Hildegard von Bingen

Þýsk abbadís af Benediktsreglu, tónskáld og rithöfundur (um 1098–1179)

Hildegard von Bingen (íslenska: Hildigerður frá Bingen) (16. september 109817. september 1179) var abbadís af Benediktsreglu, dulspekingur, rithöfundur og tónskáld frá Rínarlöndum í hinu Heilaga rómverska keisaradæmi. Hún þótti framúrskarandi predikari og skrifaði bækur sem fjalla um guðfræði, læknisfræði og lífeðlisfræði. Hún skildi eftir sig níu bækur, yfir hundrað bréf, 72 lög og 70 ljóð. Hún var einnig sterkur leiðtogi kvenþjóðarinnar til jafnréttis.

Hildegard von Bingen úr miðaldahandriti.

Ævisaga

breyta

Það er ekki alveg vitað hvenær Hildegard fæddist en ályktað er að hún hafi fæðst árið 1098. Hún fæddist inn í aðalsætt og var tíunda barn foreldra sinna. Frá því Hildegard var lítil sá hún ýmsar sýnir og varð fyrir opinberunum, hún átti einnig við ýmis veikindi að stríða. Foreldrar Hildegard, Hildebert og Mechthilde, gáfu hana unga að aldri, líklegast átta ára, í klaustur í Rínarlöndunum þar sem hún fékk handleiðslu nunnu sem hét Jutta. Í klaustrinu lærði Hildegard að lesa, skrifa og syngja á latínu. Þær lásu einnig saman úr Biblíukvæðum og sálmum, hugleiddu, fóru með bænir og unnu handavinnu. Á þessum tíma er talið að Hildegard hafi lært að spila á saltara. Þá fékk Hildegard oft heimsókn frá Volmar, sem hugsanlega kenndi henni einfalda nótnaskrift sem varð til þess að Hildegard leiddist áfram í nótnaskrifum og fór að semja sjálf.

Þegar Jutta lést bað Abbot Kuno, ábótinn af Disibondenberg, Hildegard að gerast abbadís. Hildegard vildi hinsvegar meiri sjálfstæði fyrir sig og nunnurnar og spurði Abbot Kuno hvort þær mættu flytja til Rupertsberg, ætlunin var að koma upp nunnuklaustri. Ábótinn neitaði því en þá fór Hildegard til erkibiskupsins, Henrys I af Mainz, og fékk samþykki frá honum. Þegar átti svo að flytja nunnurnar varð Hildegard svo veik að hún var rúmliggjandi og gat ekki hreyft sig. Ábótinn ákvað þá að vera samvinnuþýður og hjálpaði nunnunum að flytja og færði þeim þeirra eigin klaustur í Rupertsberg. Hildegard ásamt tuttugu nunnum fluttu til Sankti Rupertsberg klaustursins árið 1150, Volmar varð forstöðumaður klaustursins ásamt ritari Hildegard. Árið 1165 stofnaði Hildegard annað klaustur fyrir nunnurnar sínar í Eibingen.

Hildegard sagðist hafa fyrst séð óvenjulegar sýnir þegar hún var þriggja ára en fór ekki að skilja þær almennilega fyrr en um fimm ára aldur. Hún áttaði sig á því að þetta voru hæfileikar sem hún gat ekki útskýrt fyrir öðrum. Hildegard útskýrði að hún sá ljós guðs í gegnum skilningarvitin fimm: sjónina, bragðið, skynið, heyrnina og lyktina. Í fyrstu hikaði Hildegard við að deila sýnum hennar með öðrum, hún sagði bara Juttu frá sem síðan sagði Volmar frá, kennara Hildegard og ritara seinna meir.

Í gegnum lífið fékk Hildegard margar sýnir og árið 1141, þá 42 ára að aldri, fékk hún þá sýn að sögn frá guði að hún ætti að skrifa niður það sem hún sá og heyrði en þá var hún enn þá mjög hikandi að segja frá hæfileikum sínum. Með því að skrifa allt niður myndi hún öðlast traust almúganns.

Hildegard lést 17. september árið 1179, þá 81 ára. Þegar hún lá fyrir dauðanum sögðust nunnurnar hafa séð tvo ljósageisla koma ofan frá himninum og inn þar sem hún lá.

Helstu afrek

breyta
 
Stafróf Hildegard, Litterae ignotae

Eitt þekktasta verk Hildegard er siðaleikritið Ordo Virtutum og er talið að hún hafi samið það 1151. Siðaleikritið samastendur af einradda söng og sextán köflum af vel sömdu efni.

Í framhaldinu af Ordo Virtutum samdi Hildegard mikið af helgisöngvum, þeim var svo safnað saman í eitt verk kallað Symphonia armoniae celestium revelationum. Sinfónían inniheldur víxlsöng, sálma, keðjusöngva og svörun.

Tónlist Hildegard er einrödduð og helst sjaldan inn fyrir söngsvið hvers raddar. Það er hægt að sjá mjög sterkt samband á milli textans og lagsins en það var ekki algengt á þessum tíma. Lög hennar bjóða einnig upp á margs konar túlkunnarmöguleika.

Í framhaldi af tónlistinni skrifaði Hildegard þar að auki þrjár bækur um yfirnáttúrulegar sýnir. Fyrsta bókin heitir Scivias og lauk hún henni árið 1151. Bækurnar Liber Vitae meritorum og De operatione Dei komu þar í kjölfarið, seinustu bókinni lauk hún þá 75 ára að aldri. Í bókunum byrjar hún á því að segja frá sínum sýnum og skrifar svo um biblíuskýringuna á þeim. Bækurnar voru samþykktar af páfanum og voru mjög vinsælar í kjölfarið, þær voru svo prentaðar í París árið 1513 vegna mikillra vinsælda á miðöldum.

Ásamt því að skrifa bækur um sýnir skrifaði Hildegard einnig texta um lækningarmátt náttúrunnar, sem ber nafnið Causae et Curae. Í textanum lýsir Hilegard náttúrunni í kringum hana, þar á meðal alheiminum, dýrunum, plöntunum, steinunum og steinefnunum. Hún sagði að „allir hlutir sem settir eru á jörðina eru fyrir mennina“. Hildegard var mjög áhugasöm um náttúruvernd og var mjög vel þekkt fyrir lækningarmáttinn hennar þar sem hún notaðist við ýmsar jurtir, tinktúrur og eðalsteina. Eitt dæmið um lækningarmátt hennar var þegar hún gaf blindum manni sjón með því að nota Rínarvatnið.

Hildegard útbjó einnig til stafróf sem hún notaði við skrif sín á latínu, kallað Litterae Ignota, þetta var hennar nútímalega latína. Stafrófið hennar hafði marga kosti yfir það stafróf sem var í notagildi þá og það var hægt að mynda orðin mun betur en áður. Hildegard notaði einnig stafrófið til að mynda samstöðu innan nunnuklaustursins.

Öll skrif Hildegard, tónverk, bækur og textar eru hýst í handritageymslu í Riesenkodex.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta
  • „Hver var Hildigard von Bingen og fyrir hvað var hún þekkt?“. Vísindavefurinn.
  • „Hildigerður frá Bingen“; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1999