Greta Thunberg
Greta Tintin Eleonora Ernman Thunberg (f. 3. janúar 2003) er sænskur aðgerðasinni sem hefur verið áberandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hún vakti athygli árið 2018 þegar hún settist fyrir framan ríkisþinghúsið í Stokkhólmi með skilti sem á stóð „Skólaverkfall fyrir loftslagið“. Frumkvæði hennar er fyrirmyndin að sams konar skólaverkföllum í þágu loftslagsaðgerða um allan heim sem fara fram undir nafninu Föstudagar fyrir framtíðina.
Greta Thunberg | |
---|---|
Fædd | 3. janúar 2003 |
Þjóðerni | Sænsk |
Störf | Nemandi, aðgerðasinni |
Þekkt fyrir | Skólaverkföll gegn loftslagsbreytingum |
Foreldrar | Malena Ernman & Svante Thunberg |
Undirskrift | |
Fjölskylda og æviágrip
breytaGreta Thunberg gengur í skóla í Bergshamra-hverfinu í Solna á útjaðri Stokkhólmsborgar.[2] Hún er dóttir listamannanna Svante Thunberg og Malenu Ernman[3] og sonardóttir leikaranna Olofs Thunberg og Monu Andersson. Einn forfeðra hennar í föðurætt var Svante Arrhenius, sem reiknaði fyrstur manna út árið 1896 hvernig hækkandi styrkur koltvísýrings í andrúmslofti myndi leiða til hækkandi meðalhitastigs á jörðinni.[1] Greta Thunberg er greind með Aspergerheilkenni.[4]
Aðgerðastefna
breytaÞann 20. ágúst árið 2018 fór Thunberg í skólaverkfall, settist fyrir framan ríkisþinghúsið í Stokkhólmi með mótmælaskilti[5] og hélt verkfallinu þar áfram fram að þingkosningunum sem haldnar voru þann 9. september.[6] Eftir kosningarnar hefur hún aftur farið í skólaverkfall á hverjum föstudegi til þess að knýja sænsk stjórnvöld til þess að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins um niðurskurð í losun gróðurhúsalofttegunda.[5][7] Thunberg hefur tekið þátt í mótmælaaðgerðum í þágu loftslagsaðgerða víðs vegar um heiminn, meðal annars í mótmælasamkomunni Rise for Climat fyrir utan Evrópuþingið í Brussel, í mótmælagöngu í Helsinki[8] og í London.[9]
Greta Thunberg átti frumkvæði að samfélagsmiðlaherferðinni #jagstannarpåmarken (íslenska: „Ég stend á jörðinni“) sem berst fyrir niðurskurði í flugferðum og tilheyrandi loftmengun.[10] Þremur dögum eftir verkfall Thunbergs gaf hún út bókina Scener ur hjärtat ásamt foreldrum sínum. Í bókinni er meðal annars fjallað um greiningu Gretu Thunberg með Aspergerheilkenni og um aðgerðastefnu hennar í þágu náttúruverndar. Eftir útgáfu bókarinnar sögðust foreldrar hennar skilja ákvörðun hennar um skólaverkfallið og að þeim fyndist þau ekki geta neytt hana til að mæta í skóla út af málinu.[11]
Áframhaldandi loftslagsverkföll Thunbergs á föstudögum hafa verið boðuð á samfélagsmiðlum með myllumerkjunum #FridaysforFuture,[12] #Klimatstrejka, #ClimateStrike, eða Föstudagar fyrir framtíðina á íslensku. Í lok september höfðu aðgerðir Thunbergs vakið athygli bæði fjölmiðla í ýmsum löndum og áhrifamanna á borð við António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og bandaríska stjórnmálamannsins og leikarans Arnolds Schwarzenegger.[13]
Thunberg ferðaðist með lest til Katowice í Póllandi í desember 2018 til að ávarpa loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Í janúar 2019 fór hún til Davos til þess að ávarpa Heimsviðskiptaráðstefnuna um loftslagsmál.[1] Í stað þess að fljúga þangað líkt og flestir aðrir ráðstefnugestir lagði hún á sig 32 klukkustunda lestarferð.[14]
Árið 2019 sigldi Thunberg á umhverfisvænni keppnisskútu yfir Atlantshafið frá Bretlandi til New York til að sækja tvær loftslagsráðstefnur í Bandaríkjunum og í Síle.[15] Í New York leiddi hún mótmælafund gegn aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum fyrir utan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna þann 31. ágúst.[16] Thunberg var gestur á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í borginni þann 23. september og ávítaði þar þjóðarleiðtoga heimsins fyrir að bregðast kynslóð hennar með aðgerðaleysi sínu.[17]
Greta Thunberg sneri aftur til náms í Svíþjóð þann 25. ágúst 2020.[18]
Thunberg var handtekin af þýskri lögreglu þann 17. janúar 2023 við þorpið Lützerath í Rínarlandi-Pfalz. Hún var þar stödd ásamt þúsundum mótmælenda sem höfðu komið sér fyrir í byggingum sem átti að rífa til þess að láta stækka brúnkolanámu þar í grenndinni.[19]
Viðurkenningar og tilnefningar
breytaThunberg var einn af þremur sigurvegurum í greinakeppni ungmenna um loftslagsmál í Sænska dagblaðinu í maí árið 2018.[20]
Í nóvember árið 2018 hlaut Thunberg styrk frá félagsmiðstöðinni Fryshuset í Stokkhólmi sem „besta unga fyrirmyndin“.[21] Í desember árið 2018 taldi bandaríska tímaritið Time Thunberg meðal 25 áhrifamestu táninga í heimi.[22]
Alþjóðlegi náttúruverndarsjóðurinn útnefndi Thunberg ásamt tveimur öðrum til verðlaunanna „náttúruverndarhetja ársins“ í flokki ungmenna árið 2018.[23] Thunberg var einnig útnefnd til verðlauna orkufyrirtækisins Telge Energi fyrir börn og ungmenni sem berjast fyrir sjálfbærri þróun, en hún afþakkaði tilnefninguna þar sem verðlaunahafarnir áttu að fljúga á flugvélum til Stokkhólms.[24]
Þann 16. september sæmdu samtökin Amnesty International Gretu Thunberg (ásamt skólasamtökunum Fridays for Future) titlinum Samviskusendiherra samtakanna, sem er æðsta viðurkenning þeirra.[25]
Þann 29. október 2019 hlaut Thunberg umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs en hún ákvað að neita þeim viðtöku og afþakka um 6,4 milljóna króna verðlaunafé sem þeim fylgdi.[26] Hún sagði loftslagshreyfinguna ekki þurfa á verðlaunum að halda og hvatti Norðurlönd til að virkja fremur almenning og hvatti stjórnmálamenn til að „taka mark á fyrirliggjandi staðreyndum“ í umhverfisbaráttunni.[27]
Bandaríska tímaritið Time valdi Thunberg sem manneskju ársins fyrir árið 2019.[28]
Ritverk
breyta- Malena Ernman; Beata Ernman; Greta Thunberg; Svante Thunberg (2021) [2018]. Scener ur hjärtat [Húsið okkar brennur : baráttusaga Gretu og fjölskyldunnar]. Þýðing eftir Eyrúnu Eddu Hjörleifsdóttur. Mál og menning. ISBN 9789935292537.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Hver er Greta Thunberg?“. RÚV. 7. febrúar 2019. Sótt 21. febrúar 2019.
