John Rogers Searle (fæddur 31. júlí 1932) er Slusser-prófessor í heimspeki við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Hann er einkum kunnur fyrir framlag sitt í málspeki, hugspeki og í heimspekilegri orðræðu um meðvitundina, um einkenni á félagslegum veruleika og efnislegum veruleika og um verklega skynsemi. Hann hlaut Jean Nicod-verðlaunin árið 2000.

John Rogers Searle
John R. Searle
Persónulegar upplýsingar
Fæddur31. júlí 1932 (1932-07-31) (92 ára)
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 20. aldar,
Heimspeki 21. aldar
Skóli/hefðRökgreiningarheimspeki
Helstu ritverkSpeech Acts: An essay in the philosophy of language; Expression and Meaning; Intentionality: An essay in the philosophy of mind; Minds, Brains and Science; The Construction of Social Reality; Rationality in Action
Helstu kenningarSpeech Acts: An essay in the philosophy of language; Expression and Meaning; Intentionality: An essay in the philosophy of mind; Minds, Brains and Science; The Construction of Social Reality; Rationality in Action
Helstu viðfangsefnimálspeki, íbyggni, hugspeki, gervigreind, félagslegur raunveruleiki

Heimspeki

breyta

Málgjörðir

breyta

Searle hlaut fyrst eftirtekt fyrir framlag sitt til málspekinnar en hann fékkst einkum við málgjörðir. Hann byggði á kenningum J.L. Austins, Ludwigs Wittgenstein, P.F. Strawsons og H.P. Grice. Searle reyndi að sameina atriði úr heimspeki þessara forvera sinna í bók sinni Speech Acts (1969). Megin innblásturinn var fenginn úr verki Austins How To Do Things with Words.

Í Speech Acts setur Searle fram nákvæma greiningu á loforðum, sem hann álítur vera fyrirmyndardæmi um talfólgna athöfn, og ýmsum öðrum merkingarfræðilegum reglum, sem eiga að gefa hugboð um fleiri tegundir talfólginna athafna.

Searle styðst í bókinni meðal annars við greinarmuninn á ‚talfólgnum mætti‘ og ‚staðhæfingarinntaki‘. Hann skilgreinir hvorugt hugtakið en kynnir þau til sögunnar með dæmum. Searle heldur því fram[1] að eftirfarandi setningar hafi allar sama staðhæfingarinntakið:

  1. Sam reykir að staðaldri.
  2. Reykir Sam að staðaldri?
  3. Sam, reyktu að staðaldri!
  4. Óskandi væri að Sam myndi reykja að staðaldri!

Í öllum setningunum er staðhæfingarinntakið Sam reykjandi, en þær hafa ólíkan talfólginn mátt (fullyrðing, spurning, skipun og ósk).

Í yngra riti sínu Intentionality (1983), þar sem nálgunin er í sumum grundvallaratriðum frábrugðin nálgun hans í Speech Acts, segir Searle að talfólgin athöfn einkennist af því að hafa uppfyllingarkjör og stefnumið (hugtak sem Searle fær að láni frá G.E.M. Anscombe). Uppfyllingarkjör eru þau skilyrði sem uppfylla þarf til þess að talfólgin athöfn nái marki sínu. Til dæmis er fullyrðingin „Jón keypti tvö súkkulaðistykki“ uppfyllt ef og aðeins ef hún er sönn (í því tilviki kallast uppfyllingarkjörin sannkjör). Aftur á móti er skipunin „Jón, kauptu tvö súkkulaðistykki!“ uppfyllt ef og aðeins ef Jón gegnir og kaupir tvö súkkulaðistykki. Searle segir að í fyrra tilvikinu sé stefnumiðið „frá orði til heimsins“ af því að orðin eiga að falla að því hvernig heimurinn er; en í síðara tilvikinu er stefnumiðið öfugt, þ.e. „frá heimi til orðs“, af því að heimurinn á að taka mið af orðunum og passa við þau. (Einnig er til gagnkvæmt stefnumið og hlutlaust stefnumið.)

Íbyggni og bakgrunnurinn

breyta

Í Intentionality: An Essay in the Philosophy of Mind (1983) freistar Searle þess að beita málgjörðarkenningu sinni í rannsókn á íbyggni, þ.e. tengslunum milli hugar og heims eða merkingar og merkingarmiðs. Í ákveðnum skilningi byggist greinargerð Searles á yfirfærslu tiltekinna einkenna sem hann hafði áður eignað málgjörður yfir á íbyggin viðhorf. Til dæmis er sú skoðun að Jón eigi tvö súkkulaðistykki íbyggið viðhorf sem felst í því að hafa staðhæfingarinntakið fyrir satt. Uppfyllingakjör skoðana eru sannkjör, þ.e. skoðunin er uppfullt ef hún er sönn og stefnumið þeirra eru frá huga til heims.

