Stéttarsamband bænda

Stéttarsamband bænda voru almenn hagsmunasamtök íslenskra bænda um verðlagningu búvara, kaup og kjör og ýmis önnur tengd hagsmunamál bændastéttarinnar. Stofnun sambandsins var undirbúin á aukabúnaðarþingi árið 1945 á Laugarvatni, en formleg stofnun og löggilding um aðild að Búnaðarfélagi Íslands fór fram 7. til 8. september 1946. Hlutverk Stéttarsambands bænda var frá upphafi að koma fram fyrir hönd bændastéttarinnar við íslenska ríkið, stofnanir þess og aðra aðila þóðfélagsins hvað snerti verðlag landbúnaðarafurða og tengd viðskiptamál. Stéttarsambandið starfaði til ársins 1995 þegar Bændasamtök Íslands voru stofnuð, en þau tóku við sameinuðum hlutverkum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda.

Stofnun

breyta

Samþykkt var að stofna Stéttarsamband bænda dagana 7. og 8. september árið 1945, á aukabúnaðarþingi Búnaðarfélags Íslands á Laugarvatni. Þá var einnig ákveðið að næsta ár, 1946, skyldi haldið landsþing á Hvanneyri. Fyrir landsþingið skyldi haldin leynileg atkvæðagreiðsla, þar sem allir bændur, sem væru félagsmenn í Búnaðarfélagi Íslands, hefðu atkvæðisrétt. Atkvæðagreiðslan snérist um það, hvort Stéttarsamband bænda skyldi vera í tengslum við Búnaðarfélag Íslands eða ekki. Yfirkjörstjórn um atkvæðagreiðsluna var skipuð. Atkvæðagreiðslan um framtíðarskipulag sambandsins fór fram innan allra hreppabúnaðarfélaga landsins sunnudaginn 7. júlí 1946. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var, að samþykkt var að Stéttarsamband bænda hefði aðild að Búnaðarfélagi Íslands, með 2519 atkvæðum gegn 2029.[1][2]

Hlutverk og skipulag

breyta

Forsaga stofnunar Stéttarsambands bænda var, að þáverandi ríkisstjórn vildi setja bráðabirgðalög um stofnun búnaðarráðs, sem ákveða átti verðlagningu landbúnaðarvara. Búnaðarfélag Íslands brást við þessu með því að biðja landbúnaðarráðherra um að fresta gildistöku laganna þar til stéttarsamband bænda hefði verið stofnað, þannig að stéttarsambandið yrði samingsaðili við ríkið.

Á landsfundinum á Hvanneyri 1946 var nánast einhugur um að Stéttarsamband bænda hefði verðlagsvald í sínum höndum. Þá var einnig samstaða um að stofna sem fyrst Framleiðsluráð landbúnaðarins, en hlutverk þess átti að vera skipulag landbúnaðarframleiðslunnar út frá legu og landkostum hinna ýmsu héraða landsins, svo að sem bestri nýtingu yrði komið á. Fjörutíu og fimm fulltrúar, úr flestum sýslum landsins, mættu á landsfundinn, en þrír voru fjarverandi, það voru fulltrúar Vestur-Skaftafellssýslu, Norður-Múlasýslu og Barðastrandarsýslu. Um hlutverk stéttarsambandsins var eftirfarandi ákveðið:

  • Stéttarsamband bænda er deild í Búnaðarfélagi Íslands.
  • Það er fulltrúi bændastéttarinnar varðandi verðlagningu búvara gagnvart Alþingi, ríkisstjórn og öðrum aðilum.
  • Það annast samninga um kaup og kjör verkafólks í landbúnaði fyrir hönd allra bænda og rekur Ráðningarstofu landbúnaðarins.
  • Það er samingsaðili fyrir hönd bænda gagnvart öðrum stéttarfélögum og annast hagsmuni bænda.
  • Stéttarsambandið er forystuafl um að bændur beiti samtakamætti sínum til að fá kröfum bændastéttarinnar framgengt.
  • Um kosningarétt og kjörgengi gilda sömu reglur og eru um þá hluti í Búnaðarfélagi Íslands.
  • Aðalfundur Stéttarsambands bænda kýs fimm menn í framkvæmdaráð.

