Hokusai

Japanskur myndlistarmaður (1760-1849)

Katsushika Hokusai, 葛飾北斎 á japönsku (1760 í Jedó í Japan1849), var japanskur myndlistarmaður frá Jedótímabilinu, fæddur í Jedó (sem nú heitir Tókýó). Hann gerði skissubók í 15 bindum sem heitir Hokusai manga (frá 1814) og trégrafík, eða tréprent, sem heitir 36 sjónarhorn á Fuji (frá ca. 1823–1829), sem m.a. inniheldur verkið Stóru ölduna við Kanagawa. Hann er talinn vera einn af bestu Ukiyo-e listamönnunum. En ukiyo-e þýðir „myndir af fljótandi veröld“ (daglegt líf). Hokusai er einnig þekktur fyrir erótísku prentin sín í shunga-stíl. Fukujusō-myndaröð hans, sem er 12 mynda röð þar sem hold og ástríða er áberandi, er talin vera ein af þremur bestu shunga-verkunum. List hans hafði mikilvæg áhrif á marga impressjónista eins og Claude Monet.

Stóra aldan við Kanagawa eftir Katsushika Hokusai. Litur viðarútskurður, 25,4 × 38,1 cm (10 × 15 tommur); Metropolitan Museum of Art, New York

Hokusai fæddist í Edô (nú Tokyo) í níunda mánuði á 10. ári Horeki tímabilsins (október-nóvember, 1760) inn í myndlistarfjölskyldu. Faðir hans, Nakajima Issai, var speglagerðarmaður. Þegar Hokusai var átján ára og hafði æft sig sem tréútskurðarmaður, fór hann í læri á vinnustofu Katsugawa Shunsho, málara og hönnuð litprenta. Hokusai fylgdi þó ekki reglum meistara síns og var því að lokum rekinn árið 1785.

Á árunum 1796-1802 gerði hann líklega um 30.000 bókaskýringarmyndir og litprent. Hann fékk oft innblástur frá daglegu lífi í Japan, hefðum og sögusögnum. Árið 1824 gaf hann út bókina Ný form fyrir hönnun og hönnun hans hefur haft gífurleg áhrif, m.a. á Sashiko-munstrin. Dæmigerðustu tréprent og landslagsmyndir Hokusais voru gerðar á árunum 1830–1840.

Þrátt fyrir að Hokusai hafi prófað ýmsar stílgerðir, hélt hann sínum sérstæða stíl eftir það. Á tímabili bjó hann við fátækt, og þrátt fyrir að hann hljóti að hafa fengið einhverja peninga fyrir verk sín, var hann fátækur, og lýsti sjálfum sér, allt til dauðadags, sem bónda.

Hann var mjög metnaðargjarn allt til dauðadags, og sagði á banabeði sínu: „Ef Guð hefði gefið mér bara fimm ár í viðbót, hefði ég orðið frábær málari.“ Hann dó 10. maí 1849.

Eftir dauða hans var hluti af tréprenti hans sent til vesturlanda, og hafði ásamt verkum annarra ukiyo-e listamanna, áhrif á vestræna meistara eins og Vincent van Gogh og Paul Gauguin.

Katsushika Hokusai hefur notið meiri vinsælda í vestrænni menningu en í Japan. Mikið af verkum japanskra prentgerðarmanna voru flutt til Evrópu, einkum París á miðri 19. öld. Fólk safnaði þeim og myndirnar voru mjög vinsælar meðal impressjónista eins og Claude Monet, Edgar Degas og Henri de Toulouse-Lautrec, en í verkum þeirra má sjá sterk áhrif frá japanskri list.

Þekktasta verk hans er sennilega Stóra aldan við Kanagawa. Myndin er af stórri öldu sem er um það bil að fara að gleypa mennina og bátana, og það glittir í Fuji fjall í bakgrunni. Öldurnar í myndinni eru stundum ranglega kallaðar „tsunami“, en réttilega heita þær „okinami“.

Hokusai átti langan feril en hann gerði sín helstu verk eftir sextugt. Vinsælasta verk hans er ukiyo-e myndaserían 36 sjónarhorn á Fuji (富嶽三十六景 fugaku sanjūrokkei), sem hann gerði á árunum 1826–1833. Serían samanstendur af 46 myndum (10 þeirra var bætt við seinna), en hann gerði snilldarlegar myndir af næstum því hvaða myndefni sem var – blómum, fuglum og daglegu lífi.

Stærsta verk Hokusai er myndaröð í 15 bindum, sem heitir Hokusai manga (北斎漫画). Það eru bækur fullar af uppfinningasömum skissum, gefnar út árið 1814. Teikningarnar eru oft taldar fyrirrennari nútímamanga.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta