George S. Patton

Bandarískur hershöfðingi (1885-1945)
(Endurbeint frá George Patton)

George Smith Patton yngri (11. nóvember 1885 – 21. desember 1945) var bandarískur hershöfðingi sem stýrði sjöundu herdeild Bandaríkjahers á Miðjarðarhafs- og Evrópuvígstöðvunum í seinni heimsstyrjöldinni. Hann er þó þekktastur fyrir að stýra þriðju herdeild Bandaríkjahersins í Frakklandi og Þýskalandi eftir innrásina í Normandí í júní árið 1944.

George Smith Patton
George Patton sem lautinant-hershöfðingi.
Fæddur11. nóvember 1885
Dáinn21. desember 1945 (60 ára)
StörfHermaður
MakiBeatrice Banning Ayer (g. 1910)
BörnBeatrice Smith, Ruth Ellen og George Patton IV
ForeldrarGeorge Smith Patton eldri & Ruth Wilson
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Patton fæddist árið 1885 inn í fjölskyldu hermanna. Ættingjar hans höfðu verið hermenn bæði í her Bandaríkjanna og her Suðurríkjasambandsins í Þrælastríðinu. Patton gekk í herskóla Virginíu og síðar í bandaríska herháskólann í West Point. Hann æfði skylmingar og hannaði eigin sverðtegund sem var kölluð „Patton-sverðið“ eftir honum. Patton keppti á sumarólympíuleikunum árið 1912, meðal annars vegna skylmingahæfni sinnar. Hann komst fyrst í hernaðarátök árið 1916 þegar hann tók þátt í misheppnuðum leiðangri til Mexíkó til að handsama Pancho Villa. Hann gekk síðan til liðs við hina nýstofnuðu bandarísku skriðdrekadeild og barðist með henni í fyrri heimsstyrjöldinni. Patton særðist í Frakklandi seint í stríðinu. Á millistríðsárunum lék hann lykilhlutverk í þróun brynvarðra herfarartækja og gegndi ýmsum hernaðarembættum víðs vegar um Bandaríkin. Hann kleif upp metorðastigann og var orðinn foringi annarrar bryndeildar Bandaríkjahersins þegar Bandaríkin gengu inn í seinni heimsstyrjöldina.

Patton fór fyrir innrás bandarískra hermanna í Casablanca í Torch-aðgerðinni árið 1942. Þar sannaði hann sig sem herforingi með því að stappa stálinu í bandaríska hermenn sem höfðu glatað baráttuandanum. Patton stýrði sjöundu herdeild Bandaríkjahersins í innrás bandamanna í Sikiley, en þar var hann fyrsti herforingi bandamanna sem náði til Messinu. Patton vakti hneyksli almennings eftir að hann gaf tveimur höggdofnum hermönnum kinnhest og var tímabundið leystur frá herstörfum. Patton sneri aftur á vígvöllinn sem foringi þriðju herdeildarinnar í júní árið 1944 eftir innrásina í Normandí og stýrði áhlaupi bandarískra bryndeilda frá París til bakka Rínarfljótsins. Hann veitti síðan bandarískum hermönnum liðsauka við Bastogne í Ardennasókninni og hafði ráðist með her sinn inn í Þýskaland undir lok stríðsins.

Eftir stríðið varð Patton herstjóri Bæjaralands á meðan á hernámi bandamanna stóð en var leystur frá störfum fyrir að gera lítið úr tilraunum til þess að uppræta nasisma í Þýskalandi. Hann stýrði fimmtándu herdeild Bandaríkjahers í rúman mánuð. Patton lést í Þýskalandi þann 21. desember 1945 vegna meiðsla sem hann hlaut í bílslysi tólf dögum fyrr.

Litríkur persónuleiki Pattons og afrek hans sem herforingi gerðu hann frægan og dáðan en hann varð jafnframt umdeildur vegna harkalegrar orðræðu sinnar. Hann varð vinsæll vegna lífsspeki sinnar, sem fólst í því að veita forystu frá fremstu víglínu, og með því að blása hermönnum eldmóð í brjóst með klúrum ræðum. Leiðtogar bandamanna voru ekki á sama máli um hæfni Pattons og ágæti hans en andstæðingar hans meðal Þjóðverja báru mikla virðingu fyrir honum. Árið 1970 kom út vinsæl kvikmynd um Patton sem vann til Óskarsverðlauna sem besta myndin það ár og festi Patton í sessi sem nokkurs konar þjóðhetju í Bandaríkjunum.

Heimild

breyta