Framleiðsluráð landbúnaðarins

Framleiðsluráð landbúnaðarins var stofnað árið 1947 til að sjá um sölu, verðmiðlun og verðskráningu á íslenskum landbúnaðarvörum. Starfsemi framleiðsluráðsins var í nánu sambandi við Stéttarsamband bænda, sem hafði með höndum yfirstjórn þess. Framleiðsluráð landbúnaðarins starfaði þar til ný skipan afurðarsölumála landbúnaðarins var tekin upp í ársbyrjun 1995 með stofnun Bændasamtaka Íslands.


Forsaga og stofnun

breyta

Þróunin í verðlagningu landbúnaðarafurða á millistríðsárunum var sú að árið 1934 voru sett svonefnd mjólkurlög og kjötlög, oftast nefnd afurðalög. Samkvæmt þeim lögum voru settar á fót tvær nefndir, kjötverðlagsnefnd og mjólkurverðlagsnefnd. Þessar nefndir voru báðar skipaðar fimm mönnum, tveimur frá samtökum bænda og öðrum tveimur frá samtökum neytenda. Formaður beggja nefnda var stjórnskipaður af ríkisstjórninni, og hafði oddaaðstöðu í nefndunum ef ekki varð samkomulag um verð afurðanna. Búnaðarráð var stofnað árið 1946 með lögum, en stofnun þess merkti að bændur misstu yfirstjórn verðlagsmála búvara. Seinna varð breyting á þessu þannig að fimm manna nefnd fór með verðlagsmálin, samkvæmt lögum nr. 11, 2. apríl 1946. Tuttugu og fimm manna ráð, sem hét Búnaðarráð og var eingöngu skipað ríkisskipuðum fulltrúum, kaus fjóra af þessum nefndarmönnum í verðlagsnefndina, sem hét Verðlagsnefnd landbúnaðarafurða. Fimmti maðurinn, sem jafnframt var formaður Búnaðarráðsins, var oddamaður þess og gat ráðið miklu um ákvarðanir. Samtök bænda höfðu á þessum tíma engin áhrif á kosningu fulltrúa í Búnaðarráð, því þeir voru skipaðir af ráðherra til eins árs setu í einu.

Með gildistöku laga nr. 94, 5. júnl 1947 um Framleiðsluráð landbúnaðarins var þessu breytt. Verðskráning, verðmiðlun og sala landbúnaðarafurða var samkvæmt þessum lögum eingöngu á hendi hins nýstofnaða framleiðsluráðs. Samkvæmt þessum lögum kaus Stéttarsamband bænda fimm fulltrúa í framleiðsluráðið, þar af einn sem skildi vera formaður, en skipaði þar að auki fjóra fulltrúa samkvæmt tilnefningu tiltekinna aðila. Þessir aðilar voru Mjólkursamsalan í Reykjavík, Sláturfélag Suðurlands og mjólkurbú utan sölusvæðis Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þessir fulltrúar voru kosnir til tveggja ára setu í senn í framleiðsluráðinu. Þar að auki skyldi kjósa þriggja manna framkvæmdastjórn Framleiðsluráðs landbúnaðarins, ásamt þremur varamönnum. Með þessu fyrirkomulagi var Stéttarsamband bænda orðið ráðandi um verðmyndun landbúnaðarafurða og afurðasölumál. Reiknuð skyldi út vísitala framleiðslukostnaðar landbúnaðarins samkvæmt upplýsingum og gagnasöfnun sem Hagstofa Íslands annaðist árlega. Vísitölu þessa ákvað sex manna nefnd, en hún var skipuð þremur fulltrúum bænda og jafnmörgum fulltrúum neytenda. Ef nefndin náði ekki samkomulagi var málum vísað til þriggja manna yfirnefndar með hagstofustjóra sem oddamann. Úrskurðir yfirnefndar voru endanlegir en háðir breytingu á vísitölunni, og var sú breyting reiknuð árlega. Verðlag var ákveðið með verðlagsgrundvelli, ákvörðuðum af eftirfarandi aðilum: Þremur fulltrúum frá Stéttarsambandi bænda, og öðrum þremur fulltrúum frá eftirtöldum félagasamtökum, einum frá hverjum: Landssambandi iðnaðarmanna, Alþýðusambandi Íslands og Sjómannafélagi Reykjavíkur.[1] [2]

