Veðurathugun

(Endurbeint frá Veðurathuganir)

Veðurathugun er kerfisbundin mæling á ýmsum veðurþáttum á fyrirfram ákveðnum veðurathugunartímum, oftast framkvæmd á veðurathugunarstöð. Mannaðar veðurathuganir eru gerðar á þriggja klukkustunda fresti og veðurathugunarmaður mælir loftþrýsting, vindhraða, skyggni, þurran og votan hita, skráir skýjafar og veður og sjávarstöðu á þeim stöðvum sem liggja nærri sjó. Hámarks- og lágmarkshiti er mældur tvisvar á sólarhring. Einnig er úrkomumagn (og snjóhula ef snjór er á jörðu) mæld einu sinni til tvisvar á sólarhring. Sjálfvirkar veðurathuganir eru gerðar á sérhverri klukkustund, en skýjafar og veður er ekki skráð sjálfvirkt og ekki heldur úrkomumagn, snjóhula né sjávarstaða. Veðurstofa Íslands framkvæmir veðurathuganir á veðurathugunarstöðvum víða um land.

Veðurathugunartími

breyta

Miðað er við samræmdan alþjóðlegan tíma (UTC) og fyrir mannaðar veðurstöðvar eru eftirfarandi tímar notaðir: kl. 3, 6, 9, 12, 15, 18, 21 og 24 UTC. (Á Íslandi er veðurathugun stundum sleppt kl. 3 og kl. 6.) Sjálfvirkar veðurstöðvar senda út veðurskeyti á klukkustunda fresti og er þá miðað við heila tímann kl. 1, 2, 3 UTC o.s.frv. Veðurathugunarmaður skal hefja veðurathugun í fyrsta lagi 10 mínútur fyrir veðurathugunartíma og sendir veðurskeyti til Veðurstofu Íslands.