Langabúð
Langabúð er friðað hús og elsta húsið á Djúpavogi ásamt Verslunarstjórahúsinu og eru hvortveggja reist árið 1790. Bæði húsin standa á grunnum eldri húsa og eru staðsett þar sem verslunarstaður hefur verið frá árinu 1589, en þá hófu þýskir kaupmenn verslunarrekstur á Djúpavogi.

Langabúð var endurbætt eftir aldamót 2000 og henni fengið nýtt hlutverk sem hæfir sögu hennar og mikilvægi fyrir staðinn. Í norðurenda hússins er sýning um líf og starf Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og myndskera. Um miðbik hússins er minningarstofa um Eystein Jónsson stjórnmálamann frá Djúpavogi og konu hans; Sólveigu Eyjólfsdóttur. Kvennasmiðjan á Djúpavogi sér um rekstur Löngubúðar auk kaffistofu í suðurenda hússins. Á Löngubúðarloftinu hefur nú verið komið fyrir minjasafni.