Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar

Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar kom fyrst út árið 1772 á dönsku með titlinum Vice-Lavmand Eggert Olafsens og Land-Physici Biarne Povelsens Reise igiennem Island, foranstaltet af Videnskabernes Sælskab i Kiøbenhavn og beskreven af forbemeldte Eggert Olafsen. Hún var þýdd á þýsku 1774, frönsku 1802 og ensku 1805. Hún kom út löngu síðar á íslensku, eða 1943, í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. Hún var endurútgefin í veglegri útgáfu af Erni og Örlygi árið 1974. Bókin er gagnmerk heimild um landshætti og líf Íslendinga á 18. öld.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, sem höfðu nýlega lokið námi við Kaupmannahafnarháskóla, voru ráðnir til þess af Danska vísindafélaginu að ferðast um Ísland og skrifa ítarlega landfræðilega, jarðfræðileg og náttúrufræðilega lýsingu landsins. Þeir fóru í þessar ferðir sex sumur 1752 til 1757. Þeir voru búnir ýmsum tækjum frá vísindafélaginu, eins og hitamæli, jarðbor og efnum til efnafræðirannsókna. Árið 1760 var Bjarni skipaður landlæknir, en ferðabókin var þá ekki tilbúin til útgáfu. Eggert fékk styrk úr Árnasjóði til að ljúka verkinu og búa það undir prentun, sem hann vann að í Kaupmannahöfn frá 1760 til 1766. Hann drukknaði aðeins tveimur árum síðar í Breiðafirði. Íslenski prófessorinn Jón Eiríksson og norski sagnfræðingurinn Gerhard Schøning gengu endanlega frá textanum fyrir prentun, og Schøning ritaði formála.

Bókin var fyrst gefin út á dönsku 1772 í 2 bindum. Hún var nokkuð ríkulega myndskreytt miðað við þann tíma, með 51 myndablaði þar sem sumar myndirnar byggjast á frumteikningum Eggerts. Myndirnar eru flestar af náttúrufyrirbærum, steinum, hverum, fuglum og fiskum, auk nokkurra sem lýsa híbýlum fólks, klæðaburði og verkfærum. Í bókinni er farið réttsælis um landið og því lýst sýslu fyrir sýslu, fyrst Kjósarsýslu og svo vestur og norður fyrir land og hún endar í lok 2. bindis á Rangárvalla-, Árnes- og Gullbringusýslu. Í lok 2. bindis er listi yfir latnesk heiti jurtategunda á Íslandi eða Flora Islandica.

Tenglar

breyta