Metslátrun sauðfjár 1947

breyta

Framleiðsluráð landbúnaðarins greindi frá því í janúar 1948 að sauðfjárslátrun haustið 1947 hefði verið ein sú mesta frá upphafi á Íslandi. Slátrunin var mun meiri en haustið áður, 1946, en það haust var nýlega búinn að vera niðurskurður sauðfjár í stórum héruðum og fjárskipti vegna fjárkláða. Sveinn Tryggvason, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins, gaf upplýsingar um þetta í blaðaviðtali. Alls var slátrað 370,169 fjár. Þetta gaf af sér 5,657,725 kg, en af því voru 4,316,454 kg af dilkum, en 1946 var heildarþyngd kjötsins 4,316,454 kg. Sumarslátrunin árið 1947 nam um tíu tonnum. Meðalþyngd dilka var 14.21 kg, en hafði verið 13,99 kg haustið 1946. Veðrátta og beit voru mun betri 1947 en 1946, en síðara árið var votviðrasamt víða. Sauðfé frá öskusvæðunum við Heklu, en þar hafði nýlega gosið, var vænna og í betra ásigkomulagi en margir hefðu þorað að vona. Hjá Sláturfélagi Suðurlands var slátrað kringum 50 þúsund fjár, en 28 þúsund hjá Kaupfélagi Héraðsbúa á Reyðarfirði. [3]

Verðjöfnunargjald á kjöti 1958 fyrir Hæstarétt

breyta

Hinn 20. nóvember 1958 sendi meirihluti sexmannanefndarinnar í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða frá sér fréttatilkynningu vegna þess að fulltrúar neytenda í nefndinni höfðu ákveðið að höfða mál fyrir Bæjarþingi Reykjavíkur á hendur Framleiðsluráði landbúnaðarins hinn 18. sama mánaðar. Forsaga málsins var sú að ekki varð samstaða um verðjöfnunargjald sem fulltrúar bænda í nefndinni vildu leggja á kindakjöt, en fulltrúar neytenda voru á móti slíku gjaldi. Sveinn Tryggvason, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins, benti á að starf nefndarinnar samkvæmt lögunum frá 1947 bæri að ákvarða söluverð innanlands miðað við heildartekjur þeirra sem landbúnað stunda, og sjá til þess að þær tekjur séu í sem mestu samræmi við viðmiðunartekjur annarra sambærilegra stétta. Laun bænda séu reiknuð út miðað við ákveðið afurðamagn, og þessu svo skipt niður á allar megin-búgreinar landsins, mjólkurframleiðslu, kindakjötsframleiðslu og þar fram eftir götunum. Þá sé heildsölu- og smásöluverð á vörunum auglýst. Haustið 1958 hafði verið ákveðið að leggja á aukagjald, 85 aura fyrir hvert kíló af kindakjöti, en gjald þetta átti að nota til verðjöfnunar á móti útfluttu kindakjöti. Verð í smásölu myndi því hækka um eina krónu fyrir kílóið. Rökin sem fulltrúar neytenda lögðu fyrir nefndina voru að henni væri óheimilt að leggja aukalega gjald á innlenda vöru til að greiða niður útflutningsbætur. Sveinn benti á að verðjöfnun milli innlenda og erlenda markaðirins væri forsenda fyrir því að íslenskir bændur fengju tekjur sem sambærilegar væru við viðmiðunarstéttir sínar. Þetta væri eðlileg framkvæmd en vegna blaðaskrifa um að Framleiðsluráð landbúnaðarins hefði brotið samkomulag við fulltrúa frá neytendum þyrfti að leiðrétta þetta. Í dómi undirréttar og síðar fyrir Hæstarétti var Stéttarsamband bænda sýknað af ákæru fulltrúa neytenda, og hélst hið ákvarðaða verðjöfnunargjald í fullu gildi.[4][5]

