John Leslie Mackie (19171981) var ástralskur heimspekingur, upprunnin frá Sydney. Hann er sennilega þekktastur fyrir viðhorf sín í siðspeki, einkum vörn sína fyrir siðfræðilegri efahyggju. Mackie fékkst einnig við trúarheimspeki og frumspeki.

Vestræn heimspeki
Heimspeki 20. aldar
J.L. Mackie
Nafn: John Leslie Mackie
Fæddur: 1917
Látinn: 1981
Skóli/hefð: rökgreiningarheimspeki
Helstu ritverk: Ethics: Inventing Right and Wrong
Helstu viðfangsefni: siðspeki, trúarheimspeki, frumspeki
Markverðar hugmyndir: siðfræðileg efahyggja, trúleysi
Áhrifavaldar: David Hume, John Anderson

Æviágrip

breyta

Mackie brautskráðist frá Háskólanum í Sidney árið 1938, þar sem hann nam heimspeki hjá John Anderson. Hann hlaut styrk til náms við Oriel College í Oxford á Englandi. Mackie gegndi herþjónustu á árum síðari heimsstyrjaldarinnar en að stríðinu loknu tók hann við stöðu lektors í siðfræði og stjórnmálaheimspeki við Háskólann í Sidney og gegndi hann þeirri stöðu frá 1946 til 1954. Árið 1955 varð hann prófessor í heimspeki við Háskólann í Otago í Dunedin á Nýja Sjálandi. Fjórum árum síðar tók hann við stöðu prófessors við Háskólann í Sidney en árið 1963 varð hann prófessor við Háskólann í York á Englandi. Hann gegndi þeirri stöðu í fjögur ár en var þá kjörinn félagi á University College í Oxford. Mackie var kjörinn félagi í Bresku akademíunni árið 1974.

Ein af dætrum Mackies, Penelope Mackie, varð einnig heimspekingur. Hún var lektor í heimspeki við Háskólann í Birmingham frá 1994 til 2004 en kennir nú við Háskólann í Nottingham.

Heimspeki

breyta

Mackie fékkst einkum við siðspeki, trúarheimspeki og frumspeki. Í siðspeki varði Mackie siðfræðilega efahyggju (sem má ekki rugla saman við siðfræðilega tómhyggju). Hann færði rök gegn hluthyggju um rétt og rangt.

Mackie var trúleysingi og hélt því fram að bölsvandinn gerði út af við helstu eingyðistrúarbrögðin. Hann færði enn fremur rök fyrir því að tilvist frjáls vilja væri engin afsökun fyrir tilvist illsku, böls og þjáningar enda hefði guð getað ljáð manninum bæði frjálsan vilja og siðferðilega fullkomnun, þannig að menn myndu velja það sem er gott í öllum tilvikum.

Í frumspeki fékkst Mackie einkum við hugmyndir um orsakavensl og skilyrðissetningar sem lýsa slíkum venslum.

Helstu rit Mackies

breyta
  • 1973, Truth, Probability, and Paradox
  • 1974, The Cement of the Universe: A Study of Causation
  • 1976, Problems from Locke
  • 1977, Ethics: Inventing Right and Wrong
  • 1980, Hume's Moral Theory
  • 1982, The Miracle of Theism: Arguments for and Against the Existence of God
  • 1985, Logic and Knowledge: Selected Papers, Volume I
  • 1985, Persons and Values: Selected Papers, Volume II