Hamarsfjörður er grunnur fjörður eða lón á Austurlandi milli Melrakkness og Búlandsness. Fyrir sunnan fjörðinn er Álftafjörður en Berufjörður að austan. Fyrir utan Álftafjörð og Hamarsfjörð liggur sandrif og lokar það fjörðunum. Inn af firðinum liggur Hamarsdalur, og í fjörðinn rennur Hamarsá.

Hamarsfjörður.

Sögufrægir staðir í Hamarsfirði

breyta

Bragðavellir er bær í Hamarsfirði í Djúpavogshreppi. Þar fannst elsti peningur sem fundist hefur á Íslandi en það er rómverskur koparpeningur sem sleginn var í borginni Cyzicus í Litlu-Asíu á árunum 270-75 e. Kr. Hann fannst í húsarústum á Bragðavöllum í Hamarsfirði árið 1933 en 1905 hafði fundist þar annar rómverskur peningur, lítillega yngri, frá 276-82 e. Kr., sem sleginn var í Róm. Í hvorugt skiptið var gerð nein fornleifarannsókn á staðnum þannig að erfitt er að segja mikið um af hverju þessir peningar lágu þarna. Af öðrum gripum sem fundust á Bragðavöllum má þó ætla að rústirnar séu miklu yngri en peningarnir, frá víkingaöld eða síðar. Fræðimönnum hefur orðið mjög tíðrætt um þessa peninga og hefur verið stungið upp á að þeir sýni að Rómverjar hafi komið hingað, að peningarnir hafi komið með Pöpum eða að þeir hafi komið með norrænum mönnum á víkingaöld.

Djáknadys er steinhrúga rétt neðan við þjóðveginn í Hamarsfirði. Sagt er að Djákninn á Hamri og presturinn á Hálsi hafi hist þar og ósætti komið upp milli þeirra sem endaði með því að þeir drápu hvorn annan. Þeir eiga að vera dysjaðir þar og þeir sem aka þar framhjá í fyrsta skipti eiga að henda steini í dysina til þess að ferðalagið verði óhappalaust.

Valtýskambur er steinkambur í Hamarsfirði. Maður að nafni Valtýr var dæmdur til dauða fyrir sauðaþjófnað en fékk tækifæri til að bjarga lífi sínu með því að standa á haus fremst á Valtýskambi meðan á messutíma stóð. Það tókst honum og fékk að launum líf sitt.

Strýta er eyðibýli í Hamarsfirði. Þar fæddust listamennirnir Ríkarður Jónsson myndhöggvari og Finnur Jónsson listmálari. Safn Ríkarðs Jónssonar er til húsa í Löngubúð.

Tenglar

breyta