Sexmannanefnd og sjömannanefnd

breyta

Sumarið 1965 hófst undirbúningsvinna við að afla gagna og reikna út verðlagsgrundvöll fyrir verðlagsárið 1. september 1965 til 31. ágúst 1966. Þá ákvað stjórn Alþýðusambands Íslands að hætta aðild að og að afturkalla tilnefningu á fulltrúa ASÍ í þessari sexmannanefnd. Þar með varð nefndin óvirk. Þegar þetta varð ljóst gaf ríkisstjórnin út bráðabirgðalög um að verðlagsgrundvöllur fyrir 1965-1966 skyldi vera sá sami og hafði verið 1964-1965, en hann hækkaður miðað við þær verðbreytingar sem höfðu orðið síðan. Kostnaðarliðir voru hækkaðir miðað við nýtt verðlag, og reiknuð laun bænda voru hækkuð með tilliti til launahækkana sem höfðu orðið hjá viðmiðunarstéttum.  Hinn 17. nóvember 1965 skipaði landbúnaðarráðherra sjö manna nefnd til að leita eftir nýjum grundvelli og samkomulagi milli framleiðenda og neytenda. Skyldi nefnd þessi skila tillögum sem hægt væri að byggja nýja afurðasölulöggjöf á. Í sjömannanefndinni voru eftirtaldir aðilar: Ólafur Björnsson prófessor, formaður. Frá Stéttarsambandi bænda voru bændurnir Gunnar Guðbjartssoni, Hjarðarfelli og Einar Ólafsson, Lækjarhvammi. Vilhjálmur Hjálmarsson var tilnefndur af Framleiðsluráði landbúnaðarins. Sjómannafélag Reykjavíkur tilnefndi Sæmund Ólafsson framkvæmdastjóra, en Landssamband iðnaðarmanna Otto Schopka, viðskiptafræðing. Alþýðusamband Íslands tilnefndi Hannibal Valdimarsson, alþingismann. Starfsmaður nefndarinnar var Helgi Ólafsson, hagfræðingur.

Eftir 41 fund skilaði nefndin af sér áliti þann 26. febrúar 1966. Samkomulag náðist ekki í sjömannanefndinni um tillögur að nýjum og breyttum framleiðsluráðslögum, og það hvernig ætti að skipa sexmannanefndina eða hvernig hún ætti að starfa. Hannibal Valdimarsson stóð ekki að tillögum sem nefndarmenn gerðu og skilaði hann séráliti. Meirihluti nefndarinnar náði þó samkomulagi um helstu mál. Þegar þessi staða kom upp ákvað ríkisstjórnin að byggja á áliti meirihlutans í sjömannanefndinni. Lagafrumvarp var lagt fram vorið 1966 sem kvað á um breytingar á lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Ein meginbreyting var sú að sexmannanefndin yrði alltaf starfhæf jafnvel þótt aðilar sem tilnefndu fulltrúa myndu ákveða að draga fulltrúa sinn til baka. Ef einhver þeirra aðila drægju fulltrúa sinn til baka gæti landbúnaðarráðherra tilnefnt fulltrúa fyrir framleiðendur, og félagsmálaráðherra fyrir neytendur. Nefndinni til aðstoðar yrðu forstjóri Hagstofu Íslands og forstöðumaður búreikningaskrifstofu landbúnaðarins. Neitunarvald var lagt af í nefndinni og dugði einfaldur meirihluti til að taka bindandi ákvarðanir um verðlagsgrundvöll og verðskráningu. Þetta var mikil breyting frá því sem áður var, því þá þurfti að nást fullt samkomulag allra nefndarmanna. Hin nýja skipan gerði af verkum að ólíklegt væri að koma þyrfti til þess að yfirnefnd ákvarðaði um mál vegna ósamkomulags í sexmannanefndinni. Í tillögum sjömannanefndarinnar var þó einnig gert ráð fyrir að sáttasemjari ríkisins gæti verið kallaður til að reyna sættir í því tilfelli að ekki næðist samkomulag innan tilsetts tíma. Kæmu sáttaumleitanir ekki að gagni innan ákveðins tíma var heimilt að skipa þriggja manna nefnd sem hefði úrskurðarvald. Skipan þessara þriggja manna nefndar yrði þannig að þrír fulltrúar bænda skipuðu einn nefndarmann en þrír fulltrúar neytenda annan, en oddamaður skyldi tilnefndur af öllum sex nefndarmönnum. Ef ekki næðist samkomulag um oddamanninn skuli tilnefna hann af Hæstarétti.

