Haukdælir voru ein helsta valdaætt landsins frá því á landnámsöld og fram undir lok 13. aldar. Þeir eru kenndir við Haukadal í Biskupstungum en komnir í beinan karllegg frá Ketilbirni gamla, landnámsmanni á Mosfelli í Grímsnesi. Teitur sonur hans er sagður hafa byggt fyrstur bæ í Skálholti. Sonur hans var Gissur hvíti Teitsson, sem kom mikið við sögu kristnitökunnar og var faðir Ísleifs Gissurarsonar, fyrsta biskupsins í Skálholti. Einn þriggja sona Ísleifs var Gissur Ísleifsson biskup en annar var Teitur prestur í Haukadal, fósturfaðir Ara fróða, og hann er talinn ættfaðir Haukdæla. Hallur, sonur Teits, átti að verða biskup í Skálholti en andaðist í Hollandi á heimleið frá Róm árið 1150. Hann átti einn son, Gissur Hallsson stallara Sigurðar konungs munns og síðar lögsögumann og fræðimann í Haukadal. Gissur átti fjölda barna, þar á meðal Magnús biskup, Hall ábóta á Helgafelli, Þuríði móður Kolbeins Tumasonar og Þorvald Gissurarson í Hruna (d. 1235), föður Gissurar Þorvaldssonar sem er þekktastur allra Haukdæla og varð jarl yfir öllu Íslandi.

Haukadalur séð frá Laugarfjalli árið 2014.

Ekki er fullvíst hvenær Haukdælir höfðu náð öllum völdum í Árnesþingi en það hefur verið á 11. öld eða snemma á 12. öld og samsvaraði valdasvæði þeirra nokkurn veginn Árnessýslu eins og hún er nú. Á Sturlungaöld voru þeir ein af fáum áberandi valdaættum í landinu og voru lengst af í bandalagi við Ásbirninga gegn Sturlungum.