Yfirréttur
Yfirrétturinn á Íslandi var stofnaður með konungstilskipun árið 1563 og var frá 1593 æðsta dómstig á Íslandi. Áfram var heimilt að skjóta málum til konungs og, eftir 1732 til hæstaréttar Danmerkur.
Upphaflega var það hlutverk hirðstjóra að nefna 24 menn í yfirdóm þar til stiftamtmannsembætti á Íslandi var stofnað árið 1684. Stiftamtmaður skyldi skipa dómara í yfirrétti og vera í forsæti. Hann sat í Danmörku og frá árinu 1688 gegndi amtmaður alla jafna hlutverki hans. Í yfirréttardómum áttu að sitja helstu, bestu og skynsömustu menn landsins. Samkvæmt konungsbréfi 7. maí 1735 skyldu dómara fæstir vera 12 en 24 hið mesta og amtmaður að auki í forsæti. Ætlunin var, að sýslumenn yrðu dómsmenn. Með konungsbréfi 30. apríl 1777 var dómurum fækkað í sex.
Yfirrétturinn starfaði á Alþingi á Þingvöllum en 1799 og 1800 fór hann fram í Hólavallarskóla í Reykjavík, eins og önnur starfssemi Alþingis. Árið 1800 var landsyfirréttur stofnaður í Reykjavík og tók við hlutverki yfirréttar.
Saga
breytaÖrfá dæmi eru þekkt um starfssemi Yfirréttar frá 1563–1593 og ekki er öruggt að þau séu í raun til sanninda um virka starfssemi réttarins og heimildir um starf hans eru fáar fram á 18. öld. Einn dómur er varðveittur frá árinu 1690. Á 18. öld var rétturinn haldinn árlega, þó með undantekningum, og tók yfirleitt fyrir 1-5 mál.
Yfirrétturinn var áfrýjunardómstóll þangað sem hægt var að stefna lögmannsdómum úr lögréttu. Amtmaður gaf út stefnur til Yfirréttarins og varðveitti skjöl hans. Yfirrétturinn dæmdi bæði í opinberum málum eins og morðmálum en líka í einkamálum. Mörg helstu deilumál veraldlegra embættismanna á 18. öld komu fyrir Yfirréttinn í einhverri mynd, eins og deilur Odds Sigurðssonar við Pál Vídalín, Giljármál Bjarna Halldórssonar og Jóhanns Gottrups, embættismissi sýslumanna og afglöp þeirra í starfi, en einnig fræg glæpamál á borð við Sunnivumál.
Dómsmál Yfirréttarins eru misvel varðveitt en veita margs konar innsýn í daglegt líf á 18. öld og mál sem hafa fallið í gleymsku, eins og morðið á Guðmundi Guðmundssyni 1738 í Skagafjarðarsýslu og mál Sigmundar Þorvarðssonar í Húnavatnssýslu sem dæmdur var arflaus fyrir leti árið 1739.
Heimildir
breyta- https://ordabelgur.skjalasafn.is/kb/yfirretturinn-a-islandi/
- Björk Ingimundardóttir: „Yfirrétturinn, aðdragandi, stofnun og saga.“ Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl I 1690–1710. Björk Ingimundardóttir og Gísli Baldur Róbertsson sáu um útgáfuna. Reykjavík, 2011. Bls. 27–94.
- Saga hæstaréttar Geymt 28 september 2007 í Wayback Machine
- https://heimildir.is/heimild-manadarins-januar-2025/
- https://heimildir.is/heimild-manadarins-september-2024/
- Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl I-V. Reykjavík, 2011-2025.