Umræður í sjömannanefndinni um verðlagsmál landbúnaðarins árið 1966 endurspegla ýmsa þætti sem efst voru á baugi um verðlagningu búvara, verðlagsgrundvöll og aðkomu ríkisvaldsins að þessum málaflokki. Hannibal Valdimarsson vildi að verðlagning landbúnaðarafurða byggðist á beinum samningum bænda og ríkisins. Þá taldi hann að bændur ættu að hafa rétt til framleiðslustöðvunar ef ekki næðist samkomulag. Þetta sjónarmið fékk ekki hljómgrunn meðal annarra nefndarmanna, og voru fulltrúar bænda meðal þeirra. Benti meirihluti nefndarinnar á að framleiðslustöðvun myndi valda bændum miklu fjárhagslegu tjóni en koma lítt að gagni til að vernda hagsmuni bænda. Jafnframt var bent á að ef ríkið semdi beint við bændur um búvöruverð væri enginn aðili til að gæta hagsmuna neytenda. Talið var að ráðstafanir yrði að gera að halda verði landbúnaðarafurða í skefjum ef bændur semdu beint við ríkið um búvöruverð. Til að hafa hemil á verðhækkunum mætti í því tilfelli heimila nokkurn innflutning landbúnaðarvara sem yrði tollsettur. Efnahagsstofnun fékk það hlutverk að reikna út verð innfluttra landbúnaðarvara fyrir nefndina. Niðurstöður þeirrar könnunar voru að 100 prósent tollur myndi hækka kjötverð nokkuð yfir það sem þá var algengt, en verð á innfluttu smjöri yrði lægra þrátt fyrir slíkan toll. Þá kom í ljós að ef 200 prósent tollur yrði settur á innfluttan ost, myndi verð á slíkum osti samt verða lægra en á innlendri framleiðslu. Um dreifingarkostnað og vinnslukostnað mjólkurafurða á Íslandi var einnig fjallað, en í ljós kom að þessi kostnaður var talsvert lægri á landinu en í öðrum löndum sem horft var á til samananburðar, til dæmis Norðurlöndunum og Frakklandi.

Vinnutími og tekjur bænda af búum voru meðal þeirra mála sem ítarlega voru rædd í tengslum við verðlagsmálin. Svonefndur ársvinnutími á meðalstóru búi hafði verið miðaður við tiltekinn vinnutíma og tiltekið kaup fyrir hverja klukkustund samkvæmt könnun sem nefndin lét gera á[6] þessu. Í ljós kom að mjög skorti á að sannreynanlegar upplýsingar væru fyrir hendi um þennan vinnutíma. Gerðar voru athuganir á meðaltekjum verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna og meðaltekjur bænda síðan reiknaðar í verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara miðað við þetta. Þá kom í ljós að eftirspurn eftir vinnuafli og framboð á því höfðu mikið að segja um meðaltekjur þessara stétta og einnig bænda. Þegar lítil eftirspurn var eftir vinnuafli kom í ljós að tekjur urðu stundum lægri en útreiknað tímakaup. Hins vegar kom á móti að þegar tekjur ákveðinna stétta hækkuðu, til dæmis þegar sjómenn öfluðu óvenjulega vel, eða þegar vinnutími verkamanna og iðnaðarmanna lengdist umtalsvert vegna aukinnar eftirspurnar, þá hækkuðu tekjurnar mikið umfram það sem nam hækkun á almennu kaupi fyrir hverja unna klukkustund. Fulltrúar neytenda voru ósammála þessu sjónarmiði og töldu að ekki væri rétt að samþykkja hækkun á launalið bænda sem byggðist ekki á sambærilegum hækkunum hjá viðmiðunarstéttunum, eða þá á hækkunum sem grundvölluðust í stækkun búa og auknum vinnutíma sem fylgdi slíkri stækkun. Þrátt fyrir þessi mótmæli neytenda var úrskurðað af yfirnefnd um laun bænda samkvæmt úrtakinu sem miðaðist við aðrar vinnandi stéttir í sambærilegu umhverfi. Varð þetta til neytendur tortryggðu sexmannanefndina þar sem hún hafði ekki tekið tillit til sjónarmiða þeirra. Meirihluti sjömannanefndar varð hinsvegar sammála um að kaupliður verðlagsgrundvallarins skyldi byggjast á heildarvinnutíma bænda, verkafólks og skylduliðs og miðast við kaup iðanaðarmanna, sjómanna og verkamanna. Ekki mátti þó miða þetta við hlutaskipti sjómanna eða ákvæðisvinnu iðnaðarmanna og verkamanna. Ennfremur kom í ljós að fulltrúar neytenda efuðust um réttmæti upplýsinga frá fulltrúum bænda í vissum atriðum hvað snerti kostnað bænda við búrekstur og skyld efni. Nefndin var sammála um að í framtíðinni þyrfti að tryggja gæði upplýsinga sem lagðar væru fyrir sexmannanefndina til að eyða tortryggni og efasemdum.[7]