Í framkvæmdaráð Stéttarsambands bænda má aðeins kjósa aðila sem stunda landbúnað, eða sem sinna mikilvægum trúnaðarstörfum í þágu bændastéttarinnar. Aðalfundum Stéttarsambands bænda er stjórnað af formanni Búnaðarfélags Íslands. Formaður Búnaðarfélags Íslands og aðrir í stjórn þess hafa tillögurétt og málfrelsi, en aðeins kjörnir fulltrúar hafa atkvæðisrétt.[3] Framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda frá 1947 til 1977 var Sæmundur Friðriksson, f. 28.06. 1905, d. 29.08. 1977.[4] Næsti framkvæmdastjóri stéttarsambandsins var Hákon Sigurgrímsson meðan það starfaði, eða til ársloka 1995.[5]

Frá starfsemi fyrstu árin

breyta

Gísli Kristjánsson, sem var ritstjóri Freys fram á mitt ár 1947 og sameiginlegur starfsmaður Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands, vann að ýmsum málum beint og óbeint fyrir báða aðila, en starfsemi þessara tveggja stofnana var oft samtvinnuð. Auk þess að sinna lögmæltu hlutverki sem samingsaðili um búvöruverð, kom Stéttarsambandið þannig að ýmsum og ólíkum málaflokkum. Samkvæmt skýrslu Gísla hafði hann sinnt eftirfarandi málum og málaflokkum.

  1. Útgáfa Freys, sem var tímarit helgað bændum og húsfreyjum í sveitum landsins. Gerð var könnun á óskum lesenda varðandi útlit tímaritsins og fleiri hlutum varðandi það.
  2. Húsbygginganefnd. Farnar voru margar ferðir innan- og utanlands til að afla upplýsinga um byggingu útihúsa í sveitum. Nefndin, sem var stofnuð á ársfundi Búnaðarfélags Íslands 1945, hafði það hlutverk að álykta um og gera athugun á byggingu útihúsa. Gömul og ný peningshús voru skoðuð með það fyrir augum að gera tillögur um uppbyggingu í framtíðinni.
  3. Rannsóknir á fjósum. Þessar rannsóknir tóku til nýrra gerða af gluggum, klafaböndum og jötum úr brenndum leir með glerhúðun. Ný gerð af þökum var skoðuð, þar sem engar miðjustoðir eru notaðar. Mælingar á hita- og rakastigi framkvæmdar á löngu tímabili. Nýtt fjós á bænum Brautarhóli í Svarfaðardal, sem var byggt 1947, ásamt nokkrum öðrum nýjum fjósum, var notað til samanburðar við eldri gerð fjósa.
  4. Leiðbeiningar í alifuglarækt og alifuglakynbótum. Fuglakynbótabúið "Hreiður" var stofnað 1946.
  5. Útlendingar við sveitastörf. Búnaðarfélag Íslands gerðist aðili að samnorrænum samtökum búnaðarfélaga um gagnkvæm skipti á starfsfólki til bústarfa í sveitum. Tuttugu og fjórir Danir komu til starfa á Íslandi 1946-1947 vegna þessa samstarfs, og var dvöl þeirra frá hálfu ári upp í eitt ár eða meira.
  6. Útvarpsfræðslunefnd. Árið 1947 var sett á fót nefnd til að sjá um fræðsluerindi um landbúnað í Ríkisútvarpinu. Erindi þessi voru flutt hluta ársins, aðra hvora viku í senn, auk þess sem þrjátíu erindi voru flutt í svonefndri bændaviku.[6]