- ↑ Lenita Jällhage (22. september 2018). „"Jag tror jag lär mig mer här än i skolan"“ (sænska). lararnastidning.se. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ Masha Gessen (2. október 2018). „The Fifteen-Year-Old Climate Activist Who Is Demanding a New Kind of Politics“ (enska). The New Yorker. Sótt 4. nóvember 2019.
- ↑ Christner Olsson (20. maí 2015). „"Det har varit ett helvetiskt år"“ (sænska). Expressen. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ 5,0 5,1 Andreas Granath (4. nóvember 2018). „Gretas klimatprotest ger eko över världen“ (sænska). Göteborgs-Posten. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ David Crouch (1. september 2018). „The Swedish 15-year-old who's cutting class to fight the climate crisis“ (enska). The Guardian. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ „Greta Thunberg: "Vi kommer att fortsätta med skolstrejken"“. SVT Nyheter. 2018.
- ↑ David Wallace-Wells (24. október 2018). „Can a Carbon Tax Solve Climate Change? Well, No“ (enska). New York Media. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ „Gretas brandtal i London: "Det är dags att göra uppror"“. 31. október 2018. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ Beatrice Rindevall (7. mars 2018). „Att säga att vi befinner oss i en kris och samtidigt fortsätta flyga är inte trovärdigt“. effektmagasin.se. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ „En familj och planet i kris“ (sænska). Svenska Dagbladet. 28. ágúst 2018. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ Lina Rosengren (2. nóvember 2018). „Manifestationer runt om i världen till stöd för Greta Thunberg och klimatet - Aktuell Hållbarhet“. Aktuell Hållbarhet. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ Malin Roos (19. september 2018). „Så blev Greta, 15, flickan som hela världen pratar om: Ingen annan gör något“ (sænska). Expressen. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ Nina Larson (24. janúar 2019). „Time to 'get angry', teen climate activist says in Davos“ (enska). AFP. Sótt 21. febrúar 2019.
- ↑ Kolbeinn Tumi Daðason (28. ágúst 2019). „Greta Thunberg mætt til New York eftir tveggja vikna siglingu“. Vísir. Sótt 23. september 2019.
- ↑ Róbert Jóhannesson (31. ágúst 2019). „Thunberg mótmælti við höfuðstöðvar SÞ“. RÚV. Sótt 23. september 2019.
- ↑ Birgir Þór Harðarson (23. september 2019). „„Hvernig dirfist þið?"“. RÚV. Sótt 23. september 2019.
- ↑ „Greta Thunberg farin aftur í skólann“. mbl.is. 25. ágúst 2020. Sótt 13. september 2020.
- ↑ Oddur Þórðarson (17. janúar 2023). „Greta Thunberg handtekin í Þýskalandi“. RÚV. Sótt 23. janúar 2023.
- ↑ Greta Thunberg (30. maí 2018). „Vi vet – och vi kan göra något nu“ (sænska). SvD.se. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ Lina Rosengren (22. nóvember 2018). „Greta Thunberg blir Årets unga förebild“ (sænska). Aktuell Hållbarhet. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ „TIME's 25 Most Influential Teens of 2018“ (enska). Time. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ Erik Hansson (17. september 2018). „Här är de nominerade till Årets miljöhjälte 2018“ (sænska). Natursidan. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ Gustav Gelin (1. nóvember 2018). „Därför nobbar Greta Thunberg klimatpriset“ (sænska). ETC. Sótt 19. febrúar 2019.
- ↑ Jafet Máni Magnúsarson (16. september 2019). „„Jörðin þarfnast ekki björgunar"“. RÚV. Sótt 23. september 2019.
- ↑ „Greta Thunberg afþakkar umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs“. Kjarninn. 29. október 2019. Sótt 29. október 2019.
- ↑ Magnús Geir Eyjólfsson (29. október 2019). „Norðurlöndin hætti að gorta“. RÚV. Sótt 29. október 2019.
- ↑ Atli Ísleifsson (11. desember 2019). „Greta Thunberg er manneskja ársins“. Vísir. Sótt 12. desember 2019.