Ignatius Loyola

kaþólskur prestur og guðfræðingur
(Endurbeint frá Ignatíus Loyola)

Ignatius Loyola (baskneska: Ignazio Loiolakoa, spænska: Ignacio de Loyola; um 23. október, 149131. júlí, 1556) var spænskur riddari af baskneskum uppruna, einbúi, prestur frá 1537 og guðfræðingur sem stofnaði Jesúítaregluna og varð fyrsti yfirmaður hennar 19. apríl 1541.

Málverk eftir Peter Paul Rubens.

Loyola særðist í orrustunni um Pamplona í Ítalíustríðunum árið 1521 og gerðist trúaður í kjölfarið. Sagt er að bókin De Vita Christi eftir Ludolf von Sachsen hafi sannfært hann um að snúa baki við hermennsku og helga sig trúarlegu starfi á sama hátt og aðrir andlegir leiðtogar eins og Frans frá Assísí. Hann fékk sýn við helgidóm mærinnar frá Montsterrat í mars árið 1522 og fór þá til Manresa þar sem hann baðst fyrir í sjö tíma á dag, oft í nærliggjandi helli. Þar lagði hann grunninn að andlegum æfingum, Exercitia spiritualia, sem urðu síðar grundvöllur fyrir þjálfun nýliða í Jesúítareglunni. Í september árið 1523 kom hann til Landsins helga og hugðist setjast þar að en var sendur aftur til Evrópu af fransiskumunkum.

Frá 1524 til 1527 lagði hann stund á guðfræði við Háskólann í Alcalá. Árið 1534 kom hann til Parísar á tíma þegar uppþot og árásir á mótmælendur stóðu sem hæst. Þar tóku Loyola og nokkrir vinir hans eiða um að lifa við fátækt, hreinlífi og hlýðni. Árið 1539 mynduðu þeir reglu Jesú Krists sem Páll 3. páfi samþykkti árið eftir. Andlegu æfingarnar fengu viðurkenningu árið 1548. Loyola samdi einnig stofnskrá reglunnar. Hann lést árið 1556. Árið 1609 var hann lýstur sæll af Páli 5. og tekinn í heilagra manna tölu af Gregoríusi 15. árið 1622. Messudagur hans er 31. júlí. Hann er verndardýrlingur hermanna, Jesúítareglunnar, Baskalands og basknesku héraðanna Gipuzkoa og Bizkaia.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.