Mjólkurskatturinn - innvigtunargjald á mjólk

breyta

Vorið 1966 var ljóst að offramleiðsla á mjólk hafði leitt til birgðasöfnunar mjólkurafurða, einkum smjörs. Framleiðsluráð landbúnaðarins greip til þess ráðs að leggja svokallað innvigtunargjald á mjólk til að auka jafnvægi í mjólkurframleiðslu og hamla á móti offramleiðslu. Gjaldið var sett á 15. maí og var 50 aurar fyrir hvert kíló mjólkur. Frá 1. júní til 31. ágúst var gjaldið 1 króna fyrir kílóið. Gjaldið var fellt niður þann 1. september og ekki sett á aftur. Kúabændur mótmæltu innvigtunargjaldinu og mynduðu með sér samtök gegn því vorið 1966. Stofnaðar voru svokallaðar bændanefndir í öllum héruðum og hafði Stefán Valgeirsson, bóndi í Auðbrekku í Hörgárdal, forystu fyrir Eyfirsku nefndinni. Fundir voru haldnir til að mótmæla þessum nýju álögum um allt landið, en fyrsta nefndin til að skipuleggja mótmæli var kosin á aðalfundi Mjólkursamlags Kaupfélags Eyfirðinga um miðjan maímánuð 1966. Stefán Halldórsson, bóndi að Hlöðum í Hörgárdal, annar nefndarmaður, sagði að óánægja bænda beindist að ríkisstjórninni og Framleiðsluráði landbúnaðarins. Í fyrsta lagi væri Seðlabanka Íslands ekki heimilt að kaupa svonefnda afurðavíxla af bændum. Þetta gerðist um leið og landbúnaðarráðherra hvatti bændur til að auka og stækka búin og framleiðsluna. Bændur litu á innvigtunargjaldið sem árás á sig. Fram kom meðal bændanna að þeir teldu að ríkissjóður ætti að taka þessar byrðar á sig. Fimm manna nefnd Eyfirskra bænda samþykkti bókun um að framleiðslustöðvun á mjólk væri yfirvofandi ef ríkisstjórnin gengi ekki að kröfum þeirra, og að leitað yrði samstöðu allra kúabænda á landinu í þessu máli.[8] [9]

Búmarkið 1980

breyta

Árið 1980 kom til framkvæmda nýtt fyrirkomulag við stjórnun landbúnaðarframleiðslunnar. Ljóst var að tekjur bænda myndu skerðast en tilgangurinn var að bregðast við miklum vanda sem við var að glíma. Um sjö milljarða króna vantaði í viðbót vegna útflutnings landbúnaðarvara þó réttur til útflutningsbóta hefði verið notaður til fulls. Nýja kerfið var kallað "búmark á landbúnaðarframleiðslu." Þýddi það í raun að tekjur bænda myndu skerðast talsvert því 10 prósenta samdráttur var áætlaður í landbúnaðarframleiðslu landsins. Búmarkið var ákvarðað fyrir hvert býli fyrir sig, en það miðaðist við meðaltal framleiðslu hvers býlis á árunum 1976 til 1978. Framleiðsla minni búa og þeirra sem meðalstór töldust skyldi skert um 8 prósent en 20 prósent á stærri búum. Sem dæmi um vandann sem við var að eiga þá var nefnt að bandaríkjamarkaður hafði skerst vegna takmarkana á innflutningi. Tollverndarstefna Efnahagsbandalags Evrópu gerði útflutning landbúnaðarvara þangað lítt fýsilegan. Miðað við innanlandsverð á dilkakjöti fékkst aðeins 22 prósent verðs við útflutning til Danmerkur, til Svíþjóðar 27% og 35% til Noregs. Hvað snertir mjólkurafurðir var staðan enn verri, því útflutningur þeirra þýddi að aðeins 2 prósent af verðinu skilaði sér til bænda eftir að flutningskostnaður og gjöld höfðu verið greidd. Þá var ljóst að takmörkun á framleiðslu var ráð sem grípa þurfti til svo vandinn færi ekki stigvaxandi á hverju ári. Talað var um að vonandi yrðu þessar ráðstafanir tímabundnar og til að bjarga því sem bjargað yrði.

