Hentifáni
Hentifáni er fáni þess ríkis þar sem skip er skráð þegar það er annað en heimaland eigenda skipsins. Skip sem skráð eru í öðru landi en skipafélagið sem á þau eru þannig sögð sigla undir hentifána. Þetta getur stafað af því að ólíkar reglur gilda milli landa um skipaskráningu, eftirlit, mönnun, lögsóknir og fleira. Að skrá skip undir hentifána er þannig oftast liður í því að draga úr kostnaði en getur líka auðveldað eigendum skipa að komast hjá lögsóknum, til dæmis vegna ólöglegra veiða. Skráning undir hentifána hófst í stórum stíl í Bandaríkjunum á millistríðsárunum þegar skipafélög tóku að skrá skip í Panama vegna hertra reglna og hærri launa áhafnarmeðlima innanlands.
Þetta fyrirkomulag er oft gagnrýnt af verkalýðsfélögum sjómanna á þeim forsendum að með þessu séu skipafélög að koma sér hjá því að uppfylla lágmarkskröfur um laun og aðbúnað sjómanna. Vegna þessa var Parísarsamkomulagið um hafnarríkiseftirlit gert af nokkrum Evrópuríkjum árið 1982 sem felur í sér sérstakt eftirlit með skipum frá tilteknum ríkjum. Svipaðir samningar hafa verið gerðir í Asíu. Bandaríska strandgæslan hefur svipaðan lista yfir ríki sem sæta sérstöku eftirliti. Árið 2014 voru 14 hentifánaríki undirseld eftirliti samkvæmt þessum samningum: Antígva og Barbúda, Belís, Bólivía, Kambódía, Kómoreyjar, Kýpur, Hondúras, Norður-Kórea, Malta, Moldóva, Mongólía, Panama, Sankti Vinsent og Grenadíneyjar og Vanúatú. Flest hentifánaskip voru árið 2009 skráð í Panama og Líberíu.