Jón Thorstensen

(Endurbeint frá Jón Thorstenssen)

Jón Þorsteinsson Thorstensen (7. júní 179415. febrúar 1855) var íslenskur læknir sem var landlæknir frá 1820 til dauðadags og alþingismaður um tíma.

Jón var fæddur á Kúfustöðum í Svartárdal, sonur Þorsteins Steinþórssonar bónda þar og konu hans Margrétar Jónsdóttur. Hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla 1815, lærði læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist 2. júlí 1819 með hæstu einkunn. Hann var síðan kandídat á Friðriksspítala en fór heim til Íslands vorið eftir og hafði þá verið veitt landlæknisembættið og einnig embætti héraðslæknis í Borgarfjarðar-, Kjósar- og Gullbringusýslum. Oddur Hjaltalín hafði þá verið settur landlæknir frá 1816 en hann hafði ekki lokið embættisprófi.

Jón var konungkjörinn alþingismaður 1847 og 1849 og var þingmaður Reykvíkinga 1852 – 1855. Hann sat einnig í bæjarstjórn Reykjavíkur 1836 – 1842 og aftur 1840 – 1855. Honum var veitt jústítsráðsnafnbót 1842, var sæmdur heiðursdoktorstitli af háskólanum í Marburg 1847 og var félagi í mörgum erlendum lærdómsfélögum. Jón skrifaði einnig nokkur rit um sjúkdóma og lækningar. Hann sá um veðurathuganir í Reykjavík 1823 – 1854 fyrir danska vísindafélagið.

Jón bjó fyrst í Nesstofu en 1833 fékk hann leyfi til að flytja sig til Reykjavíkur og byggði hann þá hús sem síðan nefndist Doktorshúsið (nú Ránargata 13) og bjó þar síðan. Kona hans var Elín Stephensen (24. desember 1800 – 4. júní 1887), dóttir Stefáns Stephensen amtmanns.

Heimildir

breyta
  • Jón Thorstensen – Æviágrip þingmanna
  • „Um læknaskipun á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 11. árgangur 1890“.