Hefei

höfuðborg og fjölmennasta borg Anhui héraðs í Kína

Hefei (kínverska: 合肥; rómönskun: Héféi; Ho-fei), er höfuðborg og fjölmennasta borg Anhui héraðs í Alþýðulýðveldinu Kína. Hún er stjórnsýslu-, efnahags- og menningarmiðstöð héraðsins. Borgin er staðsett norður af Chaohu vatni, við norðausturrætur Dabie-fjalla, sem mynda skil á milli fljótanna Huai og Jangtse. Hefei, sem er þekkt sem borg vísinda, fræða og nýsköpunar, hefur vaxið gríðarlega og er í dag þróuð og blómleg borg.

Mynd af skrifstofubyggingum við Svanavatn í Hefei borg.
Skýjakljúfar við Svanavatn í Hefei borg. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Hefei um 9,4 milljónir manna.
Staðsetning Hefei borgar í Anhui héraði í Kína.
Staðsetning Hefei borgar í Anhui héraði í Kína.
Mynd af Musteri Chenghuangshen í Hefei. Chenghuangshen er samkvæmt kínverskri þjóðtrú bæjar-eða borgarguð. Slík musteri eru víða í borgum Kína.
Musteri Chenghuangshen í Hefei. Í kínverskri þjóðtrú er Chenghuangshen bæjar-eða borgarguð. Slík musteri eru víða í borgum Kína.

Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Hefei 5.056.000 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 9.369.881.

Staðsetning breyta

Hefei borg er staðsett í miðhluta Anhui héraðs og liggur að Huainan borg í norðri, Chuzhou í norðaustri, Wuhu í suðaustri, Tongling í suðri, Anqing í suðvestri og Lu'an í vestri.

Heildarflatarmál borgarinnar er 11,445 ferkílómetrar.

Borgin er staðsett norður af hinu víðáttumikla bláa Chaohu vatni („Fuglahreiðravatn“). Borgin stendur á láglendi við norðausturrætur Dabie-fjalla, sem mynda skil á milli fljótanna Huai og Jangtse. Huai rennur til norðurs við borgina og sunnan við hana er Jangtse fljót.

Frá Hefei eru greiðar vatnsflutningar um Chaohu vatn að Jangtse á móti Wuhu borg. Mikilvægar landleiðir liggja um Hefei frá Pukou í Nanjing höfuðborg Jiangsu til Xian borgar í Shaanxi héraði og til borganna Xuzhou, í Jiangsu héraði, Bengbu, Anqing í Anhui héraði.

Saga breyta

 
Við Svanavatn í Hefei borg.
 
Xiaoyaojin garðurinn í Hefei borg.
 
Mingjiao hofið í Hefei borg.

Saga byggðar þar sem Hefei er nú, verður rakin allt til Nýsteinaldar. Leirmunir og aðrar fornleifar hafa fundist frá þeim tíma. Frá 8. til 6. öld f.Kr. var Hefei staður smáríkisins Shu, sem síðar varð hluti af Chu-konungsríkinu. Margar fornleifar hafa fundist frá því tímabili. Nafnið Hefei var fyrst gefið sýslu sem sett var upp á svæðinu á tímum Hanveldisins (206 f.Kr.— 220 e.Kr.). Á 4. til 6. öld e.Kr. var svæðið vígvöllur á milli ríkja í norðri og suðri, og því var nafni þess og stjórnunarstöðu oft breytt. Á tímum Suiveldisins (581–618) og Tangveldisins (618–907) varð það aðsetur Lu héraðs, nafn sem það hélt allt til 15. aldar, þegar staða þess styrktist og héraðið fékk nafnið Luzhou.

Núverandi borg á rætur frá tímum Songveldisins (960–1279). Fyrri byggð Hefei var nokkru lengra norður. Á 10. öld var það um tíma höfuðborg sjálfstæða Wu konungsríkisins (902–937) og var mikilvæg miðstöð Nan Tang ríkis (937–976). Frá 1127 varð svæðið varnarstöð Nan Songveldisins (1127–1279) gegn innrásaraðilum Jin (Juchen sem ættaðir voru frá Mansjúríu) sem og blómleg viðskiptamiðstöð ríkjanna tveggja. Á tímum Mingveldisins (1368–1644) og Tjingveldisins (1644–1912) var borgin þekkt um skeið (eftir 14. öld til 19. aldar) sem Luchow.

Hefei varð síðan tímabundin höfuðstaður Anhui á árunum frá 1853–1862. Þegar Kínverska lýðveldið var stofnað árið 1912 var yfirstjórn héraðsins breytt og svæðið endurnefnt sem Hefei-sýsla árið 1912.

Fyrir síðari heimsstyrjöldina var Hefei í meginatriðum stjórnsýslumiðstöð og svæðisbundinn markaður afurða af frjósamri sléttunni í suðri. Þar var söfnunarmiðstöð landbúnaðarafurða svo sem korns, bauna, bómullar og hamps. Þar var einnig handverksiðnaður á fatnaði, leðri, bambusvörum og járnbúnaði.

Mikilvægi svæðisins jókst með lagningu járnbrauta. Framkvæmdir þeirra fyrstu hófust árið 1912 með lagningu járnbrautar milli Tianjin borgar á austurströnd Norður-Kína, til Pukou í Nanjing borg við bakka Jangtse fljóts. Á fjórðra áratugnum var síðan lögð járnbraut sem tengdi Hefei borg við kolahafnar Yuxikou á Jangtse fljóti við borgina Wuhu.

Í kjölfar sigurs Kínverja seinna stríði þeirra við Japan (1937–1945) var Hefei gerð að höfuðborg héraðsins Anhui.

