Ketilbjörn gamli Ketilsson var landnámsmaður sem kom til Íslands frá Noregi á skipi sem hét Elliði. Samkvæmt Sturlungu var hann frá Naumudal, sonur Æsu, systur Hákonar Grjótgarðssonar Hlaðajarls.

Í Landnámabók segir að Ketilbjörn hafi komið til landsins þegar land var víða byggt með sjó og lent skipi sínu, Elliða, í ósum þeirra áa sem síðan heita Elliðaár. Helga kona Ketilbjarnar var dóttir Þórðar skeggja, landnámsmanns á Skeggjastöðum í Mosfellssveit, og höfðu þau vetursetu hjá honum fyrsta veturinn. Um vorið hélt Ketilbjörn í könnunarleiðangur austur yfir Mosfellsheiði. Hann reisti sér skála þar sem síðan heitir Skálabrekka við Þingvallavatn og þegar hann hélt áfram austur er hann sagður hafa misst öxi sína í þá á sem síðan er kölluð Öxará. Landnáma segir frá því að Ketilbjörn og félagar hans veiddu nokkrar silungsreyðar í Þingvallavatni, en gleymdu þeim undir hlíðum þess fjalls sem síðan er kallað Reyðarbarmur og er suðvestast í Kálfstindum.

Ketilbjörn nam síðan Grímsnes allt, Laugardal og hluta af Biskupstungum. Hann bjó á Mosfelli í Grímsnesi og lifði nógu lengi til að fá viðurnefnið „gamli“. Í Landnámu segir að hann hafi verið svo auðugur að lausafé að hann hafi sagt sonum sínum að láta gera þvertré úr silfri í hof sem þeir létu smíða, en þegar þeir vildu það ekki hafi hann tekið silfrið og ekið því á tvem uxum með aðstoð þrælsins Haka og ambáttarinnar Bótar upp á Mosfell og grafið það þar, en síðan drepið þrælinn og ambáttina til að halda greftrunarstaðnum almennilega leindum, enda hefur silfur þetta aldrei fundist.

Ketilbjörn og Helga voru mjög kynsæl og áttu fjölda barna og á meðal afkomenda þeirra voru fyrstu menntamenn Íslendinga sem sögur fara af. Teitur sonur þeirra byggði fyrstur bæ í Skálholti. Hann var faðir Gissurar hvíta. Tveir tengdasynir þeirra fengu land hjá þeim, þeir Ásgeir Úlfsson, sem fékk Hlíðarlönd og bjó í Hlíð og Eilífur auðgi Önundarson, sem fékk Höfðalönd og bjó í Höfða.

Heimildir

breyta
  • „Ættbogi afburðarmanna. Lesbók Morgunblaðsins, 12. október 1996“.