Ný búvörulög 1985 - fullvirðisréttur 1986

breyta

Fullvirðisrétti í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu var komið á í búvörulögunum 1985, og áttu ákvæði þeirra að koma til framkvæmda árið 1986. Fullvirðisrétturinn miðaðist við samkomulag milli ríkisins og framleiðenda sem gekk út á að ríkið tryggði framleiðendum fullt verð fyrir ákveðna og tiltekna framleiðslu af landbúnaðarvörum. Öllu landinu var skipt niður í afmörkuð svæði. Hvert svæði fékk tiltekinn hluta fullvirðisréttar. Síðan var þessum framleiðslurétti skipt aftur milli bændanna og þá miðað við þá framleiðslu sem þeir höfðu haft nokkur undanfarin ár. Þegar búmarkið var sett á 1980 minnkaði hluti bænda framleiðslu sína. Hjá öðrum bændum dróst framleiðslan saman vegna annarra ástæðna. Fullvirðisrétturinn tók ekki tillit til framleiðslunnar eins og hún hafði verið fyrir búmarkið, aðeins eftir að það var sett á. Í reynd þýddi þetta að þeir bændur sem drógu ekki úr framleiðslu sinni eftir búmarkið, en juku hana jafnvel, fengu miklu hærri fullvirðisrétt en hinir, sem fóru eftir búmarkinu. Minnt var á að þeir sem fóru að tilmælum um búmark hafi síðan fengið skertan framleiðslurétt, en hinir sem ekki fóru eftir búmarkinu hafi verið verðlaunaðir. Þá voru reglur um að bændur gætu selt eða leigt fullvirðisrétt sinn til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Ef þetta var gert glataðist framleiðslurétturinn innan svæðisins. Talað var um að þetta fyrirkomulag væri framleiðsluhvetjandi, það myndi hvetja bændur til að framleiða alltaf eins mikið og fullvirðisrétturinn sagði til um, af ótta við að glata annars hluta af sínum framleiðslurétti.

Skipting fullvirðisréttar

breyta

Búmarkssvæði landsins voru 26 að tölu og höfðu hvert sitt búmark. Í mjólkurframleiðslu var fullvirðisréttur hvers svæðis reiknaður með því að margfalda heildarfullvirðisrétt allra framleiðenda innan svæðisins með heildarfullvirðisrétti fyrir verðlagsárið, en deila síðan í þá tölu með heildarfullvirðisrétti allra framleiðenda sem fengu úthlutað eftir reglugerðum nr. 37 og 178 frá 1986 um fullvirðisrétt. Um reiknaðan fullvirðisrétt hvers framleiðanda innan svæðis var sömu reglu beitt. Fullvirðisréttur sem var reiknaður hverjum framleiðanda 1986, og gilda átti fyrir framleiðsluárið 1986 til 1987, var fundinn með því að margfalda heildarfullvirðisrétt innan búgreinarinnarinnar með fullvirðisrétti hans 1986, og deila svo í með heildarfullvirðisrétti allra framleiðenda innan búgreinarinnar. Ákvæði voru um að ef framleiðendur nýttu ekki fullvirðisrétt þann sem þeir höfðu á verðlagsárinu, þá myndu aðrir framleiðendur innan búmarkssvæðis fá þann hluta úthlutaðan sem ekki var nýttur. Slíkur ónýttur fullvirðisréttur var fyrst veittur þeim bændum innan búmarkssvæðis sem höfðu fengið úthlutað lægra hlutfall af búmarkinu en sem svaraði til fullvirðismarks viðkomandi svæðis. Á eftir þeim komu þeir sem fengu úthluað upp að búmarki, en því sem þá var eftir mátti úthluta til annarra búmarkssvæða. Sama aðferð var höfð við útreikning mjólkur- og kindakjötsframleiðslu. Þó var ákvæði um að við útreikning fullvirðisréttar í sauðfjárframleiðslu fyrir verðlagsárið 1986 til 1987 að grunntala búmarkssvæðis, sem byggist á heildarþunga kindakjötsframleiðslu svæðisins 1984-1985 og 1985-1986, megi velja það verðlagsár þar sem heildarþungi kjötsins var meiri, til grundvallar útreiknings.

