Oddur Gíslason
Oddur Gíslason (1740 – 2. október 1786) var prestur á Miklabæ í Blönduhlíð og er þekktur fyrir þjóðsögur sem urðu til eftir að hann hvarf með dularfullum hætti.
Oddur var sonur Gísla Magnússonar biskups á Hólum og konu hans, Ingibjargar Sigurðardóttur. Hann var stúdent frá Hólaskóla og lauk síðan guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð prestur á Miklabæ 1768. Þá var hann ókvæntur en tók sér ráðskonu sem Solveig hét og var ættuð úr Fljótum, en föðurnafn hennar er óþekkt. Séra Oddur bjó í mörg ár með ráðskonunni og hún mun hafa orðið ástfangin af honum, enda var hann að sögn fríður sýnum, hraustur og karlmannlegur, vel stæður og vel ættaður. Hvort sem eitthvað var á milli þeirra eða ekki kvæntist séra Oddur ekki Solveigu, heldur fór hann vorið 1777 og bað Guðrúnar, dóttur séra Jóns Sveinssonar í Goðdölum. Giftust þau stuttu síðar og Guðrún flutti að Miklabæ. Við það varð Solveig sinnisveik og reyndi hvað eftir annað að fyrirfara sér. Það tókst henni að lokum 11. apríl 1778, er hún skar sig á háls. Hún var jarðsett utan kirkjugarðs eins og þá var gert við þá sem förguðu sér sjálfir. Virðast fljótt hafa farið á kreik sögur um að Solveig lægi ekki kyrr í gröfinni.
Það var svo átta árum seinna, 1. október 1786, að séra Oddur fór og messaði í Silfrastaðakirkju en skilaði sér aldrei aftur úr þeirri ferð. Hann kom við á Víðivöllum hjá Vigfúsi Scheving sýslumanni, en þaðan er aðeins rúmur kílómetri að Miklabæ, og reið þaðan einn í myrkri seint um kvöld og mun hafa verið nokkuð ölvaður. Sögur segja að heimilisfólki á Miklabæ hafi heyrst einhver koma á glugga og að Gísli, barnungur sonur prests, hafi verið sendur fram að opna fyrir föður sínum en hann annaðhvort engan séð eða ekki þorað að opna. En þegar komið var út um morguninn stóð hestur prestsins skammt frá bænum en hann sást hvergi. Tugir manna leituðu prests dögum saman en hann fannst ekki.
Miklar þjóðsögur urðu til um hvarf séra Odds og var sagt að Solveig hefði dregið hann (og í sumum útgáfum sögunnar jafnvel hestinn einnig) ofan í gröf sína. Einnig komst á kreik orðrómur um að prestinum hefði verið ráðinn bani af mönnum en ekki draug og var sjálfur sýslumaðurinn nefndur til. En í bréfi sem skrifað er 1789 kemur fram að lík séra Odds hafði fundist þá um vorið í læknum Gegni fyrir neðan bæinn. Sú frétt, ef rétt er, virðist þó hafa farið fremur leynt, ef til vill til vegna þess að allt benti þá til að prestur hefði fyrirfarið sér, sem þýddi að hann átti ekki rétt á legstað í kirkjugarði og eignir hans skyldu falla til konungs. Svo mikið er víst að nokkrum áratugum síðar voru flestir Skagfirðingar sannfærðir um að líkið hefði aldrei fundist og hlyti að liggja í gröfinni hjá Solveigu. En þegar bein sem talin voru úr Solveigu voru grafin upp 1914, flutt að Glaumbæ og jarðsett þar (1937), þá var þar ekkert óeðlilegt að finna.
Einar Benediktsson skáld orti kvæðið Hvarf séra Odds frá Miklabæ út frá þjóðsögunni um Odd og Miklabæjar-Solveigu.
Heimild
breyta- Sölvi Sveinsson: Af Solveigu og séra Oddi. Skagfirðingabók 15, Rvík 1986:69–127.
- „Sagan af séra Oddi og Miklabæjar-Solveigu. Sunnudagsblað Tímans, 5. ágúst 1962“.