Eftir stríðið óx borgin í öfluga iðnaðarborg. Þegar Hefei varð höfuðborg Anhui héraðs árið 1952 voru skipulagðir miklir fólksflutningar til hennar frá öðrum landshlutum. Vísindi og menntir voru efldar og innviðir byggðir upp. Enn þann dag í dag er borgin í miklum vexti.

Árið 2005 réðst borgin í fegrunarátak þar sem þúsundir ólöglega byggðra mannvirkja voru rifin og gamalgróin markaðstorg víða um borgina voru fjarlægð. Breytti það ásýnd borgarinnar mikið.

Efnahagur breyta

Fyrir síðari heimsstyrjöldina var Hefei borg í meginatriðum stjórnsýslumiðstöð og svæðisbundinn markaður fyrir landbúnaðarafurðir af frjósamri sléttunni í suðri.

Eftir stríðið breyttist borgin í öfluga iðnaðarborg. Bómullarverksmiðja var opnuð árið 1958 og stór varmaaflsvirkjun sem keyrð er með kolum frá Huainan, var stofnuð snemma á fimmta áratug síðustu aldar. Í borginni risu verksmiðjur sem framleiða iðnaðarefni og efnafræðilegan áburð. Í lok fimmta áratugar síðustu aldar var byggt járn- og stáliðjuver. Auk framleiðslu vélaverkfæra og landbúnaðartækja hefur borgin þróað verksmiðjur sem framleiða ál, rafeindatækni og margskonar ljósavörur.

Hefei borg hefur gengið í gegnum gríðarlegan vöxt innviða á undanförnum áratugum. Eftir stríðið var höfuðborg Anhui héraðs flutt frá Anqing borg til Hefei. Til að aðstoða við þróun og uppbyggingu borgarinnar voru margir hæfileikaríkir einstaklingar sendir frá öðrum landshlutum. Lögð var áhersla á uppbyggingu vísinda og mennta. Og á síðustu árum hefur verið ráðist í stórtækja uppbyggingu samgönguinnviða. Smáborg þriðja áratugar síðustu aldar er orðin að nútíma milljónaborg. Hefei er í dag talin vera ein sú borg Kína sem er í hvað mestum vexti.

Menntir og vísindi breyta

 
Kennslubygging og gamla bókasafnið við hinn virta Vísinda- og tækniháskóla Kína í Hefei borg.
 
Tækniháskóli Hefei borgar.
 
Þriðja rannsóknarbygging Storkufræðistofnunarinnar í Hefei borg.

Hefei er þekkt í Kína sem borg vísinda, fræða og nýsköpunar.

Borgin gegnir mikilvægu hlutverki í vísindarannsóknum í Kína. Borgin hefur sjö mikilvægar innlendar rannsóknarstofur, einungis Beijing fleiri: Þjóðarrannsóknastofnun á samhraðalsgeislun, Þjóðarrannsóknastofnun Hefeiborgar í smásærri eðlisfræði, sem báðar heyra undir Vísinda- og tækniháskóla Kína í Hefei borg.

Í borginni er einnig Storkufræðistofnunin, Stofnun um rafgasfræði, Vitvélastofnun, rannsóknarstofnun í segulaðgreining (með ofurleiðandi segli), Anhui stofnunin í ljóseðlisfræði og aflfræði agna, sem allar heyra Stofnun Hefei borgar í eðlisfræðivísindum sem er hluti af kínversku vísindaakademíunni.

Í borginni eru merk vísindverkefni á borð við þróun ofurleiðara. Þá var Hersjúkrahúsið í Hefei borg einn fyrsti staður til rannsókna á mönnum með CRISPR erfðatækni árið 2015.

Samgöngur breyta

 
Suður járnbrautarstöð Heifei borgar.
 
Dadongmen stöðin á línu tvö í snarlestarkerfi Heifei borgar.

Staðsetning Hefei sem höfuðborgar héraðsins gerir hana að náttúruleg samgöngustöð. Staðsetning hennar norður af Chao-vatni og við rætur Dabie-fjalla, sem skilja á milli Huai-fljóts og Jangtse fljóts. Frá borginni eru greiðar vatnsflutningar um vatnið að Jangtse við borgina Wuhu.

Viðamikið lestarkerfi tengir borgina við nærliggjandi borgir og héruð. Í broginni eru þrjár lestarstöðvar. Á síðustu tveimur áratugum hafa samgönguyfirvöld byggt upp háhraðalestarkerfi sem tengir borgina vel. Þannig er til dæmis háhraðalestin Beijing-Sjanghæ sem þýðir að hægt er að fara á milli Hefei og Beijing á innan við 4 klukkustundum.

Árið 2013 var tekinn í notkun Hefei Xinqiao alþjóðaflugvöllur sem leysti af hólmi Hefei Luogang flugvöllinn. Hann er staðsettur í norðvesturhluta borgarinnar. Auk innanlandsflugs eru meðal alþjóðlegra áfangastaða Singapúr, Taípei, Seúl, Frankfurt am Main og Bangkok.

Borgin hefur á síðustu árum verið að byggja upp viðamikið snarlestarkerfi. Fyrsta áfanga þess lauk í árslok 2016. Öðrum áfanga lauk í árslok 2017 með tengingu miðborgarinnar við Hefei Xinqiao alþjóðaflugvöllinn. Þriðji áfanginn (eða 3 línan) opnaði árslok 2019 og tengir hún meðal annars við háskólasvæði borgarinnar. Á áætlun er að byggja aðrar 12 snarlestarlínur til ársins 2030.

Tenglar breyta

Heimildir breyta

Tilvísanir breyta