Gert var ráð fyrir frekari ráðstöfunum ef þessi skerðing nægði ekki til að koma mjólkur- og kindakjötsframleiðslu í jafnvægi. Ef sú staða kæmi upp var næsta skref að skerða framleiðslu hjá þeim bændum sem færu framúr fullvirðismarki síns svæðis, og notuðu meira af sauðfjárbúmarkinu en sem því svaraði. þannig myndi 95 til 100 prósenta búmark skerðast um 10 prósent, 90 til 95 prósent búmark um 7 prósent, 85 til 90 prósent búmark um 5 prósent. Neðsta þrepið, 80 til 85 prósenta búmark, skertist minnst, eða um 1 prósent. Undanþegnir þessum skerðingum væru þeir sem minnst hafa búin eða orðið fyrir tjóni eða áföllum á viðmiðunarárunum 1984 til 1986, einnig þeir sem hefðu stofnað félagsbú, stækkað fjárhús, hlöður eða fjós, og einnig þeir sem voru að byrja í búskap í fyrsta sinn.

Fjallalambið - markaðsátak og auknar niðurgreiðslur

breyta

Í júlí 1986 var gert markaðsátak til að auka kindakjötsneyslu í landinu. Smásöluverð dilkakjöts lækkaði um 20 prósent. Niðurgreiðslur ríkisins hækkuðu úr kr. 40,78 upp í kr. 82,08 fyrir hvert kíló. Verðlækkun þessi skyldi vera í gildi á meðan kjötbirgðir entust í landinu út verðlagsárið. Þetta eru einhverjar mestu niðurgreiðslur á kindakjöti sem höfðu orðið til þess tíma. Þær skýringar voru gefnar á þessari niðurgreiðslu að hlutfall af niðurgreiðslum miðað við smásöluverð hefði lækkað mikið undanfarið og verið komið niður fyrir það sem algengt hefði verið áður fyrr. Útreikningur framfærsluvísitölunnar 1. ágúst myndi taka mið af þessari lækkun, en vonast var til að kindakjötsneysla myndi aukast í kjölfar lækkunarinnar.[10][11]

Yfirlit

breyta

Framleiðsluráð landbúnaðarins sinnti mörgum verkefnum í þau 47 ár sem það starfaði. Nokkur helstu atriðin má draga saman til yfirlits.