Searle kynnir einnig til sögunnar hugmynd sína um bakgrunninn,[2] sem hann segir að hafi leitt til mikillar heimspekilegrar umræðu (Searle segir[3] „Enda þótt ég hafi fært rök fyrir þessari kenningu í næstum tuttugu ár er samt margt fólk sem ég met mikils ósammála mér um hana.“) Það sem Searle kallar bakgrunninn er ákveðin geta og tilhneigingar sem fólk hefur en sem eru ekki íbyggið ástand. Stundum bætir Searle við hugmyndinni um netið, sem er net annarra skoðana manns, langana, ótta og svo framvegis sem eru nauðsynleg til þess að eitthvert vit fáist í eitthvert tiltekið íbyggið viðhorf.

Svo dæmi sé tekið getum við ímyndað okkur tvo skákmenn sem etja kappi á skákborðinu, en þeir eiga sameiginlegar ýmsar bakgrunnsályktanir: að þeir muni skiptast á að leika, að enginn annar muni skipta sér af, að þeir fari báðir eftir sömu reglunum, að brunabjallan muni ekki hringja, að skákborðið muni ekki skyndilega gufa upp, að mótherjinn muni ekki skyndilega breytast í greipaldin og þar fram eftir götunum. Flest af þessu hvarflar ekki að þeim og því heldur Searle[4] að bakgrunnurinn hljóti að vera ómeðvitaður þótt beina megi athyglinni að ákveðnum atriðum (til dæmis ef brunabjallan fer í gagn).

Meðvitund

breyta

Searle setti fram hugspekikenningu sína í bókinni The rediscovery of the Mind (1992) á grunni kenningar sinnar um íbyggni. Hann heldur því fram að frá því að atferlishyggjan kom fyrst fram — hún var áhrifamikil innan vísindanna framan af en síðar leyst af hólmi af öðrum kenningum sem Searle hafnar einnig — hafi heimspekin gjarnan reynt árangurslaust að hafna tilvist meðvitundarinnar. Í Intentionality gerir hann grín að nokkrum kenningum um meðvitundina með því að skipta út hugtakinu „meðvitund“ í greinargerð þeirra og setja í staðinn hugtakið „hönd“:

Engum dytti til að mynda í hug að segja: „Að hafa hönd er bara að hafa tilhneigingu til að hegða sér á ákveðinn hátt til dæmis að grípa í eitthvað“ (atferlishyggja um hendur); eða „Skilgreina má hendur algerlega út frá orsökum þeirra og afleiðingum“ (verkhyggja um hendur); eða „Það að kerfi hafi hönd er einfaldlega fólgið í því að vera í ákveðnu tölvunarlegu ástandi með rétt inntak og úttak“ (Turing-vélarverkhyggja um hendur); eða „Að segja að kerfi hafi hendur er bara ákveðin afstaða til kerfisins“ (afstöðuhyggja um hendur). (bls. 263)

Searle leiðir rök að því að heimspekin hafi verið föst í svart-hvítri skekkju: að annars vegar sé heimurinn gerður úr engu nema hlutlægum eindum í orkusviði en að engu að síður sé meðvitundin klárlega huglæg fyrstu-persónu upplifun. Tvíhyggjumenn hafna fyrri fullyrðingunni en eðlisfræðiþekking okkar gerir að verkum að kenningar þeirra virðast æ ósennilegri svo að heimspekin, frá og með atferlishyggjunni, hefur hafnað seinni fullyrðingunni. En að hafna seinni fullyrðingunni hefur getið af sér endalaus vandræði og þar með til endalausrar endurskoðunar á atferlishyggjunni (og verkhyggjan er það afbrigði sem nú er í tísku).

Searle segir einfaldlega að báðar fullyrðingarnar séu sannar: meðvitundin er raunveruleg huglæg upplifun en er afleiðing efnislegra ferla í heilanum. (Hann leggur til að þessi kenning kallist líffræðileg náttúruhyggja.)

Helstu ritverk

breyta
  • Speech Acts: An essay in the philosophy of language, (1969)
  • The Campus War, (1971)
  • Expression and Meaning, (1979)
  • „Minds, Brains and Programs“, í The Behavioral and Brain Sciences. 3 (1980): 417-424.
  • Intentionality: An essay in the philosophy of mind, (1983)
  • Minds, Brains and Science, (1984)
  • The Rediscovery of the Mind, (1992) ISBN 0-262-69154-X
  • The Construction of Social Reality, (1995)
  • Mind, Language and Society, (1999)
  • Rationality in Action, MIT Press, (2001)
  • Mind, (2004)

Neðanmálsgrein

breyta
  1. Searle, 1969: 22
  2. Searle, Intentionality (1983); The Rediscovery of the Mind (1992) 8. kafli.
  3. Searle, „Literary Theory and Its Discontents“, New Literary History, 640
  4. Searle, The Rediscovery of the Mind (1992): 185.

Heimild

breyta

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta