sigfús Blöndal sá um útgáfuna. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1914.
- Hallgrímur Pétursson: Passíusálmar Hallgríms Pjeturssonar: gefnir út eftir eiginhandriti höfundarins, tvö hundruð og fimtíu árum eftir lát hans. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag, 1924.
- Bogi Th. Melsteð: Handbók í Íslendinga sögu II. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag & S. L. Møller, 1933.
- Bjarni Thorarensen: Ljóðmæli I-II. Jón Helgason bjó til prentunar. 2 bindi. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1935.
- Jakob Benediktsson: Hið íslenzka fræðafélag 1912-1937. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag, 1937.
- Brynjólfur Pétursson: Bréf. Aðalgeir Kristjánsson bjó til prentunar og ritaði lokaorð. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag, 1964.
- Margrét Jónasdóttir: Í Babýlon við Eyrarsund: Í félagsskap íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn 1893-1970. Reykjavík: Hið íslenzka fræðafélagi í Kaupmannahöfn og Oddi h/f, 1996.
Rit og endurútgáfur styrkt af Fræðafélaginu
breyta- Pétur M. Jónasson, ritstj.: Ecology of eutrophic, subarctic Lake Mývatn and the River Laxá. Kaupmannahöfn. [Sérhefti tímaritsins OIKOS 32:1-2 (1979)]
- Pétur M. Jónasson, ritstj.: Ecology of oligotrophic, subarctic Thingvallavatn. Kaupmannahöfn. [Sérhefti tímaritsins OIKOS 64:1–2 (1992)].
- Jón Helgason: Málið á Nýjatestamenti Odds Gottskálkssonar. Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga 7. Reykjavík: Málvísindastofnun Háskóla Íslands, 1999 [2. útgáfa; 1. útgáfa í Kaupmannahöfn, 1929].
- Hrafn Sveinbjarnarson: Félag íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn í 107 ár. Nokkrir sögukaflar og skrá yfir skjöl félagsins. Kaupmannahöfn: Félag íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, 2000.
- Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson, ritstj.: Þingvallavatn, undraheimur í mótun. Reykjavík: Mál og menning 2002. [2. prentun 2007.]
- Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson, ritstj.: Thingvallavatn, a unique world evolving. A World Heritage Site. Reykjavík: Opna, 2011. [Ensk þýðing fyrri bókarinnar, að hluta endursamin og aukin.]
- Jón Þ. Þór: Bogi Th. Melsteð, ævisaga hugsjónamanns. Hafnarfirði: Urður, 2015.
- Álfheiður Ingadóttir, ritstj.: Þingvallavatn – þemahefti Náttúrufræðingsins, 1. hefti, 90. árg. (2020). [Gefið út til heiðurs Pétri M. Jónassyni. Þemaheftið er 138 bls. og ríkulega myndskreytt. Ritstjóranum Álfheiði Ingadóttir til aðstoðar voru Hrefna Berglind Ingólfsdóttir og Sigmundur Einarsson.]
Heimildir
breyta- Jakob Benediktsson: Hið íslenzka fræðafélag 1912–1937, Kaupmannahöfn 1937.
- Ýmis rit félagsins.