Jósef 2. keisari

(Endurbeint frá Jósef 2.)

Jósef 2. (13. mars 1741 – 20. febrúar 1790) var keisari hins Heilaga rómverska ríkis frá 1765 til 1790. Hann var elsti sonur keisaraynjunnar Maríu Teresu og eiginmanns hennar, Frans 1. keisara, og bróðir Maríu Antonettu Frakklandsdrottningar. Jósef var stuðningsmaður upplýsts einveldis og reyndi að koma á ýmsum umbótum í anda Upplýsingarinnar í Heilaga rómverska ríkinu. Sumar af þessum umbótum mættu harðri mótspyrnu meðal aðalsmanna og voru því aldrei framkvæmdar. Jósef er gjarnan talinn ásamt Katrínu miklu og Friðriki mikla sem einn af bestu einvöldum Upplýsingarinnar.[1] Jósef var einnig þekktur listunnandi og var meðal annars velgjörðamaður tónlistarmanna á borð við Wolfgang Amadeus Mozart.

Skjaldarmerki Habsburg-Lothringen-ætt Keisari Heilaga rómverska ríkisins
Habsburg-Lothringen-ætt
Jósef 2. keisari
Jósef 2.
Ríkisár 18. ágúst 176520. febrúar 1790
SkírnarnafnJosef Benedikt Anton Michel Adam
Fæddur13. mars 1741
 Schönbrunn-höll, Vín, Austurríki, Heilaga rómverska ríkinu
Dáinn20. febrúar 1790 (48 ára)
 Vín, Austurríki
GröfKeisaragrafhýsinu í Vín
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Frans 1.
Móðir María Teresa
KeisaraynjaÍsabella af Parma (g. 1760; d. 1763)
María Jósefa af Bæjaralandi (g. 1765; d. 1767)
BörnMaría Teresa
María Kristína

Æviágrip

breyta

Jósef ólst upp í fóstri hjá greifanum Johann Christoph von Bartenstein og varð snemma fyrir áhrifum af hugmyndum Upplýsingarinnar, sérstaklega í gegnum ritverk Voltaires. Árið 1761 varð Jósef meðlimur í ríkisráði keisaraveldisins og ritaði á þessum tíma pólitíska stefnuskrá sem einkenndist af hugmyndum sem hann átti eftir að reyna að hrinda í framkvæmd á keisaratíð sinni. Árið 1765 lést faðir Jósefs og Jósef varð þar með keisari. Hann varð um leið meðkonungur við hlið móður sinnar í austurrísku krúnulendunum, en þar til hún lést voru völd hans takmörkuð við utanríkis-, hernaðar- og réttarfarsmál.[2]

Vegna frjálslyndra skoðana sinna var Jósef oft á öndverðum meiði við móður sína. Hann rak sjálfstæða utanríkisstefnu og reyndi að auka samskipti við Prússland með því að eiga fundi með Friðriki mikla árin 1769-70. Þessi stefna hans leiddi til þess að hann tók þátt í skiptingu Póllands ásamt Prússlandi og Rússlandi andstætt óskum móður sinnar. Metnaður Jósefs til að innlima Bæjaraland leiddi til þess að bandalag hans við Prússland rann út í sandinn og til þess að bæverska erfðastríðið braust út milli ríkjanna eftir dauða Maximilians 1. Jósefs af Bæjaralandi.[2]

Eftir að María Teresa lést árið 1780 varð Jósef einn einvaldur Heilaga rómverska keisaraveldisins og hóf fljótt byltingarkenndar umbætur í anda upplýsts einveldis. Hann reyndi að koma á aukinni miðstýringu í ríkinu og nýtast við þýsku sem opinbert tungumál í her og stjórnsýslu þess. Jósef reyndi að uppræta lénsskipulagið í Heilaga rómverska ríkinu og aflétti bændaánauð í ríkinu árið 1785. Jósef lagði einnig nýja grunnskatta sem landeignaraðallinn þurfti einnig að greiða og reyndi að ýta undir innlendan iðnað með því að setja verndartolla á innflutningsvörur.[2]

Jósef skipti sér einnig af menningarmálum með umbótum sínum. Þann 13. október árið 1781 gaf Jósef mótmælendum og rétttrúnaðarmönnum innan veldisins trúfrelsi. Á sama tíma leysti hann upp öll klaustur og allar trúarreglur sem ekki ráku neitt velferðarstarf og þjóðnýtti eignir þeirra. Hann dró einnig úr ritskoðun á prentuðum miðlum og á leikritum og veitti Gyðingum aukin réttindi.[2]

Umbætur Jósefs vöktu óánægju og mættu harðri andstöðu meðal klerka, fursta og annarra þýskra aðalsmanna. Árið 1782 heimsótti páfinn Píus 6. Jósef og reyndi án árangurs að fá hann til að hægja á umbótum sínum.

Jósef tók þátt í stríði Rússlands og Tyrklands árin 1787–1792 við lítinn fögnuð þýskra aðalsmanna. Hann neyddist til að hætta umbótum sínum frá og með árinu 1790 vegna óeirða og uppreisna í Ungverjalandi og Niðurlöndum sem höfðu brotist út vegna áhrifa frönsku byltingarinnar. Jósef var fárveikur á þessum tíma.[2]

Jósef lést þann 20. febrúar 1790 eftir löng veikindi. Hann var á þessum tíma svartsýnn á framtíð ríkisins þar sem umbætur hans voru farnar að renna út í sandinn. Hann bað um að á legsteini sínum stæði: „Hér hvílir Jósef 2., sem mistókst allt sem hann tók sér fyrir hendur.“[3] Jósef átti enga syni og því tók yngri bróðir hans, Leópold, við krúnunni eftir dauða hans.

Tilvísanir

breyta
  1. Derek Beale, Joseph 21: Against the World, 1780–1790, Cambridge University Press, 2009
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Gunnar Carlquist (1933). Svensk uppslagsbok. Bd 14. Svensk Uppslagsbok AB. bls. 633-34.
  3. Norman Davies (1998). Europe a history. HarperPerennial.


Fyrirrennari:
Frans 1.
Keisari hins Heilaga rómverska ríkis
(18. ágúst 176520. febrúar 1790)
Eftirmaður:
Leópold 2.