Guðrún Helgadóttir

íslenskur rithöfundur og stjórnmálamaður (1935-2022)

Guðrún Helgadóttir (fædd 7. september 1935, látin 23. mars 2022) var íslenskur rithöfundur og stjórnmálamaður.

Guðrún var einn virtasti barnabókahöfundur Íslands[1] frá því að hún gaf út sína fyrstu bók um prakkarana Jón Odd og Jón Bjarna árið 1974.

Hún sat á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið frá 1979-1995 og var forseti Alþingis 1988-1991, fyrst kvenna til að gegna því embætti í sameinuðu þingi.

Æviágrip

breyta

Guðrún fæddist í Hafnarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955. Hún giftist Hauki Jóhannssyni, verkfræðingi í júní 1957, þau eignuðust soninn Hörð það ár en skildu 1959. Hún starfaði sem ritari rektors í MR í áratug (1957-1967) og giftist Sverri Hólmarssyni kennara 1964, þau eignuðust saman þrjú börn en skildu 1983.

Guðrún vann sem deildarstjóri félagsmála- og upplýsingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins 1973-1980. Hún sat í stjórn BSRB 1972-1978, var borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Reykjavík 1978-1982 og ritari þess 1977-1983. Hún var kosin alþingismaður Alþýðubandalagsins frá 1979-1995. Hún var forseti sameinaðs Alþingis 1988-1991 og var fulltrúi í Norðurlandaráði 1983-1988.

Guðrún skrifaði fjölmargar bækur, aðallega ætlaðar börnum og unglingum, og náðu margar þeirra miklum vinsældum á Íslandi.[2] Fyrsta bók hennar snerist um uppátækjasömu tvíburana Jón Odd og Jón Bjarna. Bækurnar um tvíburana urðu þrjár talsins og árið 1981 kom kvikmyndin Jón Oddur og Jón Bjarni út í leikstjórn Þráins Bertelssonar.

Ritstíll Guðrúnar þykir einkennast af virðingu fyrir ungum lesendum sínum ásamt því að sýna spaugilegar hliðar á flestum málum.[1] Bækur hennar þykja bera með sér góðan boðskap.

Margar bækur hennar hafa verið þýddar á erlend tungumál og hafa hlotið góða dóma.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur nefnt að Guðrún sé hin íslenska Astrid Lindgren og Tove Jansson, bækur hennar séu „með boðskap en líka fullar af lífi og fjöri“.[3]

Barnabækur

breyta
  • Þríleikurinn Jón Oddur og Jón Bjarni:
    • 1974 – Jón Oddur og Jón Bjarni
    • 1975 – Meira af Jóni Oddi og Jóni Bjarna
    • 1980 – Enn af Jóni Oddi og Jóni Bjarna
  • 1976 – Í afahúsi
  • 1977 – Páll Vilhjálmsson
  • 1979 – Óvitar
  • Þríleikurinn Sitji guðs englar:
    • 1983 – Sitji guðs englar
    • 1986 – Saman í hring
    • 1987 – Sænginni yfir minni
  • 1990 – Undan illgresinu, hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin 1992
  • 1993 – Litlu greyin
  • Þríleikurinn Ekkert að þakka:
    • 1995 – Ekkert að þakka!
    • 1996 – Ekkert að marka!
    • 1998 – Aldrei að vita!
  • Þríleikurinn Öðruvisi dagar:
    • 2003 – Öðruvísi dagar
    • 2004 – Öðruvísi fjölskylda
    • 2006 – Öðruvísi saga
  • 2008 – Bara gaman
  • 2010 – Lítil saga um latan unga

Myndabækur

breyta
  • 1981 – Ástarsaga úr fjöllunum, myndskreytingar eftir Brian Pilkington
  • 1985 – Gunnhildur og Glói
  • 1990 – Nú heitir hann bara Pétur
  • 1992 – Velkominn heim Hannibal Hansson
  • 1997 – Englajól
  • 1999 – Handagúndavél og ekkert minna

Skáldsögur

breyta
  • 2000 – Oddaflug

Leikrit

breyta
  • 1979 – Óvitar
  • 1997 – Hjartans mál
  • 2001 – Skuggaleikur

Kvikmyndir eftir verkum hennar

breyta

Verðlaun og viðurkenningar

breyta
  • 1975 – Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir bókina Jón Oddur og Jón Bjarni
  • 1980 – Verðlaun úr Thorbjörn Egner sjóðnum fyrir bókina Óvitar
  • 1988 – Viðurkenning Barna og bóka Íslandsdeildar IBBY(en) fyrir bókina Sænginni yfir minni
  • 1991 - Stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu
  • 1992 – Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir bókina Undan illgresinu
  • 1993 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
  • 1994 – Barnabókaverðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur fyrir bókina Litlu greyin
  • 1999 – Viðurkenning Barna og bóka Íslandsdeildar IBBY
  • 2005 – Bókaverðlaun barnanna fyrir bókina Öðruvísi fjölskylda
  • 2005 – Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu
  • 2006 – Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana fyrir bókina Öðruvísi saga (sem besta íslenska barnabókin)
  • 2007 – Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur
  • 2015 – Menningarverðlaun DV, heiðursverðlaun
  • 2017 – Útnefning sem borgarlistamaður Reykjavíkurborgar, heiðursviðurkenning
  • 2018 – Sögusteinninn, heiðursverðlaun IBBY[3]

Tilnefningar

breyta
  • 1987 – Norrænu barnabókaverðlunin fyrir bækurnar Sitji guðs englar og Saman í hring
  • 1988 – H.C. Andersen verðlaunin(en)
  • 1985 – Norrænu barnabókaverðlunin fyrir bókina Sitji guðs englar
  • 1988 – Norrænu barnabókaverðlunin fyrir þríleikinn Sitji guðs englar
  • 1991 – Norrænu barnabókaverðlunin fyrir þríleikinn Sitji guðs englar
  • 2004 – Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Öðruvísi fjölskylda
  • 2005 – Astrid Lindgren verðlaunin(en) fyrir rithöfundaferil sinn

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Guðrún Helgadóttir borgarlistamaður“. 20. júní 2017. Afrit af upprunalegu geymt þann október 22, 2018. Sótt október 29, 2018.
  2. „Guðrún Helgadóttir“. Kvennabókmenntir.
  3. 3,0 3,1 Davíð Gunnarsson (22. apríl 2018). „Þú ert okkar Astrid Lindgren og Tove Jansson“. RÚV. Sótt 17. mars 2020.

Tenglar

breyta