  • Afurðasölulögin 1934, stofnun Stéttarsambands bænda 1945 og lögin frá 1947 um stofnun Framleiðsluráðs landbúnaðarins settu málefni lanbúnaðarins í ákveðinn farveg. Bændur voru hvattir til að stækka bú sín og auka ræktun. Hlutverk ríkisins og samtaka bænda var að ákvarða búvöruverð. Viðurkennt var að bændur hefðu samtök um að auka og vernda lífskjör sín og samtakamáttur þeirra var viðurkenndur. Leiðbeiningaþjónusta var efld með þátttöku Búnaðarfélags Íslands og ríkisins. Styrkir og lán til verklegra framkvæmda voru í boði fyrir bændur. Nýbýlalög frá 1936 og lög um stofnun Landnáms ríkisins 1946 voru til að styrkja og styða búsetu í strjálbýli.
  • Útflutningur dilkakjöts var styrktur af ríkinu þegar hann byrjaði eftir alllangt hlé á sjötta áratug 20. aldar og það sama gilti um mjólkurafurðir. Lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins var breytt 1959 í þá veru að ríkissjóður greiddi útflutningsbætur sem svöruðu til 10 prósenta af öllu verðmæti búvöruframleiðslu í landinu. Ýmislegt þótti mæla með slíkum uppbótum, t.d. það að fleiri en bændur réðu miklu um verðlagningu landbúnaðarafurða, og einnig að gengi íslensku krónunnar tók meira mið af öðrum þáttum en hagsmunum landbúnaðarins. Framleiðsla landbúnaðarafurða jókst ár frá ári til ársins 1978, en þá höfðu safnast upp miklar umframbirgðir af smjöri og kindakjöti sem voru stundum nefndar smjörfjallið og kindakjötsfjallið. Þessa umframframleiðslu búvara varð að selja á erlendum markaði til að losna við hana. Innflutt kjarnfóður þurfti til að fóðra með, en útflutningsverð var oft lágt og nægði ekki til að greiða fyrir ræktun og vinnslu. Greinilegt var að nýja stefnu þurfti í málefnum landbúnaðarins, einkum sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu.
  • Lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins var breytt 1979. Tekið var upp gjald á innflutt kjarnfóður. Ríkið ábyrgðist tiltekið grundvallarverð búvara innanlands en útflutningsverð á tiltekinn hluta framleiðslunnar. Með þessum lögum var fyrst farið að ganga í þá átt að viðurkenna að takmarkanir í búvöruframleiðslu væru á næsta leiti. Búmarkskerfi var tekið upp ásamt háum opinberum gjöldum á kjarnfóður. Sameiginlega hafði þetta takmarkandi áhrif á heildarframleiðslu búvara í landinu. Fljótlega varð ljóst að til meiri aðgerða þurfti að grípa því framleiðslan var enn of mikil og lítill hljómgrunnur fyrir uppbótum á útfluttar landbúnaðarvörur. Á árunum 1984 til 1986 fóru að hlaðast aftur upp kindakjöts- og smjörföll. Ljóst var að einungis meiri niðurskurður gat komið landúnaðinum aftur í viðunandi stöðu.
  • Árið 1985 var ákveðið að tryggja greiðslur til bænda fyrir tiltekið magn afurða en fyrir það sem umfram sé framleitt verði verðið lækkað. Framleiðnisjóður landbúnaðarins var styrktur til að koma til móts við skerðingar í framleiðslu. Í búvörusamningnum 1985 var kerfi fullvirðisréttar komið á. Miðað var við að búvöruframleiðsla miðaðist við innanlandsmarkað. Tekin voru skref til að minnka útflutningsbætur. Með búvörusamningunum 1985 og 1987 var markvisst farið í þá átt að innanlandsmarkaður gæti tekið við mestu af afurðum landbúnaðarins, en ríkið hélt þó áfram að ábyrgjast talsverðan útflutning. Vandi sauðfárræktarinnar sýndist meiri en mjólkurframleiðenda.
  • Árið 1991 var gerður nýr búvörusamningur sem innihélt miklar breytingar varðandi mjólkur- og sauðfjárafurðaframleiðslu. Fullvirðisréttur var felldur út og beingreiðslur teknar upp í staðinn. Hagræðingarkrafa var gerð til sauðfjárbænda, 2 prósent 1991 og 4 prósent 1992. Ef bændum tækist ekki að hagræða urðu þeir fyrir tekjuskerðingu. Verðábyrgð ríkisins og útflutningsbætur voru felld úr gildi. Beingreiðslur voru teknar upp til bænda miðaðar við þarfir innanlandsmarkaðar. Ríkið bauðst til að kaupa framleiðslurétt í mjólk og kindakjöti af bændum. Jafnframt voru viðskipti með framleiðslurétt heimiluð.
  • Beingreiðslur í mjólkurframleiðslu voru teknar upp með svonefndum mjólkursamningi 1992. Heimilt var að kaupa og selja greiðslumark í mjólk og ýmsum atriðum mjólkurframleiðslu breytt þannig að sú framleiðsla var háð svipuðum skilyrðum og sauðfjárframleiðslan bjó við. Settar voru fram hagræðingarkröfur í mjólkurframleiðslu sem voru sambærilegar við þær sem sauðfjárbændur bjuggu við. Sett voru lög nr. 99/1993 sem færðu breytingar undanfarinnar tveggja ára í einn lagabálk.[12]

Tilvísanir

breyta
  1. „Framleiðsluráð bænda tekur við framkvæmd afurðasölulaganna“.
  2. „Átján þingmenn greiða atkvæði með búnaðarráðslögunum“.
  3. „Í sumar og haust var alls slátrað 370,169 fjár á öllu landinu“.
  4. „Framleiðsluráð ákveður hvað gera þurfi fyrir kostnaði svo að bændur fái það, sem i grundvellinum felst“.
  5. „Hæstiréttur sýknar framleiðsluráðið“.
  6. „Ný löggjöf um verðlagsmál landbúnaðarins“.
  7. „Verðlagsmál landbúnaðarins“.
  8. „Mjólkurinnlegg 1966“.
  9. „Bændafundir víðar á döfinni“.
  10. „Landbúnaðruinn undir ljánum“.
  11. „Skipting búmarks og fullvirðisréttar - farið verður eftir flóknum skerðingarreglum í kindakjötsframleiðslu ef kjötinnlegg verður meira en heildarfullvirðisrétturinn“.
  12. „Landbúnaðarstefnan og búvörusamningar“.