Ýmis verkefni

breyta

Starfsemi Stéttarsambands bænda tók til margra þátta sem ekki voru tilgreindir við stofnun þess, og var þróunin í þá átt. Nefna má að eftir áramótin 1950-1951 var vetur ákaflega harður á Austurlandi og Norðausturlandi. Margir bændur á þessu svæði voru komnir í þrot með hey og fóðurbæti eftir áramótin og fram um páska. Stéttarsamband bænda ásamt Búnaðarfélag Íslands stóðu að umfangsmiklum heyflutningum frá Suðurlandi og Borgarfirði á þessi svæði, bæði með leiguskipum og skipum Skipaútgerðar ríkisins. Miklir landflutningar fylgdu í kjölfarið, svo sem frá Reyðarfirði upp um sveitir Fljótsdalshéraðs, og þurfti skipulagningu til að enginn yrði hey- og forðalaus á þessu svæði. Gífurlegt fannfergi var á svæðinu og þurfti að nota jarðýtur og snjóbíl til að koma heyinu til bænda. Hey var sent til bænda í eftirfarandi sýslum: Strandasýslu, Suður-Þingeyjarsýslu, Norður-Þingeyjarsýslu, Norður- og Suður Múlasýslu og til Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar, alls um fjórtán þúsund hestar af heyi.[7]

Á Búnaðarþingi 1968 var samþykkt ályktun um að Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda fengju að stunda innflutning á fóðurkorni og öðrum nauðsynlegum rekstarvörum fyrir landbúnaðarinn. Einnig var samþykkt ályktun um að Búnaðarbanki Íslands fengi leyfi til gjaldeyrisverslunar og gjaldeyrisviðskipta, sem myndi koma bændastéttinni til góða.[8]

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda að Reykjaskóla í Hrútafirði í september 1969 var samþykkt ályktun um stofnun lífeyrissjóðs bænda. Bent var á framlag bænda í Stofnlánadeild landbúnaðarins, auk framlags annarra aðila sem stofnfé í þennan nýja lífeyrissjóð. Í tillögum um lífeyrissjóðinn var gert ráð fyrir að hann næði einnig til launþega í landbúnaði almennt og allt fastráðið starfsfólk. Gert var ráð fyrir 1.5 prósent hækkun á útsöluverði búvöru, til að standa straum af mótframlagi við framlag bænda í lífeyrissjóðinn. Lagt er til að Stofnlánadeild landbúnaðarins fái ákveðinn hluta af framlögum bænda í lífeyrissjóðinn. Lögð voru fram drög að lagafrumvarpi um lífeyrissjóð bænda og breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins.[9]

Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands stóðu að bændaferð til Kanada í ágúst 1975. Ferðin var farin til að minnast hundrað ára búsetu Vestur-Íslendinga þar. Meðal staða sem voru heimsóttir var heimili Stephans G. Stephanssonar, skálds og bónda, við Markerville í Albertafylki. Sérstök minningarathöfn var haldin 10. ágúst við hús Stephans G. Stephanssonar. Við athöfnina lýsti Menningarmálaráðherra Albertafylkis hús Stephans G. lögverndaðan sögustað. 30 þúsund dollarar höfðu verið lagðir í sjóð til viðhalds hússins. Við þetta tækifæri afhenti Gunnar Guðbjartsson Stephans G. sjóðnum 10 þúsund dollara að gjöf frá íslenskum bændum. Við þessa athöfn flutti Guðmundur Ingi Kristjánsson frumort kvæði, helgað minningu Stephans G. Stephanssonar. Þátttakendur í ferð þessari, sem stóð frá 5. til 19. ágúst, voru 149, karlar og konur voru nokkurn veginn jafnfjölmenn í hópnum.[10]

Árið 1985 lýsti Stéttarsamband bænda yfir áhyggjum af fjárhagsafkomu margra bænda og almennt versnandi afkomu bænda í landinu. Farið var með erindi um þetta efni til landbúnaðarráðherra, sem hóf að kanna þessi mál. Ræddi ráðherra við fulltrúa frá Stéttarsambandi bænda, Búnaðarfélagi íslands, Framleiðsluráði landbúnaðarins og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Eftir þessar viðræður var Búnaðarfélagi íslands og hinum ýmsu búnaðarsamböndum landsins falið að bjóða bændum fjármálaráðgjöf og fjárhagsaðstoð, ef á þyrfti að halda. Eftir að kynningar á þessu máli voru haldnar kom í ljós að 260 bændur óskuðu eftir fjárhagsráðgjöf, og hluti þessa hóps óskaði einnig eftir fjárhagsaðstoð. Þrír héraðsráðunautar og tveir ráðunautar frá Búnaðarfélagi Íslands fengu það hlutverk að heimsækja þessa bændur og kanna aðstæður búa þeirra, og að gera rekstrar- og fjárhagsáætlanir fyrir þá.[11]

Á Búnaðarþingi 1988 sagði forseti þingsins, Hjörtur E. Þórarinsson, að miklar blikur væru á lofti um framtíðarskipan búnaðarmála á Íslandi og allt félagskerfi landbúnaðarins. Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands megi líkja við tvístofna tré sem þó er á einni rót. Kerfi landbúnaðarins væri orðið afar flókið og þungt í vöfum. Þórarinn minnti þingfulltrúa og aðra fundarmenn á að grunnur þessa félagsskapar bænda væri meira en 200 hreppabúnaðarfélög, 15 búnaðarsambönd og þjónustumiðstöð og stjórnstöð Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í Bændahöllinni í Reykjavík. Þá hafi það gerst að fyrirkomulagið um landsráðunauta í ýmsum búgreinum hafi verið gagnrýnt, jafnt innan landbúnaðarins sem utan, og þær raddir hafi heyrst að ráðunautaþjónustan væri betur kominn á öðrum höndum en hún hefði verið. Ljóst sé að vilji sé til að sameina Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda í eina stofnun. Þá hafi orðið vart við óánægju fjárveitingavaldsins sem standi straum af kostnaði við leiðbeiningaþjónustu landsráðunauta, en sú starfsemi hafi lengi verið ein hin mikilvægasta í höfuðstöðvum samtaka bænda. Krafa sé uppi um einföldun allra félagsmála landbúnaðarins og stjórnkerfi hans, og að minnka kostnað við málaflokkinn.[12]

Sameining í Bændasamtökum Íslands

breyta

Frá og með 1. janúar 1995 sameinuðust Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands í ein heildarsamtök íslenskra bænda.[13] Nafn hinna nýju bændasamtaka er Bændasamtök Íslands, með heimili og varnarþing í Reykjavík.[14]


Tilvísanir

breyta
  1. „Verðlags- og dýrtíðarmál og stofnun Stéttarsambands bænda“.
  2. „Stéttarsamband bænda stofnað á landsfundi búnaðarféíaganna að Laugarvatni“.
  3. „Búnaðarfélag Íslands beitir sér fyrir stofnun stéttarsamtaka innan vébanda búnaðarfélaganna“.
  4. „Sæmundur Friðriksson“.
  5. „Reikningar Stéttarsambands bænda fyrir árið 1994“.
  6. „Ritstjóri Freys“.
  7. „Skýrslur til Búnaðarþings árið 1951“.
  8. „Erindi stjórnar Búnaðarfélags Íslands um kjarnfóðurverzlun“. Búnaðarrit. 1. janúar 1968.
  9. „Frumvarp til laga um lifeyrissjóð fyrir bœndur og launþega í landbúnaði“.
  10. „Bændafarir“.
  11. „Könnun á fjárhagsstöðu bænda“.
  12. „Síðan ávarpaði forseti fulltrúa og gesti“.
  13. „Búnaðarþing 1995“.
  14. „„Samþykktir fyrir Bændasamtök Íslands.".